Drífa Snædal skrifar: VANDI HINNA TRÚLAUSU

Þjóðkirkjan er gríðarlega öflug á Íslandi og einmitt þess vegna er svo mikilvægt að gæta þess hvernig hún fer með vald sitt. Ríkistrúin er svo sjálfsagt mál fyrir flesta Íslendinga að efasemdaraddir hafa hingað til verið fáar og frekar daufar. Sem betur fer hefur umræðan opnast og á Auður Lilja Erlingsdóttir varaþingkona Vinstri grænna töluverðan heiður af því, en hún vakti einmitt máls á inntaki hins kristilega siðgæðis í fyrirspurn til menntamálaráðherra á nýloknu þingi.

Síðustu ár hefur þjóðkirkjan verið í töluverðri naflaskoðun. Það er varla tilviljun að á sama tíma og þjóðkirkjan metur sóknarfæri sín eflist trúboð í grunn- og leikskólum. Kirkjuheimsóknir eru fastur liður, skólakórar eru sumstaðar reknir í nánu samstarfi við kirkjukóra og jafnvel er gengið svo langt að hafa kirkjustarf innan veggja skólans eða í frístundarheimilum þar sem prestar færa sunnudagaskóla til barnanna. Það er vandasamt að vera trúleysingi í slíku umhverfi vitandi það að starf með kirkjunni getur varla flokkast undir skaðlegt starf. Það sem er boðað í trúnni er gott en umburðalyndið virðist takmarkast við trúarskoðanir. Foreldrar og börn standa trekk í trekk frammi fyrir ákvörðunum um hvort viðkomandi barn eigi að velja sig frá kirkjustarfi hvers konar og kljúfa sig þar með úr hópnum eða taka þátt í trúarstarfi sem samræmist ekki lífsskoðunum uppalenda eða barna. Ég hef tilhneigingu til að túlka trúfrelsi þannig að fólk velji trú og þátttöku í trúarstarfi en þurfi ekki að velja sig frá því. Með því að tengja trúar- og skólastarf saman er fólki ekki gefið raunverulegt val. Þau sem vilja ekki taka þátt í trúarathöfnum þjóðkirkjunnar eru sett í þá stöðu að vera þetta lið sem er alltaf með vesenið og hver vill taka það hlutverk að sér gagnvart vinnustað barna sinna? Allt of margir taka þá afstöðu að fljóta með og töluverður fjöldi fólks sem er af öðrum trúarbrögðum hefur einfaldlega ekki rödd til að mótmæla. Um er að ræða fólk sem er jafnvel nýflutt til landsins, talar ekki tungumálið og á eftir að kynnast menningunni, sem sagt fólk sem hefur ekki sömu rödd í samfélaginu og við sem nú þegar erum innmúruð. Að nýta áhrif sín í samfélaginu til að koma á kirkjustarfi í skólum og setja fólk í þá aðstöðu að þurfa að velja sig frá því er að misbeita valdi sínu gagnvart þeim sem tilheyra ekki þjóðkirkjunni.

Fréttabréf