Fara í efni

BROS ÁN SKEMMDRA TANNA

Svo margt hef ég lesið um stjórnmál að ég hef áttað mig á því að það er sama hvað kenningarnar nefnast, alltaf skal í þær vanta aðalatriðið. Og aðalatriðið er, að aldrei er gert ráð fyrir græðgi manna. Hvort sem um sósíalisma eða frjálshyggju er að ræða, þá skal alltaf vanta þann þátt sem eyðileggur gildi kenninganna: Græðgin, innbyggt kerfi mannshugans, lætur mannskepnuna sanka að sér öllu sem hún þarf og öllu sem hún þarf ekki.
Hvers vegna nefni ég þetta hér? Jú, vegna þess að annað aðalatriði í stjórnmálum er fólgið í því að til eru þeir sem vilja að allir fái jafnt og svo hinir sem vilja að sumir fái mikið en flestir fái lítið. Og ég nefni þetta hérna vegna þess að þetta er kjarninn í nánast allri umræðu sem núna tröllríður okkar brothætta samfélagi, þar sem venjulegt fólk reynir að brosa í gegnum tárin eftir að pótintátar frjálshyggjunnar kipptu stoðum undan því velferðarsamfélagi sem okkur var í eina tíð sagt að við tilheyrðum.

Hið breiða bros

Gegnsósa af lygum og falsi fara framsóknarmenn og sjálfstæðismenn núna fram og fordæma allt sem ríkisstjórn félagshyggju er að reyna að ýta af stað. Nú brosa vælukjóar helmingaskipta kuldalega með brenndar tennur í tranti og gleyma vísvitandi þeim staðreyndum sem eru aðalatriði. Eitt skýrasta dæmið um tvískinnunginn er að birtast okkur í því að núna væla slefberar fyrrum stjórnarherra og halda því fram að tillögur að sykurskatti hljóti að teljast óréttlátar. Svokallaðir talsmenn neytenda hafa jafnvel gengið svo langt að tala um ósiðlega atlögu að lýðréttindum með valdboði og forsjárhyggju. Þessa vörn hafa í frammi menn sem lögðu í rúst það velferðarkerfi sem hélt utanum tannvernd og tannhirðu íslenskra barna um áraraðir. Þeir ætluðu að einkavæða allt og auðvitað urðu menn að launa Vífilfelli milljónirnar sem komu í sjóð Sjálfstæðisflokksins, það gerðu þeir t.d. með því að lækka skatta á gosdrykki. Auðvitað verður saklaus meirihlutinn að borga brúsann þegar fámenn klíka gráðugra manna drottnar.

Tilgangurinn helgar ...

Þegar Ögmundur Jónasson talar fyrir sykurskatti, þá er hann að sýna velferðarsamfélaginu að með því að skattleggja eina tegund óhófs megi bæta hluta þess skaða sem óhófið kann að valda. Aðalatrið er að sykurskattur er hugsaður sem leið til að bæta tannvernd og tannhirðu íslenskra ungmenna.

 Kristján Hreinsson, skáld