Fara í efni

ÚTVARP FÁRRA LANDSMANNA

Nú er Páll Magnússon kominn með alla stjórnartauma hjá RÚV. Hann er svo samofinn þeirri straumlínulaga stefnu sem virðist hafa það eitt að markmiði að hækka laun fárra á kostnað fjöldans að það liggur við að maður geri þá kröfu að RÚV hætti umfjöllun um stjórnmál. Nú er staðan nefnilega sú að Útvarpið er mitt í hringiðu pólitískra deilna og útvarpsstjóri er í þeirri ákjósanlegu aðstöðu að geta ákveðið hvernig fréttir fara í loftið, hann getur skrifað fréttirnar sjálfur og hann les þær fyrir okkur landsmann.
Allt væri þetta nú sjálfsagt ef við tilheyrðum viðurkenndu bananalýðveldi og ef við ætluðum að sætta okkur við það að láta kapítalistana ráða hér öllu um aldur og ævi.
Fyrirfram var vitað að helmingaskiptaveldið eða framsóknaríhaldið myndi halda áfram að eyðileggja Ríkisútvarpið með því að láta vanhæft fólk ráða þar ríkjum. (Brandarinn um Auðunn Georg Ólafsson er kannski eitt af gleggstu dæmum þar um). Það var löngum vitað að til þyrfti að taka í yfirbyggingu stofnunarinnar en þeirri vinnu var frestað því topparnir eru þekktir fyrir að skipta kökunni sín í millum og láta svo ruðurnar falla til þeirra sem verkin vinna. Að fjársvelta RÚV var stefna stjórnvalda sem viðhaldið var til að geta rökstutt þann gjörning að breyta stofnuninni í hlutafélag.
Það fyrsta sem stjórn hins nýja hlutafélags gerði var að reka starfsmenn og hækka laun þeirra sem hæstu launin höfðu fyrir. 
Hér hlýtur að vera rétta augnablikið fyrir fagnaðarlæti.
Einkavinavæðingin hefur mörg og ólík andlit og það eitt er vitað að laun fárra verða hækkuð á kostnað fjöldans þegar helmingaskiptaveldið ræður för. Að gefa völdin mönnum sem hafa ekki úr meiri dómgreind að moða en þeirri sem Páll Magnússon hefur sýnt síðustu vikurnar ætti að vera bannað með lögum. En slík ráðstöfun kallar þó á nokkrar spurningar: Hvað verður um þessa stofnun? Hvað á að gera við ýmis gögn sem stofnuninni hefur verið falið að gæta? Verður kannski reynt að koma í verð efni sem í raun og veru er varið með höfundarétti? Verður kannski reynt að selja allt draslið svo stundarbrjálæðið leyfi mönnum að hækka laun toppanna um nokkur hundruð þúsund á kjaft?
Ég var í eina tíð viss um að Páll Magnússon væri ágætasta sál en hann hefur nú komið mér verulega á óvart.
Sagt er að aurarnir geti dregið fram þá mynd sem menn hafa raunverulega að geyma. Og mér sýnist að sú hafi orðið raunin við það að breyta RÚV í hlutafélag.
Kristján Hreinsson, skáld