Einar Ólafsson skrifar: AÐGENGI AÐ ÁFENGI OG MATVÖRU

Þá er það komið af fullum krafti inn á Alþingi mannréttindamálið mikla sem hefur verið bryddað upp á af og til: að við fáum að kaupa áfengi í matvöruverslunum. Mér skilst að rökin fyrir því séu einkum þau að það sé gamaldags stöðnuð afdalamennska að ekki sé hægt að taka vínflösku úr hillunni á matvöruversluninni rétt eins og annað sem við ætlum að hafa í kvöldmatinn. Það sé ómögulegt að þurfa alltaf að fara í einhverja sérverslun eftir áfenginu. Látum liggja milli hluta að áfengið sé einhvers annars eðlis en hver önnur matvara. Ég næ bara ekki alveg hvert vandamálið er. Nema það felist í þeirri goðgá að ríkið sé að skipta sé af sölunni. Og um það verður vart rökrætt frekar en önnur trúmál.

Ég skrifaði í fyrravetur grein um þessi mál, hún birtist í Morgunblaðinu 14. janúar 2007. Það er kannski í lagi að rífja hana upp:

Sumum er það mikið mál að geta keypt áfengi í matvöruverslunum og líta jafnvel á það sem mannréttindamál. Það sé skerðing á frelsi einstaklingsins að ríkið einoki áfengissölu og haldi henni í sérverslunum. Heimdellingar telja þetta slíkt stórmál að þeir hafa skipulagt aðgerðir í anda borgarlegrar óhlýðni.

Nú hefur áfengisverslunum fjölgað mjög á undanförnum árum. Ég held ég búi við svipaðar aðstæður og flestir aðrir í þéttbýli. Þar sem ég bý er vissulega svolítið úr leið fyrir mig að ná í áfengi, en ekki tiltakanlega, og þar sem ég er ekki dagdrykkjumaður veldur þetta mér sjaldnast vandræðum. Auk þess hefur áfengi ágætis geymsluþol, þannig að það er lítið mál að byrgja sig aðeins upp, eins og margir gera með aðrar vörur þegar þeir fara t.d. í Bónus.

Menn segja stundum sem svo að það sé ófært að geta ekki keypt sér rauðvínsflösku um leið og kjötið. En fáa heyri ég kvarta undan erfiðleikunum við að ná í kjöt með rauðvíninu sem maður á inni í skáp. Fyrir mig er það jafnmikið úrleiðis að ná í kjötið eins og vínið. Hverfisverslunin, sem heitir 10-11, er opin allan sólarhringinn, en ef ég ætla að kaupa eitthvað almennilegt í matinn, þá verð ég fara að jafnlangt og til að kaupa rauðvínið. Þannig er þetta með flestar hverfisbúðir, sem yfirleitt eru annaðhvort 10-11 eða 11-11 búðir. Og það sem fæst er rándýrt.

Mér finnst satt að segja meira um vert að eiga greiðan aðgang að matvöruverslun en áfengisverslum og er þó enginn bindindismaður. En frammistaða einkaframtaksins er ekkert óskaplega góð, aðgengi að góðu kjöti eða fiski er hreint ekki betra en að áfengi. Og þjónustan og fagmennskan í áfengisversluninni er auk þess betri en í hverfisbúðinni. Kannski ætti bara að þjóðnýta matvöruverslunina?
Einar Ólafsson

Fréttabréf