Sigríður Kristinsdóttir skrifar: ÞÆR SIGLA EKKI Í LAND

Ég hef sýnt þessari ríkistjórn umburðalyndi því hún tók ekki við svo geðslegu búi. Þó að stjórnarandstaðan sé búin að gleyma hverjir settu landið á hausinn þá man ég það enda ekki með gullfiskaminni. En nú finnst mér nóg komið. Ég er tilbúin til að bera hærri skatta en að æfla að taka fæðingarorlofið af fólki án þess að það geti skipulagt sig - því kannski hefðu margir ekki farið í að eignast börn núna - fengið þá níu mánaða aðlögun og þá ákveðið hvort það vildi eignast börn á þessum skertu kjörum eða ekki. Ég vil jafnframt benda á að fæðingarorlofið var eitt af því besta í framþróun undanfarandi ára til að mæta þörfum barna, þar sem fólk hefur getað verið lengur heima við með börn sín án þess að tekjur hafi skerst mikið. Og þó að einn bankabraskari á Íslandi hafi gleypt allt fæðingarorlofið þá hefði mátt setja undir þann leka strax en ekki láta alla aðra gjalda þess.
Fyrirsögnin að þessum pistli er "Þær sigla ekki í land." Einstæðar mæður hafa hvorki tíma né kannski þrek til að vera með stórar hótanir eins og sjómenn hafa verið undanfarið út af sjómannaafslættinum, en mér finnst vissulega sjálfsagt að þeir fái þá kjaraskerðingu, sem þeir verða fyrir, bætta af útgerðinni. Þótt þetta sé fimmtiu og fimm ára gamalt fyrirkomulag þá hefur margt breyst á styttri tíma og útgerðarmenn ekkert of góðir til að greiða sjómönnum þennan afslátt. Það er nú einu sinni þannig að þegar konur eiga von á barni þá eru þær ekki í miklum mótmælaham, þær bera nýtt líf undir belti sem þarf að vernda og þær hugsa því meira á mjúku nótunum. Svo skil ég ekkert í því að ekki hafi heyrst í neinum íslenskum karlmanni út af ummælum Vilhjálms Egilssonar, að karlar fari í fæðingarorlof til að gera eitthvað allt annað en að hugsa um börnin sín. Ég hef trú á að karlmenn hugsi vel um börn í sínu fæðingarorlofi. Við vitum að það eru alltaf einhverjir sem misnota réttindi en við getum ekki látið alla gjalda þess þótt einhverjir misnoti kerfið. Þess vegna erum við saman í þjóðfélagi.
Ég skora á karlmenn á Íslandi að mótmæla þessari dæmalausu staðhæfingu Vilhjálms Egilssonar og vernda um leið börnin sín. Og ég vona að íslenska ríkisstjórnin finni einhverjar aðrar leiðir til tekjuöflunar en að rýra kjör einstæðra kvenna og brjóta á rétti barna til að vera með foreldrum sínum. Það er ekki nóg að tala um blessuð börnin á hátíðarstundum heldur þurfum við að sýna þeim umhyggju í verki.
Sigríður Kristinsdóttir, sjúkraliði

Fréttabréf