Fara í efni

HÆTTUM AÐ ATAST Í FRAMSÓKN OG SNÚUM OKKUR AÐ SJÁLFSTÆÐISFLOKKNUM

Fylgisaukning Vinstri grænna í skoðanakönnunum að undanförnu er mjög ánægjuleg. Lítið fylgi Framsóknarflokksins er líka fagnaðarefni. Hins vegar er áhyggjuefni að Sjálfstæðisflokkurinn virðist halda sínu fylgi, það rokkar að vísu nokkuð upp og niður í skoðanakönnunum, en er venjulega meira en í síðustu kosningum.
Stjórnarandstæðingar eru alltof uppteknir af Framsóknarflokknum. Ég hef að vísu ekki gert skipulega könnun á því, en mér finnst eins og meira sé hnýtt í Framsóknarflokkinn en Sjálfstæðisflokkinn. Sá síðarnefndi er nánast stikkfrí meðan atast er í Famsókn. Það er auðvitað svolítið kúl, svo ég nefni áberandi dæmi, að ganga með barmmerki með áletrunum eins og „Aldrei kaus ég Framsókn“ eða „Af hverju ekki ríkisstjórn með zero Framsókn?“ og níu af hverjum tíu finnst það nokkuð sniðugt. En við skulum athuga það, að fjórir af þessum níu ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Og þeir verða ekki varir við að það sé neitt sérstaklega mikið hnýtt í Sjálfstæðisflokkinn. Jú, jú, auðvitað er það eitthvað gert, en hverfur bara í skuggann af þessum stöðugu skotum á Framsókn. Það er eins og Framsókn beri meginábyrgðina á því sem miður hefur farið í samfélaginu undanfarin ár. „Ber Sjálfstæðisflokkurinn ekki ábyrgð á stóriðjustefnunni til jafns við Framsókn? Er það ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur knúið áfram einkavæðinguna? Voru það ekki Sjálfstæðismenn sem breyttu Ríkisútvarpinu í ohf? Studdu innrásina í Írak?“ Þannig spyr Egill Helgason í spjalli sínu á Vísisvefnum 28. mars sl.

Það liggur í augum uppi að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið förinni undanfarin 12 ár – og lengur, því að hann lagði upp í þessa för fjórum árum fyrr og þá með Alþýðuflokkinn sem hækju. Að sjálfsögðu ber Framsóknarflokkurinn mikla ábyrgð (og Alþýðuflokkurinn sálugi auðvitað líka) með því að fylgja Sjálfstæðisflokknum í einu og öllu og ganga fram fyrir skjöldu ef því var að skipta. En Sjálfstæðisflokkurinn er höfuðóvinurinn í þessari flokkapólitík. Og hann ætlar sér að halda áfram á einkavæðingarbrautinni – einkavæðing orkufyrirtækjanna er næst á dagskrá, aukin einkavæðing í mennta- og heilbrigðiskerfinu o.s.frv.

Það yrði ekki endilega mikið vandamál þótt lítil Framsókn yrði með í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili, þótt ekki sé það sérlega geðfelld tilhugsun. Og Framsókn verður ekki verulega stór í þessum kosningum þótt hún geti stækkað eitthvað frá skoðanakönnunum. Sjálfstæðisflokkur í ríkisstjórn yrði hinsvegar í öllum tilvikum verulegt vandamál. Og til að koma í veg fyrir það verður einhvern veginn að reyta af honum fylgið.

En af hverju stafar þetta mikla fylgi? Fylgistap Framsóknar stafar allavega að einhverju leyti af því að fólk upplifir þennan flokk sem druslu sem hefur látið Sjálfstæðisflokkinn nota sig. Samfylkingin er líka að tapa út af vingulshætti. Vinstri græn auka fylgi sitt vegna einarðrar stefnu – og vegna þess að þessi einarða stefna í umhverfis- og velferðarmálum hugnast æ fleirum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki ímynd vingulslegrar druslu, þvert á móti, hann hefur ímynd hinnar traustu kjölfestu, einhverskonar ópólitísks stjórnmálaflokks sem er hægt að kjósa án þess að vera pólitískur. Og þessi gamla ímynd styrkist bara þegar áherslan er lögð á Framsóknarflokkinn, þegar hækjan er sífellt skömmuð fyrir stóriðjustefnuna, látin svara fyrir Írakshneykslið og bera ábyrgð á einkavæðingunni og niðurrifi velferðarkerfisins. Fylgistap Framsóknar stafar ekki bara af drusluhætti hennar heldur líka af því að þessi stefna er ekki eins vinsæl og fylgi við ríkisstjórnina virðist gefa til kynna. Margir kjósa Sjálfstæðisflokkinn sem í raun vilja bæði umhverfisvernd og velferðarsamfélag.

Í þessum kosningum takast á tvær meginstefnur. Annars vegar samofin stefna umhverfisverndar og velferðarsamfélags sem einungis getur staðið undir nafni sé félagslegum lausnum beitt. Með þessari stefnu er horft til þess hvernig tryggja megi hagsmuni almennings í framtíðinni. Hins vegar stefna einkavæðingar og brasks og hinna stóru lausna sem birtast meðal annars í stóriðju og endalausum mislægum gatnamótum. Þetta er stefna skammtímalausna og hagsmuna þeirra sem betur mega. Annars vegar stefna Vinstri grænna, hins vegar stefna Sjálfstæðisflokksins. Á milli standa Samfylkingin, sem reyndar getur í hvorugan fótinn stigið, og Íslandshreyfingin sem hætt er við að klofrifni. Frjálslyndi flokkurinn er að mála sig út í horn og Framsóknarflokkurinn kúrir í skjóli Sjálfstæðisflokksins meðan sá er nógu stór.
Einar Ólafsson