Fara í efni

ICESAVE OG PILSFALDA-HYGGJAN

Formleg, lögfest, ríkisábyrgð á innistæðum fólks í einkabönkum var óþekkt fyrir hrun. Síst af öllu var slík ríkisábyrgð hugsanleg þegar við- skiptabankar léku frjásir hlutverk fjárfestingafélaga og vogunarsjóða. Sjálfstæðir innistæðutryggingasjóðir báru ábyrgðina lagalega. Punktur.       
Á hitt ber þó að líta að úrkynjað og spillt fjármálakerfi er samfélagsskaðvaldur. Hrynji fjármálakerfi ríkis til grunna skaðar það alla þegna og  varðar því samfélagsstjórnvöldin. Af þeim ástæðum ber hverju ríkisvaldi skylda til fyrirbyggjandi aðgerða, með aðhaldi og regluverki, t.d. til að sporna við fjárglæfrum banka og glæpaverkum.    
Ein aðferðin er að múlbinda banka við sígilt viðskiptahlutverkið en láta aðra um áhættuleiki. Í blönduðu hagkerfi felur bein ríkisaðild að stórum hluta viðskiptabanka í sér öryggi. Viðskiptabankar eiga að starfa að samfélagsþjónustu fremur en að efla eigin gróðaveg. Það markmið hvarf á nýliðnum blöðrutíma. (Og hefur ekki enn fundist á Íslandi.)      "Nýkratísk" stjórnvöld Bretlands tóku við kefli Thatcersimans og ákváðu að blóta frjálshyggjunni opinskátt. Í þeim efnum gekk ekki hnífur á milli stríðsfélaganna Blair og Bush. Hægristjórnir Davíðs, Halldórs og Geirs á Íslandi voru með á þessum nótum.       
Þótt ekki sé kostur á lagasetningu sem bókstaflega múlbindur ríkisvaldið til ábyrgðar á mögulegum og líklegum einkafjárgæfrum hefur ríkið fengið póltíska skyldu að varna hruni fjármálakerfisins. Þessa pólitíska skylda ríkissins gagnvart eigin fjármálakerfi birtist m.a.í íslensku neyðarlögunum við hrunið. Hún birtist líka í geðþóttaákvörðun breskra og hollenskra stjórnvalda að bæta Icesavefórnarlömbum hluta innistæðna í umræddum löndum. Þar blasti annars við hættan á stórfelldu áhlaupi á aðra, stærri, vandræðabanka, sem sömu stjórnvöld dældu ríkisfjámagni í.        
Síðasta hægristjórn íhalds og krata efldi útblástur einkabankanna og ráðrúm til fjárglæfra. Eiturbréfakaupum  Seðlabankans var ætlað að skapa svikamyllunni spilafé, þegar öll von hennar virtist úti. Það örlæti á almannafé kostar eitt sér a.m.k. 400 milljarða samfélagsskuld. 200 milljörðum almannafjár var mokað í peningamarkaðssjóðina og trygging bankainnistæðna á Íslandi kostaði sitt.  Allt þetta ríkistjón mun hellast yfir íslenskan almenning nú og um ófyrirséða framtíð. Rætur þessara ríkisútgjalda á Íslandi voru pólitískar, ekki lögskyldaðar, m.ö.o. byggðust á geðþótta og voru að hluta til myrkraverk.         
Kröfur breskra og hollenskra stjórnnvalda um íslenska ríkisábyrgð á geðþóttaákvörðunum þeirra til bjargar ásýnd eigin fjármálakerfa er sannarlega óeðlileg og óviðkunnanleg. Pilsfaldakapítalisminn gengur út á að sérhvert ríki verji hagsmuni eigin auðstéttar. Sá var tilgangur breskra og hollenskra stjórnnvalda með Icesaveútgreiðslunum, að verja eigið fjármálakerfi. Tilgangurinn var ekki að verja fallinn Landsbanka, íslenska hagsmuni eða vorkunsemi við innistæðueigendur. Endurkröfurnar á hendur íslenska ríkinu eiga sér auðvitað enga lagastoð, en að auki eiga þær sér varla siðferðisstoð.        
Lygaspuni frjálshyggjupáfa felst í að óheft eigi ráðrúmið að vera til gróðasóknar, ekki síst í fjármagnsviðskiptum. Slíkt ráðrúm hefur nú enn einn ganginn leitt til heimskreppu.  Á Íslandi er stórkreppa. Íslenskt samfélag er nú stórskaðað vegna heimsku eigin stjórnvalda en hlýtur að frábiðja sér ábyrgð á öryggi og eftirliti með fjármálastarfsemi í öðrum ríkjum. Pilsföld íslenska ríkisins eru víð en þó takmörkunum háð.        
Á Íslandi hljóta menn að spyrja hversu langt skal gengið í að þjóðnýta tjón hinna frjálsu fjárglæfarafla hérlendis þegar neyð blasir við. Ekki síst við þær aðstæður að þau ganga enn lausum hala !         
Byrðar íslensks almennings eru ærnar vegna innanlandsóstjórnar þótt ekki bætist við ábyrgðarskylda á óstjórn valdhafa í öðrum ríkjum. Þessi ætti að vera grundvallarsýnin á Icesavekröfurnar. Um víða veröld er pilsfaldakapítalisminn í ferskri, gagnrýnni umræðu.  Ábyrgð Íslendinga á braskkerfum annarra ríkja er auðvitað engin. Þess vegna á fyrst að huga að greiðsluskyldu en síðan að greiðslugetu, ef hún þá fyrirfinnst.                                                                         
Baldur Andrésson