Fara í efni

EN ÞEIM YFIRSÁST BJÖRGIN...

 ,, . . . ok skal þat barn út bera, ef þú fæðir meybarn, en upp fæða, ef sveinn er."

Í Gunnlaugs sögu ormstungu dreymir Þorstein, son Egils Skallagríms-sonar, að hann sé staddur heima á Borg. Hann lýsti draumnum og sagði: ,,Sá ég upp á húsin og á mæninum álft eina væna og fagra, og þóttist ég eiga og þótti mér allgóð.  Þá sá ég fljúga ofan frá fjöllunum örn mikinn. Hann fló hingað og settist hjá álftinni og klakaði við hana blíðlega ... Því næst sá ég fljúga annan fugl úr suðurátt. Sá fló hingað til Borgar og settist ... hjá álftinni og vildi þýðast hana. Það var og örn mikill..."

Brátt ýfðist sá fuglinn er fyrir var, og börðust þeir snarplega og lengi, og  blæddi báðum. ,, ... Og svo lauk þeirra leik, að sinn veg hné hvárr þeirra af hús-mæninum, og voru þá báðir dauðir, en álftin sat eftir hnipin mjög og dapurleg...."

Austmaður nokkur réð drauminn á þann veg að kona Þorsteins myndi brátt ,,fæða meybarn fritt og fagurt, og munt þú unna því mikið. En göfgir menn munu biðja dóttur þinnar ... og leggja á hana ofurást og berjast um hana og látast báðir af þeim sökum....

... Um sumarið bjóst Þorsteinn til þings og mælti til Jófríðar húsfreyju áður hann fór heiman: ,,Svo er háttað," segir hann,  ,,að þú ert með barni og skal það barn út bera, ef þú fæðir meybarn, en upp fæða, ef sveinn er...". Er Þorsteinn hafði þetta mælt þá svarar Jófríður: ,,Þetta er óþínslega mælt, slíkur maður sem þú ert ..." 

... Og Þorsteinn svarar: ,,Veist þú skaplyndi mitt," segir hann, ,,að eigi mun hlýðisamt verða, ef af er brugðið." 

Takið eftir að hann talar niður til hennar, eins og hún viti ekki að hún sé barnshafandi, hann skipar henni fyrir eins og hún sé ánauðug og hann hefur jafnvel í hótunum verði honum ekki hlýtt .. 

En  Jófríður var ekki viljalaust verkfæri bónda síns,  ,, ... hún ,,var skörungur mikill," segir í sögunni.  

Meðan Þorsteinn er á Alþingi, fæddi Jófríður meybarn ákafa fagurt. Hún sendi smalamann sinn þegar af stað með litlu stúlkuna til Þorgerðar Egilsdóttur og Ólafs pá í Hjarðarholti í Dölum, og þar ólst stúlkan upp í þeirra umsjá.  

Álftin unga í draumi Þorsteins er dóttir hans, Helga hin fagra, en hún var að ,,sögn ... fegurst kona á Íslandi. Hár hennar var svo mikið, að það mátti hylja hana alla, og svo fagurt sem gull barið ...."  En ernirnir eru táknmyndir tveggja bardagamanna, þeirra Gunnlaugs ormstungu, og Skáld-Hrafns Önundarsonar. Báðir voru höfðingjasynir og miklir fyrir sér. 

Helga var heitkona Gunnlaugs og skyldi bíða hans í þrjá vetur meðan hann er erlendis. En þar sem Gunnlaugur kom ekki heim fyrr en að fjórum vetrum liðnum, var Helga gefin Hrafni.  Það gat Gunnlaugur ekki sætt sig við, og gengust þeir á hólm, fyrst á Alþingi en seinna í Noregi, og var það hinn síðasti bardagi beggja.

Hrafn varð óvígur og bað Gunnlaug að færa sér vatn.    

,,Svík mig þá eigi, ef eg færi þér vatn í hjálmi mínum," sagði Gunnlaugur, og Hrafn hét því. Er Gunnlaugur færði honum vatnið, hjó Hrafn með sverði sínu í höfuð Gunnlaugi.

,,Illa sveikstu mig nú," sagði Gunnlaugur.

,,Satt er það," sagði Hrafn, ,,en það gekk mér til þess, að ég ann þér eigi faðmlagsins Helgu hinnar fögru." 

 ---------------------------------------------------

Atburðir þeir, sem hér er lýst, áttu sér stað á 25 ára tímabili á árunum 984 til 1009, skv. tímatali Gunnlaugs sögu. Helga hin fagra og Gunnlaugur eru bæði fædd árið 984 og því gerist sá atburður í heiðni er Þorsteinn mælir til konu sinnar, að fæði hún meybarn, skuli bera það út.

Þorgeir Ljósvetningagoði sagði upp hin nýju lög á Alþingi árið 1000. Hann ákvað að allir menn skyldu taka kristni, en þó máttu menn blóta á laun, bera út börn og éta hrossakjöt sem áður. Ef sannað var með vottum að menn blótuðu á laun, skyldi það varða  fjörbaugs-sök, en annars látið átölulaust. Fáeinum vetrum síðar var þessi heiðni afnumin.

Sá, sem dæmdur var fjörbaugsmaður á þessum tíma, var dæmdur til  þriggja ára útlegðar af landinu.  Samkvæmt því, var það meiri glæpur að blóta á laun, þ.e. að ákalla hin heiðnu goð,  en að deyða barn, - þó það væri bara meybarn, - því að útburður barns var ekki talið saknæmt athæfi.

Er útburður viðhafður í íslensku samfélagi enn í dag ?

Því miður verður að svara því játandi þótt eðlismunur sé á. Því að nú eru heilu fjölskyldurnar bornar út af heimilum sínum, reknar út á guð og gaddinn vegna skulda, því að bankarnir heimta sitt.  

---------------------

Var jafnrétti kynjanna ríkjandi á Íslandi á þessum tíma? Nei, lítið fór fyrir því.  

Hvað með skoðanafrelsið? Eða tjáningarfrelsið? Er þess oft getið í Íslendingasögunum að kona hafi  látið skoðun sína í ljós í heyranda hljóði á Alþingi? Eða flutt þar ræðu?  -- Nei. Engin dæmi finnast um slíkt.

Hvað með eignaréttinn?   Misstu konur ekki umráð yfir eignum sínum er þær gengu í hjónaband? --  Jú, sú var reglan.

Við skilnað gat konan þó yfirleitt endurheimt framlag sitt til búsins, þótt stundum kostaði það erfið málaferli.  

Beitti Þorsteinn á Borg konu sína misrétti, jafnvel ofbeldi, þegar hann krafðist þess að dóttir þeirra yrði borin út? -

Já, auðvitað, þótt hann hefði lögin sín megin.  Skiptu tilfinningar móðurinnar hann engu máli?

Ekki er úr vegi að spyrja, á þeim viðsjárverðu tímum sem við nú lifum: Viðgengst misrétti eða ofbeldi í íslensku samfélagi enn í dag? Ef svo er, á hverjum bitnar það?  Svarið er að það bitnar helst á konum, á tekju-lægstu hópunum og á eldri borgurum. Þ.e. á þeim hópum sem minnstar varnirnar hafa og mest eru upp á samfélagið komnir.

                                      -----------------------------------

Um síðustu aldamót fékk þáverandi ríkisstjórn senda til sín ný-sjálenska kellingu til að kenna sér einkavæðingu. Hún gerði það ósvikið og lagði áherslu á þrjú meginatriði, sem fylgja yrði nákvæmlega, ef árangur ætti að nást:  

1) Það þarf að taka skjótar ákvarðanir,
2) hafa ekki samráð við neinn,
og  3) framkvæma strax

Í samræmi við ný-sjálensku regluna seldi ríkisstjórnin í hvelli stærstu ríkisfyrirtækin og bankana vinum sínum og flokksbræðrum. Fljótlega fóru að koma í ljós ,,mannkostir" nýju eigendanna og hvernig þeir birtust í breyttum stjórnunarháttum, m.a. í réttindasviptingu.

Til að fá starf hjá tilteknu fyrirtæki þurfti umsækjandi að afsala sér veikindaréttindum og þeim rétti að halda launum í barnsburðarleyfi, og  ekki mega starfsmenn gefa upplýsingar um mánaðarlaun sín eða önnur kjör, því ef upp kemst, varðar það brottrekstri.

Við allar slíkar ráðningar verða starfsmenn að undirrita yfirlýsingu um trúnað, og því falla kjör þeirra undir það sem kallað er launaleynd. Hún fylgdi í kjölfar einkavæðingarinnar, og er nú viðurkennd regla í kjara-samningi verkalýðsfélaganna. 

Atvinnurekendur tóku launaleyndinni tveim höndum, því að þeir sáu strax að hún var ein besta aðferðin til að halda laununum niðri.  Því miður hefur læðst að mér sá grunur, að forysta verkalýðshreyfingarinnar styðji launaleynd í reynd, því ekki hefur frést af neinum tilraunum hennar til að fá hana afnumda. Það finnst mér í raun óskiljanlegt, því ef  kaup og kjör heilla stétta eru leyndarmál, gerir það hreyfingunni mjög  erfitt að bæta kjör félagsmannanna og eyðileggur samstöðuna.

Annað sem fylgdi einkavæðingunni er ÓTTI.  Hann skapast við það að starfsfólkið veit að það á atvinnu sína undir náð og miskunn eigandans.  Slíkur ótti gegnsýrir ástandið á vinnustaðnum, veldur tortryggni og kemur í veg fyrir að heilbrigð skoðanaskipti eigi sér stað.

Næst þegar þið komið inn á einhvern vinnustað og spyrjið t.d. um launakjör starfsfólksins, megið þið vera viss um að viðmælandi ykkar fer undan í flæmingi, lækkar röddina og tekur að hvísla. Því nú er svo komið að veggirnir hafa fengið eyru og augu í anda Stóra-Bróður.

Heyrst hefur í ávörpum og ræðum undanfarnar vikur að það séu stjórnendur bankanna og annarra fjármálafyrirtækja sem hafi sökkt hinni íslensku þjóð svo djúpt í forað peningahyggjunnar og græðginnar að það verði margra ára starf að hreinsa skítinn burt. Því hefur gjarnan verið bætt við að stjórnvöld hafi auðveldað þeim leikinn með því að ,,gleyma" eftirlits-hlutverki sínu.

Af þeim sökum tókst hinum siðspilltu fjármálaspekúlöntum með klækjum og í blindu tillitsleysi við hag annarra en sjálfs sín, að skapa slíkt öngþveiti meðal þjóðarinnar, að ekki aðeins hefur fjöldi fólks orðið atvinnulaus og misst íbúðarhúsnæði sitt, heldur liggur við borð að fjárhirslur þjóðarinnar hafi tæmst í svikahít þessara braskara.   

Sú skoðun hefur komið opinberlega fram, að þeir sem eiga sök á því ástandi sem íslenska þjóðin á nú við að stríða, séu landráðamenn og eigi að hljóta refsingu til samræmis. Þeir léku sér með fjöregg þjóðarinnar og eyðilögðu orðspor og efnahag hennar af ófyrirgefanlegu kæruleysi --  og samviskuleysi.

Krafan er að þeir verði að lágmarki dæmdir fjörbaugsmenn, þ.e. í þriggja ára útlegð, en þeir, sem mesta ábyrgð bera, verði dæmdir sekir skógarmenn, þ.e. í ævilanga útlegð frá Íslandi.

Ég hóf mál mitt með frásögn úr Gunnlaugs sögu ormstungu, þegar Þorsteinn á Borg krafðist þess að dóttir hans nýfædd yrði borin út og skilin eftir úti á víðavangi til að deyja. 

Í dag er hin íslenska þjóð í hlutverki litlu dótturinnar, Helgu hinnar fögru.  Hinir svikulu eigendur fjármagnsins og þjónar þeirra hafa borið hina ungu þjóð út á víðavang til að deyja.         

EN --  þeim yfirsást björgin,  þeir gleymdu lífsvoninni.   

Við skulum taka höndum saman, vekja Jófríði húsfreyju og koma Helgu hinni fögru aftur í fóstur að Hjarðarholti.      

Sá á líf, sem á von.  

P.S. Framanritaða ræðu flutti undirrituð á ,,Baráttudegi kvenna", 8. mars ´09, í Ráðhúsi Rekjavíkur.
Baráttukveðjur.
R.G.G.