Halla Gunnarsdóttir skrifar: MANNAFLSFREKT OG VERÐMÆTA-SKAPANDI

Í síðasta mánuði breyttust atvinnuleysistölur á þann veg að heldur dró úr atvinnuleysi meðal karla en það jókst meðal kvenna. Hið fyrrnefnda er vissulega fagnaðarefni en hið síðarnefnda veldur miklum áhyggjum. Eins og við mátti búast eru það einkum karlar í mannvirkjagreinum sem hafa fengið störf en sá geiri fraus nánast algerlega við bankahrunið. Konurnar sem eru að missa vinnuna koma hins vegar úr fræðslustörfum og innan úr heilbrigðiskerfinu. Með því að fækka störfum sem þessum er verið að stefna grunnstoðum mennta- og velferðarkerfisins í hættu. Það vill nefnilega svo til að rekstur velferðarkerfisins er mjög mannaflsfrekur og verðmætaskapandi, svo notuð séu hefðbundin orð til að lýsa þessum mikilvægu störfum. Án starfsfólks er ekki hægt að reka heilbrigðisþjónustu og án starfsfólks er ekki hægt að halda úti kennslu og fræðslu.
Einnig má benda á að þær konur sem þarna missa vinnuna eru sannarlega ekki hálaunakonur. Þess vegna má spyrja hver raunverulegur sparnaður sé fyrir ríkið að senda fólk úr mikilvægum störfum inn á atvinnuleysisskrá, þar sem aftur þarf að bjóða upp á vinnumarkaðssúrræði og mikið þrek fer í að finna störf fyrir viðkomandi. Atvinnuleysistölur gefa stjórnvöldum vísbendingar um hvernig á að halda á spöðunum í komandi niðurskurðaraðgerðum. Þá skulum við huga að því sem mestu máli skiptir.

Fréttabréf