Fara í efni

SYNDABYRÐI

Sennilega myndu þeir sem trúaðir eru segja að reiði guðs hafi komið yfir okkur vegna hroka og græðgi og ættum við nú að ausa okkur ösku og grátandi biðja drottinn um náð og fyrigefninga synda okkar.

Og all nokkrar eru syndirnar.  Að hafa á fáum árum misst út úr höndunum fjármálalegt sjálfstæði,  sjálfstæði þjóðarinnar riðar til falls og standa uppi sem ærulausir hryðjuverkamenn væri janfvel of stór biti að kyngja fyrir æðri máttarvöld.  Það virðist því fátt til bjargar, ekki eru núverandi ráðamenn sérlega traustvekjandi og jafnvel vafi hvort St. David getur bjargað.

Hvar byrjaði þetta?  Jú, með ofsatrú á frjálshyggju og mætti þess kvikindis sem kallast markaður.  Einkavæðingin sem keyrð var áfram í blindni og öll ríkisfyrirtæki átti að gefa traustum hollvinum.  Og það mátti engar hömlur setja, allt átti að vera svo ofboðslega frjálst.  Svo fór boltinn að rúlla.  Ódýr erlend lán, háir innlendir vextir allt hægt að kaupa og einkavæddir bankar buðu fram peninga í sekkjavís. Íbúðaverð sprengt uppúr öllu valdi, að sjálfsögðu í þágu almennings.  Risavirkjun byggð sem líklega gerir ekki betur en að framleiða rafmagn fyrir risaálver.  Byggt villt og galið út um allt.  Byggja, byggja, spenna, spenna, kaupa, kaupa.  Dansinn um gullkálfinn var hafinn, taumlaus græðgi réð ríkjum, sóa, eyða, kaupa, selja.  Ögmundur hefði getað stofnað fyrirtæki með hundrað milljóna hlutafé.  Hann hefði þá getað fengið lán uppá aðrar hundrað milljónir og lagt í fyrirtæki sem ég stofnaði þannig með tvö hundruð milljóna hlutafé.  Ég fengið lán uppá aðrar tvö hundruð milljónir og stofnað nýtt fyrirtæki með fjögur hundruð milljóna hlutafé.  Nú þurfti ég að sýna góðan rekstur og seldi Ögmundi fyrirtæið á fimm hundruð milljónir og gat þannig sýnt góðan haganð af mínu fyrirtæki.  Nú þurfti Ögmundur að sýna góða afkomu svo ég keypti fyrirtækið aftur af honum á sex hundruð milljónir og Ögmundur gat sýnt góðan hagnað.  Þannig gátum við selt hvor öðrum sama fyrirtækið nokkrum sinnum, alltaf sýnt góðan hagnað, en framleiðslan var engin.  Var þetta ekki m.a. svona sem þetta var gert ?  Kaupa fyrirtæki, búta þau niður og selja eða selja í heilu lagi alltaf með ágóða.  Hvort fyrirtækin höfðu bætt og aukið framleiðslu sína var greinilega aukaatriði.  Þetta var hreint og klárt mattadorspil.

Líklega hafa ekki nema nokkrir tugir manna staðið í þessu en árangur þeirra við þá iðju var feiki góður.  Og lýðurinn ærðist. Nóg af peningum, ekkert mál að kaupa stóra og fína bíla, byggja þrjú hundruð fermetra sumarbústað í það minnsta, fara í fjórar utanlandsferðir á ári.  Allir spiluðu með.  Og hversvegna ekki?  Þegar þjónustufulltrúinn í bankanum sagði:  Blessuð, þú ert með sparnaðinn þinn á aðeins 11% vöxtum.  Hérna er sjóður með 23% vöxtum, alveg gulltryggður.  Fæðru aurana yfir í hann.  Auðvitað trúði fólk þessu, hafði enga aðstöðu til annars.  Þarna var fólk vel menntað í viðskiptafræði með fínar gráður það hlaut að vita hvað það var að gera.  En vissi þetta fólk það?  Þetta voru starfsmenn á gólfinu sem fékk fyrirskipun frá næsta yfirmanni að selja þennan eða hinn sjóðinn.  Peningar voru eins og hver önnur vara, líkt og  húsgögn, bækur eða hvað sem var.  Markaðsvara sem þessum þjónustufulltrúum var fyrirskipað að selja og gengi það vel fengu þau kannski bónus.  Ég vildi ekki vera í stólum þess núna, fyrir framan grátandi fólk sem hefur misst allt sitt.

Fjölmiðlar spiluðu með, gapandi af aðdáun á snilli þessa fólks sem virtist geta kreist gull úr hverjum steini.  Velmenntaðir, reynslulausir krakkar komu í fjölmiðla og töluðu eins og fólk með alda reynslu á bakinu.  Voru nokkur líkindi til að við, algerir nýgræðingar, gætum leikið sem þeir sem höfðu meiri reynslu í viðskiptum en elstu menn gátu munað.  Og gerðu samt mistök.

Danir voru öfundsjúkir útí okkur, Bretar vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið.  Enginn botnaði í þessari litlu þjóð sem óð áfram sem logi yfir akur.  Og hefur nú skilið eftir sig sviðna jörð.  Auðvitað hefði heimskreppan sem Kanarnir komu á stað náð til okkar, en fyrir græðgi, glópsku og hroka fáeinna manna verða afleiðingarnar verri en annarsstaðar.

Ég leyfi mér að spyrja, hver veitti bönkunum heimild til að veðsetja íslenska ríkið fyrir inneignum út um heim?  Einkaframtaksmennirnir gátu ekki staðið einir ábyrgð á gerðum sínum, íslenska þjóðin varð að gera það.  Það er alltaf að sannast að einkaframtakið þrífst ekki nema undir pilsfaldi stóru mömmu.  Og á ekkert að gera við þá sem komu okkur í þessa aðstöðu?  Allir brugðust, kapitalisminn brást, seðalbankinn brást, eftirlitsstofnanir brugðust svo ekki sé talað um hægri stjórnmálamennina sem brugðust hvort sem þeir kalla sig sjálfstæðismenn, framsóknarmenn eða samfylkingar eitthvað.  Kristján Júlíusson alþingismaður sagði í silfrinu hans Egils eitthvað á þá leið að þjóðin yrði að koma bönkunum til bjargar, hrunið lenti að sjálfsögðu á baki skattgreiðenda.  En hvað varð um alla þessa milljarða?  Þótt mikið af þessu væru loftbólur hlýtur einhversstaðar að standa eftir aur.  Margir fjárhættuspilaranna eiga góðar eignir hér á landi,  þeir eiga líka þotur og rándýrar íbúðir út um heim.  Og hvað um um Karabíska hafið og litlu eyjarnar?  Ríkisskattstjóri á að hafa undir höndum lista um eignir víða á þessum friðarstöðum fjárglæframanna.  Því er ekki gerð krafa í eigur þeirra hvar sem þær finnast?  Og í dýrar snekkjur í smíðum?  Svo standa menn í rústunum miðjun og orga sig hása um evru og evrópusamand.  Og orga sig hása um stærri virkjanir og stærri álver.  Getum við treyst þeim stjórnmálamönnum sem hafa kynt undir bálinu eða a.m.k. horft á aðgerðarlausir þrátt fyrir viðvaranir, sem þessir velvitandi hlógu að?  Það er talað um að gera úttekt á málinu, gefa út hvít bók.  Það hlýtur að verða kolsvört bók.  Við getum ekki treyst mörgum Íslendignum til þess.  Í verkið verða að fara færustu erlendir sérfræðingar sem völ er á, til þess að vinna verkið þarf algerlega hlutlausa aðila.  Og  þegar endurreisnin hefst verðum við að ganga hægt um.  Því miður hefur okkar þjóð oft haft til siðs að vaða fram án þess að gá niður fyrir fætur sér.  Þetta reddast.  En það reddast ekki í höndum misviturrra landa okkar, bankamanna, eftirlitsmanna og ekki síst stjórnmálamanna.  Vonandi verða þessir hrikalegu atburðir, þetta að miklu leyti sjálfskaparvíti, okkur til varnaðar.

En, ég veit ekki, kannski verður alþýðan að súpa ein seyðið beiska.  Steikurnar verða áfram á annara borðum.

Guðmundur R. Jóhannsson