Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ skrifar: AF MEINTUM SAMHLJÓMI VERKALÝÐS-HREYFINGAR OG AGS
Félagi Ögmundur heldur áfram að búa til einhvern tilbúin
veruleika á heimasíðu sinni sem á lítt skylt við þann veruleika sem
við hin búum í. Þannig fullyrðir hann: ,,Ég veit nefnilega mæta vel
að aðilar vinnumarkaðar gengu síðastliðið vor jafnvel lengra en
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn í kröfum um niðurskurð hjá hinu opinbera
- þar með innan almannaþjóðnustunnar - á sama tíma og þeir reistu
kröfur um aukið framlag í Starfsendurhæfingarsjóð og aðra sjóði á
eigin vegum.''
Þetta er alveg makalaus málflutningur þingmannsins, hið
rétta er að aðilar vinnumarkaðarins höfðu frumkvæði að því við gerð
stöðugleikasáttmálans að falla frá 150 mill.kr. framlagi á árinu
2009 og buðust til að fresta 750 mill.kr. framlagi á árinu 2010 til
ársins 2011 einmitt til að draga úr niðurskurði í ríkisrekstri -
þar með talið almannaþjónustunni. Að beiðni ríkisstjórnarinnar varð
úr, að framlag ríkisins mun koma til framkvæmda í hægum skrefum
fram 1. júlí árið 2013.
Er það nema von að maður tali um ósmekklegheit, því eins og
þingmaðurinn segir í pistli sínum var hann heilbrigðisráðherra á
þessum tíma og bar sjálfur ábyrgð á því að skera framlög til
endurhæfingar harkalega niður á þessu ári. Það er því alveg út í
hött fyrir hann að reyna að koma ábyrgðinni yfir á aðila
vinnumarkaðarins með þessum hætti.
Varðandi hugmyndir um að freista þess að ná nauðsynlegri að lögun
ríkissjóðs fyrr en samkvæmt áætlun þeirrar ríkisstjórnar sem
þingmaðurinn var og er aðili að, var það alfarið í formi meiri
niðurskurðar á beinum opinberum framkvæmdum, sem þess í stað yrðu
framkvæmdar utan ríkisreiknings með aðstoð lífeyrissjóðanna.
Varðandi komu þingmannsins í Karphúsið þá er það rétt að óskað var
eftir því að hann upplýsti aðila vinnumarkaðarins um áform sín sem
heilbrigðisráðherra um niðurskurð út frá þeirri forgangsröðun sem
samkomulag hafði náðst um við ríkisstjórnina. Mikilvægt er að hafa
í huga, að um var að ræða áætlun í ríkisfjármálum sem ríkisstjórnin
hafði samið við AGS.
Það er ósmekklegt og í rauninni með ólíkindum að gera
verkalýðshreyfinguna ábyrga fyrir þessum áformum með þeim hætti sem
þingmaðurinn reynir í pistli sínum. Hitt er rétt, að í stað þess að
upplýsa aðila vinnumarkaðarins um áform sín um framkvæmd stefnu
þeirrar ríkisstjórnar, sem hann átti aðild að, reyndi hann að fá
aðilana til að fara gegn stefnu ríkisstjórnar sinnar í
ríkisfjármálum. Því var einfaldlega hafnað og hann krafin svara
hvernig hann hyggðist standa að málum - við því átti hann engin
svör.
Að lokum um Starfsendurhæfingarsjóð, það er alveg sjálfsagt að ræða
það faglega og yfirvegað hvernig mikilvægum þáttum
velferðarþjónustunna er fyrirkomið í okkar samfélagi, það höfum við
hjá ASÍ lagt okkur fram um undanfarin ár og berum okkur ekkert
sérstaklega aumlega undan faglegri gagnrýni. Vaxandi þungi hefur
verið innan okkar raða um að veita launafólki sem lendir í
alvarlegum veikindum eða slysum raunverulegt tækifæri til að ná
fyrri starfsorku með trúverðugri starfsendurhæfingu. Þannig hafa
afar takmarkaðir fjármunir verið settir í þessa tegund
starfsendurhæfingar. Þetta á reyndar einnig við framlög til
líkamlegrar endurhæfingar eins og framkvæmd er á Grensásdeildinni,
Reykjalundi og víðar.
Hluti þessa vanda var m.a. að verkefnið dagaði uppi í ágreiningi
milli tveggja ráðuneyta um forræði á málinu. Sem dæmi má nefna að í
desember 2007 samdi ASÍ við þáverandi ríkisstjórn um að leggja 150
mill.kr. til að efla starfsendurhæfingu, en þegar líða tók á árið
kom í ljós að ekkert af þessu fé var ráðstafað til verkefnisins
vegna þessa ágreinings. Á endanum varð að setja sérstaka
samninganefnd undir forræði forsætisráðherra til að ýta málinu úr
vör. Við þetta vildi ASÍ ekki búa og samdi einfaldlega við sína
viðsemjendur um að losa ríkið að mestu undan þessum kostnaði með
því að atvinnurekendur greiddu iðgjald í
Starfsendurhæfingarsjóð.
Var það m.a. á grundvelli víðtæks samkomulags í sérstakri nefnd sem
endurskoðun á örorkumatinu sem starfaði í rúmlega eitt ár. Ég minni
á að BSRB átti fulltrúa í þessari nefnd og átti fulla aðild að
þessu samkomulagi. Það skýtur því skökku við að halda því fram að
ASÍ og SA hafi samið um þetta eins og þruma úr heiðskýru lofti -
málið átti sér langan aðdraganda og átti ég persónulega nokkra
fundi með forystu opinberra starfsmanna og einstakra aðildarfélaga
þeirra um málið til að hvetja til þátttöku í umræðunni.
http://ogmundur.is/kjaramal/nr/4914/