Fara í efni

ER EINKAREKSTUR LAUSNIN?

Nú hefur verið uppi mikil umræða um einkarekstur innan skólakerfisins og í síðasta Silfri Egils var Margrét Pála mætt til að tala fyrir því að það væri kvenfrelsismál að einkavæða skólakerfið að mér skildist. Ég þekki ágætlega til Möggu Pálu og hennar starfs og met það mikils. Ég skil hana einnig sem svo að í raun sé hún að tala fyrir því að kerfið verði ekki svo miðstýrt að þar geti ekki þrifist mismunandi hugmyndafræði og stefnur og straumar. Nú er ég einstaklega mikil áhugamanneskja um þetta mál og ætlaði meira að segja sjálf að stofna skóla. Það sem ég myndi vilja koma á framfæri er einmitt að við í VG erum fylgjandi frelsi innan hins opinbera kerfis, en þó með þannig varfærni að ekki verði til mismunun sem gerir það að verkum að einungis börn frá efnaðri fjölskyldum hafi kost á slíku valfrelsi innan skólakerfisins. Þá vil ég einnig ganga svo langt að segja að til að svo geti verið hlýtur að þurfa að endurskoða framlög til sjálfstæðra skóla með þeim hætti að miðað sé við stærð þeirra og þeir fái sömu fjárhæðir inn í reksturinn og aðrir opinberir skólar af sömu stærðargráðu. Ef á að nota stærstu skóla höfuðborgarsvæðisins sem eitthvað viðmið hlýtur það að teljast nokkuð óréttlátt og hafa sjálfstæðu skólarnir margoft bent á það, því það er einmitt ástæðan fyrir því að þeir eru knúnir til að innheimta skólagjöld.
1. Sjálfstæðir skólar eru ekki einkareknir. Hættum að tala um einkarekstur, það eina sem er einka eða sjálfstætt framtak er hugmyndafræðin og stefna skólans, frelsi fólksins til að starfa eftir sinni hugmyndafræði. Þeir eru með framlög frá hinu opinbera og það sem við ættum frekar að tala um er að það þarf að tryggja þeim sama fjármagn og öðrum skólum og afnema skólagjöld. Það þarf semsagt að tryggja að öll börn standi jafnfætis gagnvart öllum skólum. Þannig er þetta gert í Svíþjóð skilst mér. Einnig þarf að tryggja að laun kennara og fagfólks í skólum séu góð og að leggja áherslu á símenntun þeirra. Já, það kostar peninga... en það má benda á að á síðast liðnum árum hefur Ísland verið aftarlega í hópi norrænna þjóða með hversu miklu fjármagni er veitt í skólakerfið og þörf á að bæta þar úr.

2. Fjölbreytni er góð - skólagjöld er mismunun. Að mínu mati er það ekkert nema jákvætt að hafa fjölbreytni innan skólakerfisins og ég fagna fólki sem vill koma í framkvæmd mismunandi stefnum og straumum sem foreldrar geta þá valið um. Það þarf ekki að þýða skólagjöld samt og það er í anda okkar Vinstri grænna að tryggja jafnan aðgang í grunnþjónunstu, þar með talið í menntakerfinu. Hugmyndafræðilegt frelsi getur vel þrifist jafnhliða því að þjónustan sé fjármögnuð með almannafé.

3. Skólagjöld í Háskólum? Á fundi upp í HÍ um daginn var spurt hvort markmið um að setja HÍ á topp 100 listann væri ekki óraunhæft ef það væru ekki skólagjöld. Þar má benda á það að jú, flest allir skólarnir á top 100 listanum eru skólagjaldaskólar ... EN Norðurlöndin eru sér á báti í þessum málum eins og flestum málum. Þau setja mikinn metnað í skólakerfið og tryggja nægilegt fjármagn. Það er lykilatriðið í þessu öllu. Þar sem skólum er tryggt nægilegt fjármagn til að starfa, þá eru þeir samkeppnishæfir við bestu skóla í heimi. Kaupmannahafnarháskóli er t.d. inn á þessum lista það er norskur og finnskur háskóli líka ásamt sænskum skólum. Einnig eru þýskir, belgískir, hollenskir og franskir  háskólar á þessum lista sem ég held að séu flestir ríkisskólar sem tryggt er nægilegt fjármagn þannig að þeir geta sinnt metnaðarfullu starfi sínu og verið samkeppnishæfir.
Í þessari umræðu er því nauðsynlegt að spyrja hvað við viljum í raun; metnaðarfullt menntakerfi sem tryggt er fjármagn frá hinu opinbera eða skóla með skólagjöldum á öllum stigum kerfisins?
Andrea Ólafs.