Fara í efni

HÚSTÁKN - TÁKNHÚS

Hús eru kennileiti borgar og samfélags. Þau verða táknmyndir, hluti af hugarheimi lífssýn og gildismati. Kirkja,skólabygging, Alþingishús, listasafn, Þjóðleikhús, spíatali.  Í hugum okkar eru þetta hlutbundin fyrirbrigði, sem við tengjum við umgjörð og innuhald, sérstök hús með sérstaka huglæga skýrskotun einnig.Þau vísa stundum veg til skilnings á uppbyggingu samfélagsins, til skilnings á menningu, lýðræði, félagsöryggi o.s.frv. Þessi hús eignast sess í hug og hjarta. Þau eru almannaeign, kennileitin "okkar", oftast jákvæð viðmið í flóknu samhengi, sameingartákn í samfélaginu.
Önnur hús eru líka kennileiti, þó aðrir vegvísar. Kringlan,Smáralind, glæsihús fjármálavaldsins eru líka táknmyndir sem marka hugmyndaheiminn. Steypa og gler sérstakra húsa ramma inn hugmyndir okkar, treysta samhengið milli þess huglæga og  hlutlæga, skapa samhengi, skerpa skilning.
Í eina tíð varð þétt samstaða um að efla opinbera heilsuvernd meðal almennings á Íslandi. Í Reykjavík birtist viljinn í táknmynd, sem var um leið ramminn um nauðsynleg margháttuð verkefni í opinberri heilsugæslu. Táknmyndin varð að einu fegursta húsi borgarinnar í prýðilegu umhverfi við Barómstíg, nútímaleg klassík, gleðifúnkis. Mikið hugvit og umbótavilji lá mannvirkinu til grundvallar. Lengi vildu allir þá Lilju kveðið hafa. Þar varð miðstöð mæðraverndar, sóttvarna, skólatannlækninga og annarrar grundvallarþjónustu við almenning.
Allt var til reiðu að umbreyta húsinu hið nnra eftir kröfum tímans, almennt viðhald Var smámál. Lóðin gaf stækkunarmöguleika.
Einhver stjórnarnefnd skriffinna og smásála útbjó eftir pöntun dauðadóm yfir þessari glæstu velferðartáknmynd fyrir nokkrum árum.  R listinn villtist til að styðja dauðadóminn heilshugar, hægrisinnuð stjórnvöld ríkisins fögnuðu. Samstaða varð um að fella af stalli táknið um heilsuöryggi almennings, selja það fyrir fáa silfurpeninga til húsabraskara .
Varla var gjörðin orðin þegar í ljós kom að stórslys hafði orðið. Bæði sást að full þörf var fyrir húsnæðið til aðþrengdrar heilsugæslu í borginni. Hitt varð mörgum áfall að táknmynd velferðarstefnu hvarf, hún breyttist í merkingarlaust skrifli með óvíst framtíðarhlutverk. Kennieitið stóð eftir án inntaks, sálarlaust.
Harmsögu Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónstíg er nú  slegið upp í svartan húmor með því að slá þar upp einkavæddri heilsugæslu. Þá er notagildi hússins viðurkennt að hluta, en táknmyndin verður önnur. Húsið er merkt andstöðu við þann góða hug, sem skóp það. 
Í fyrstu umferð á svo að heita að einkayrirtæki séu aðeins stundarverktakar og að áfram njóti almenningur því heilsuöryggis óháð tekjum og stöðu. Enginn vafi er þó á að stefnan er í aðra átt. Molað er úr undirstöðum almennrar velferðar, stofnunum hennar er eytt eða þær sveltar, tákmyndirnar fíflaðar.
Niðurbrotið er skipulagt í skrefum. Heilsuöryggi verður senn einkaréttur hinna ríku ef áfram horfir um fantatökin.
Heilsuverndarstöðin við Barónstíg er nú horfin sem kennileiti velferðar úr hugum fólks, þótt enn standi byggingin fagra.
Eyðing þessa tákns er skelfileg gjörð. Í henni fellst áminning og hún ætti að vera brýning um  að sókn velferðarsinna er besta vörn þeirra. Nú þegar eru mörg vámerki uppi á sviði heilsugæslu. Í Reykjavík er hún óljós hræringur einkareksturs og opinberrar þjónustu, grautur sem í senn er vanhæfur, ábyrgðarlaus.þunnur og stjórnlaus. Viljinn til  einkavæðingar stendur að baki. Ætlunin er að úr rústum brostins velferðarkerfis rísi nýtt kerfi sem að öllu leyti verður andstæða þess gamla, "nýtt sóknarfæri" fyrir gróðapunga, ný leið sem breikkar bil milli samfélagshópa.
Minning um hústákn við Barónstíg er uppspretta orða minna. Húsið er til, en það hefur misst fyrri merkingu  og gildi. Jafnvel steinsteypa getur talað til fólks, hana má gæða merkingu og jákvæðu hlutverki, hún getur verið menningarviti. Ef hún er rænd merkingunni verður hún sálarlaus. Við Barónstíg hefur hlutverki húss verið snúið  gegn almannaöryggi í þágu sérhagsmuna. Almenningur á ekkert í þessu húsi, reksturinn  verður hagnaðarmiðaður. Húsið er nú tæki til niðurbrots opinberrar heilsugæslu. Ímyndin öfugsnúin.
Það er slokknað á  Barónstígsvitanum.

Baldur Andrésson