Fara í efni

UM STÉTTARVITUND OG HÖRKU Á VINNUMARKAÐI

Þegar fregnir bárust af því að verkafólk hýrðist í göngunum við Kárahnjúka klukkustundum saman í afar menguðu andrúmslofti og hefðu enga salernisaðstöðu og gerðu þarfir sínar hér og þar og fengju mat sendan niðrí göngin í opnum ílátum – allt með þeim afleiðingum að hátt í annað hundrað manns fengu matareitrun eða ættu við öndunarerfiðleika að stríða - datt manni helst í hug aðstaða verkafólks í upphafi iðnbyltingarinnar, þegar það var algerlega réttindalaust, en ekki vinnuaðstæður á Íslandi í upphafi 21. aldarinnar.  Manni varð líka á að spyrja:  Hefur réttindabaráttu verkafólks og stéttarvitund hins almenna verkamanns, hrakað svo mjög að í þeim efnum erum við komin áratugi aftur í tímann – jafnvel aldir?  Þarna hafast menn við í menguðu andrúmslofti neðanjarðar hálfan sólarhring, keyrðir áfram af auðvaldinu því verkinu þarf að vera lokið fyrir tilsettan tíma.  Þeim er heldur ekki gefinn tími að viðra sig smástund og njóta stuttrar hvíldar í mötuneyti.  Nei, heldur skal matur hífður niður til þeirra svo enginn tími fari til spillist. 

Impregilo er fyrirtæki sem svífst einskis þegar gróðinn er annars vegar.  Þeir virða ekki mannslífið fremur en íslenska náttúru.  Ef einn veikist og er úr leik má alltaf fá annan í staðinn.  Ekkert er þeim heilagt.  Þá munaði ekki um að stela sjúkraskýrslum til að véfengja orð heilsugæslulæknisins.  Þetta fyrirtæki reynir allt til að keyra verkið áfram með öllum ráðum enda áttu þeir lang lægsta tilboðið sem kunnugt er.  Og Landsvirkjun ver gjörðir þessara ítölsku mafíósa á hverju sem gengur.

Hefur stéttarvitund verkafólks hrakað?  Eða hefur kapítalismanum tekst að herða tök sín á verkafólki í meira mæli en áður?  Undirritaður vann í álverinu í Straumsvík á 8. áratug seinustu aldar.  Þá þótti 8 stunda vinnutími ósköp eðlilegur og sjálfsagður enda var barátta verkalýðshreyfinginarinnar fyrir 8 stunda vinnudegi mikilvæg á sínum tíma og stórt skref í réttindabaráttunni þegar honum var komið á.  Einstaka hjáróma raddir voru að biðja um 12 tíma vaktir en voru jafnharðan kveðnar í kútinn enda langur vinnutími í álveri beinlínist hættulegur öryggi og heilsu manna.  Þegar álverið í Hvalfirðinum var reist var það eindreginn vilji starfsmanna þar að fá að vinna 12 stundir í senn. 

Þau sjö ár sem ég starfaði í álverinu í Straumsvík man ég aðeins eftir tveimur tilvikum þar sem menn voru reknir úr starfi.  Brot þeirra voru þess eðlis að ekki var hægt að afsaka þau á nokkurn hátt.  Í tíð Rannveigar Rist hafa nokkrir verið reknir fyrir litlar sem engar sakir; að sögn Rannveigar af því þeir áttu ekki lengur samleið með fyrirtækinu.  Hvað merkir það?  Aldrei átti ég samleið með Ísal þegar ég vann þar, a.m.k. ekki í þeim skilningi að ég færi að reka áróður fyrir því opinberlega.  Þvert á móti gagnrýndi ég ýmislegt hjá fyrirtækinu og gerði það m.a.s. opinberlega og undir nafni.  En ég vann mína vinnu náttúrlega samviskusamlega.  Nú orðið er lýðræðið þannig að enginn þorir að koma fram undir nafni af ótta við að vera rekinn.  Ég rak m.a. kommúniskan áróður á vinnustaðnum og það með fullri vitund forstjórans, Ragnars Halldórssonar.  Ég var samt aldrei rekinn.  Um tíma var haft eftirlit með störfum mínum – sem sjálfsagt hefur verið eðlilegt frá sjónarhóli Ísal.  Nú verða menn hins vegar að reka áróður fyrir Alcan, að öðrum kosti eiga þeir á hættu að verða reknir.

Þó að þeir sem unnu hjá álverinu í Straumsvík á þessum tíma væru ánægðir í starfi hefði fæstum þeirra dottið í hug að reka áróður fyrir fyrirtækið opinberlega né halda á lofti fána þess óbeðnir.  Þegar ákveðið var að reisa álver í Reyðarfirði fögnuðu margir Austfirðingar með því að veifa fána Alcan og halda einhvers konar sigurhátíð.  Og þegar Alcan samþykkti að kanna möguleika á álverinu í námunda við Húsavík gripu menn þar til þess ráðs í sigurvímu að rífa niður íslenska fánann og reisa fána Alcan að hún.  Og nokkrar konur földu peysufötin inní klæðaskáp og klæddu sig í fáránlegan álbúning.  Þessi tíðindi þóttu þar á bæ jafn merkileg og þegar Garðar Svavarsson kom þar að landi forðum tíð.  Hversu lágt getur mannskepnan lagst?
Sigurður Jón Ólafsson