Fara í efni

OG SAT MEÐ BRETTUNUM HJÁ SUFFRAGETTUNUM

Um daginn áskotnaðist mér afrit af íslensku póstkorti sem er gefið út árið 1913 í tilefni af alþjóðlegri ráðstefnu kvenna í Búdapest. Konurnar komu saman til að ræða helsta baráttumál femínista þess tíma, kosningarétt kvenna. Þessar baráttukonur voru kallaðar suffragettur, dregið af orðinu suffrage, eða kosningarétti. Sem betur fer átti Ísland góðan fulltrúa á þessari ráðstefnu, Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Á póstkortinu má sjá teiknaða mynd af Bríeti, svartan kött á þaki húss, ásamt vísunni:

Með skaft fyrir hest
Hún skrapp suð´r í –PEST
Og sat með brettunum
Hjá SUFFRAGETTUNUM

Það er ótrúlegt til þess að hugsa að menn hafi lagt lykkju á leið sína til að gefa út póstkort til að hæðast að þessari för Bríetar. Femínistar þess tíma ógnuðu ríkjandi valdajafnvægi með því að krefjast þátttöku í völdunum og þess vegna urðu viðbrögðin við kröfunum svona harkaleg. Konurnar voru niðurlægðar og hæðst að þeim en við eigum þeim, ásamt framsýnum körlum, að þakka að í dag er lagalegu jafnrétti kynjanna náð.

Þetta póstkort kemur upp í hugann reglulega og er góð áminning um þá baráttu sem háð var fyrir einni öld. Sömuleiðis dúkkar þetta póstkort upp í huganum þegar viðbrögð berast við tillögum um að rétta af stöðu kynjanna í dag. Flestir eru sammála um að kynjamisrétti er við lýði hér á landi en það er ótrúlega margir tilbúnir, enn þann dag í dag, að leggja lykkju á leið sína til að tortryggja tillögur um aðgerðir, frekar en að koma með aðrar og betri tillögur í þessu sameiginlega verkefni okkar, að útrýma neikvæðum kynjamuni.

Það er algerlega ömurlegt að standa í þeim sporum að þurfa að koma með tillögur að kynjakvótum, siðareglum fyrir opinbera starfsmenn, heimsóknarbann fyrir ofbeldismenn, refsiheimildir Jafnréttisstofu vegna launamismunar svo ekki sé talað um bætur á löggjöf um vændi. Að vera í þessari stöðu í dag, árið 2007, segir okkur það að enn er langt í jafnrétti kynjanna og ég furða mig á því að við skulum ekki öll leggjast á árarnar. Stjórnmálamenn, yfirleitt af kvenkyni, leggja fram hverja tillöguna á fætur annarri og þurfa svo að standa í því að verja þær  með kjafti og klóm í öllum dægurmálaþáttum landsins. Sjaldnast eru andstæðingar tillagnanna spurðir að því hvað þeir vilji gera í staðinn, hvaða lausnir þeir hafi á kynjamisréttinu. Getur verið að femínistar á Íslandi í dag ógni enn valdajafnvæginu það mikið að valdhafar gefi sér það leyfi að rakka niður í stað þess að koma með uppbyggilegar lausnir á málinu? Hvernig er hægt að gagnrýna tillögur til að hefta mansal án þess að bjóða eitthvað í staðinn? Við ættum nefnilega öll að vera mjög meðvituð um að stefnan: Þetta er allt að koma skilar okkur ekki langt. Það sýnir hver rannsóknin á fætur annarri og því er tími til kominn að spyrja, ef þið viljið ekki þær lausnir sem eru á borðinu, hvað þá?