Fara í efni

ALLIR FLOKKAR FYLGJA HERNAÐARHYGJUNNI - NEMA VINSTRI GRÆN

Samtök hernaðarandstæðinga hafa sent fyrirspurnir til þeirra flokka sem standa að framboðum til Alþingis í vor um afstöðu þeirra til varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna og aðildar Íslands að NATO. Svör bárust frá Vinstri-grænum, Samfylkingunni, Íslandshreyfingunni og Framsóknarflokknum og hafa þau verið kynnt í fréttabréfi samtakanna, Dagfara, og á Friðarvefnum.
Allir flokkarnir nema VG eru andvígir uppsögn varnarsamningsins og úrsögn Íslands úr NATO. Frjálslyndi flokkurinn svaraði ekki en vísaði í stefnuskrá sína þar sem segir „varnarsamstarf Íslands innan NATO verður að breytast með tilliti til breytinga í alþjóðastjórnmálum“. Ekkert er minnst á varnarsamninginn og vægast sagt óljóst hvað meint er með fullyrðingu um að varnarsamstarfið þurfi að breytast. En varaformaður flokksins sagði nýverið á fundi Varðbergs að varnarsamningnum bæri að viðhalda. Sjálfstæðisflokkurinn svaraði engu.
Hér sem víðar birtist sérstaða Vinstri-grænna. Enginn annar flokkur treystir sér til að taka afstöðu gegn hernaðarsamstarfi við það stórveldi sem á undanförnum árum hefur hvað eftir annað gert ólögmætar innrásir í önnur lönd með skelfilegum afleiðingum og þráfaldlega brotið gegn alþjóðalögum og mannréttindasáttmálum. Enginn annar flokkur virðist gera sér grein fyrir þróun NATO til æ árásargjarnara hernaðarbandalags.

Útþenslustefna og kjarnorkuvopn

Hvað sem um NATO mátti segja á árum áður, þá hélt það sig þó innan svæðis aðildarríkjanna, en nú þenst það út og stendur í stórræðum utan síns svæðis. Þannig heldur NATO uppi hernámi í Afganistan í kjölfar innrásar forysturíkis síns, Bandaríkjanna, og kallar það friðargæslu. Það tekur virkan þátt í blóðbaðinu í Írak. Það heldur uppi starfsemi kringum Miðjarðarhafið og í Miðausturlöndum til að treysta ítök Bandaríkjanna þar. Á undanförnum árum hafa tengsl NATO við Ísrael verið að styrkjast. Og innra skipulagi bandalagsins hefur verið breytt til að gera það skilvirkara í sífellt árásargjarnari stefnu sinni.
Kjarnorkuvopn eru hluti af vígbúnaði NATO og NATO hefur áskilið sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum. Það hefur verið notað sem röksemd gegn tillögum um kjarnorkuvopnalaust Ísland að það samrýmist ekki aðild okkar að NATO.

Sérstaða VG

Samfylkingin gefur sig út fyrir að berjast fyrir bættum kjörum alþýðu. Hernaðarstefna Bandaríkjanna og NATO beinir fjármagninu frá velferðarmálum til gífurlegrar sóunar vegna vígvæðingar. Almenningur líður fyrir hernaðarstefnuna. Almenningur líður fyrir tilveru NATO og hernaðarsamstarf við Bandaríkin.
Íslandshreyfingin gefur sig út fyrir að berjast fyrir umhverfisvernd. Auk óheftrar gróðahyggju er hernaðarstefnan einhver mesta ógnunin við umhverfisverndina.
Það þarf enginn að velkjast í vafa um hvar Sjálfstæðisflokkurinn stendur þótt hann hafi ekki látið svo lítið að svara fyrirspurn SHA. Sjálfstæðisflokkurinn er gersamlega staðnaður hvar sem á er litið, fastur í stóriðjulausnum og frjálshyggju sem varð úrelt fyrir hundrað árum, en auk þess hangir flokkurinn í hernaðarstefnu Bandaríkjanna hversu siðlaus sem hún er. Og hinir flokkarnir, allt frá Framsókn til Samfylkingar fylgja með. Aðeins Vinstri græn hafa skynsemi og þor til að taka aðra afstöðu. Kjósum gegn hernaðarstefnunni 12. maí.