Fara í efni

AÐ SKILJA KIND OG KÚ

Alveg er það dásamlegt að Guðni Ágústsson frá Brúnastöðum skuli vera orðinn formaður Framsóknarflokksins. Arfleið Halldórs Ásgrímssonar í flokknum er ekki björguleg, og mikið lagði hann á sig til að Guðni yrði ekki formaður. Það mátti víst alls ekki verða að bóndasonurinn, sem var alinn upp við að konur stæðu „á bak við eldavélina” eins og hann komst einhverntíma að orði, yrði formaður bændaflokksins. Þess í stað sótti Halldór Jón Sigurðsson í Seðlabankann, líklega til að bjarga því sem bjargað varð, eftir að Halldór hafði verið eins og frímerki á Davíð Oddsyni í hálfan annan áratug. Ekki varð sú ferð til fjár og verður Jóni ekki kennt um. Þessi mikli valdaflokkur, Framsókn, var rúinn trausti, einkum í þéttbýlinu eftir hörmulega stjórn Halldórs á flokknum um árabil.

Guðni hefur marga kosti umfram Halldór sem formaður og þann helstan að geta verið afar skemmtilegur á sinn sérstaka máta, kostur sem svo sárlega vantaði í karakter Halldórs Ásgrímssonar. Hann er Framsóknarflokkurinn holdi klæddur, það sést á honum langar leiðir að hann er framsóknarmaður, meira að segja langræktaður. Málfar hans og öll holning ber þessu greinileg vitni. Halldór er nú sestur á einhvern kontór í norrænu samstarfi, verður ekki lengur vart í fjölmiðlum og ber grunsamlega lítið á söknuði en frægðarsól Guðna á eftir að skína, sennilega um alllangt árabil.

Það er full ástæða til að óska Guðna til hamingju með hina nýju vegtyllu, þó maður óttist um leið að honum takist að afla þessum ónauðsynlega flokki aukins fylgis. Hér er kannski of djúft í árinni tekið að telja Framsókn ónauðsynlega, en hitt er víst að nú er orðið lítið pláss fyrir hana í þéttbýlinu á Suð-Vesturhorninu. Reykvíkingar vildu ekki Framsókn á þing og aðeins munaði hársbreidd að Siv næði inn í Kraganum. Hvers vegna er ekki þörf fyrir flokkinn í þéttbýlinu? Einfaldlega vegna þess að þar er framboðið um miðjufylgi einfaldlega meira en nóg. Sjálfstæðisflokkur og Samfylking sækja inná miðjuna og vinstri sinnaðir framsóknarmenn hneigjast greinilega til þess að kjósa VG.

Mér þótti sérlega gaman af að sjá hvað Guðni var úrillur útí VG þegar hann sagði að vinstri stjórn gengi aldrei vegna þess að Vinstri grænir væru ekki stjórntækir. Hann hafði að vísu rétt fyrir sér í því að vinstri stjórn hefði átt verulega erfitt uppdráttar, ekki vegna þess að VG séu ótækir í stjórn, heldur af því að valdahlutföllin í þjóðfélaginu eru nú stórlega beytt. Hann tók sjálfur dæmi um það, þegar hann vakti athygli á aukablaði DV rétt fyrir kosningarnar, þar sem blaðið (sem er í eigu Baugs) blandaði sér hressilega í kosningabaráttuna með því að koma sér inná öll heimili í landunu, 100.000 eintök fóru innum bréfalúgurnar. Auk þess náði Jóhannes í Bónus sér niðri á Birni Bjarnasyni með heilsíðu auglýsingu um að kjósendur skyldu strika hann út. Þeta eru dæmi um það hvernig hin nýríka borgarastétt getur beitt sér í pólitík, fram hjá stjórnmálaflokkunnum, en til stuðnings þeim sem henni hugnast.

Guðni fer nú fyrir flokki sem svo sannarlega er ekki gjaldgengur í stjórn eins og sakir standa, svo stórlega laskaður sem hann er eftir úrslit koninganna og viðskilnað Halldórs Ásgrímssonar. Spennandi verður að fylgjast með því hvernig honum tekst upp – getur hann rifið flokkinn upp? Eða mun kannski fara þannig fyrir honum að strákarnir á mölinni, sem skilja alls ekki eðli Framsóknar (að hún ann landinu, jafnvel því sem hún eyðir), geri harða hríð að honum og telji það bjargráð fyrir flokkinn að koma Guðna frá, en Birni Inga í stólinn í staðinn. Það þykir mér raunar mjög sennilegt. Þetta eru piltar aldir upp undir handarjaðri Halldórs Ásgrímssonar, sem helst af öllu vilja losa sig við fortíð flokksins, en Guðni minnir okkur svo sannarlega á hana. Það er ekki galli á formanninum, þvert á móti kostur, því hvaða vit er í því fyrir flokkinn að kannast ekki við fortíð sína þegar hann getur ekki boðið uppá neitt nýtt og eftirtektarvert?

Ég hef sterka trú á því að Guðna takist að rífa flokkinn upp, fái hann til þess frið. Hann er nefnilega maður húmoristanna, talandi klassíska íslensku, sem allir þrátt fyrir allt skilja. Drengirnir hans Halldórs hafa aftur á móti ekkert að segja – og alls ekkert skemmtilegt. Þeir gætu alveg eins verið í Heimdalli. Á hinn bóginn má vel vera að Guðni þurfi ekki að óttast atlögu þeirra, því kosningaúrslitin hafa ekki fært þeim nokkurn skapaðan hlut. Hugmyndafræði þeirra (sem ég viðurkenni fúslega að ég veit varla hver er) nær ekki eyrum fólks í þéttbýlinu og enn síður útum land þar sem menn skilja bæði sauðkind og kú eins og Guðni. Þegar allt kemur til alls stendur formaðurinn því líklega nokkuð föstum fótum og eitt er að minsta kosti víst: það skaðar hann ekki að vera fyndinn á sinn sérstaka hátt.
hágé.