Fara í efni

ENN UM "TRÚFRELSI"

Ólafur Gneisti Sóleyjarson gerir á þessum vettvangi athugasemdir við hugleiðingu mína um ríki og kirkju sem gefur tilefni til stutts andsvars.

Ríkið veitir þjóðkirkjunni stuðning umfram önnur trúfélög. Það er álitamál hvort stuðningurinn sé eðlilegur, hvort það sem komi í staðinn sé of lítið eða starfsemi kirkjunnar sé jafnvel óæskileg. Í VG eru deildar meiningar um málið en sjálfsagt að ræða það innan flokksins. En ég var ekki að velta því fyrir mér, heldur framkomu ungliðanna í VG við afgreiðslu tillagna um afstöðu flokksins til kirkjunnar á landsfundinum. Verð því víst að skýra nokkru nánar hvers vegna mér blöskraði hún.

Það var almenn samstaða meðal flokksmanna að þessi landsfundur yrði nokkurs konar hersýning, þar sem menn efldu samstöðuna og skerptu áherslur á helstu baráttumálum í komandi kosningabaráttu, en legðu þá minni áherslu á þau málefni sem ágreiningur er um innan Vinstri grænna. Hvaða skoðanir sem menn hafa á því hvernig haga skuli samskiptum ríkis og kirkju þá held ég það geti ekki talist brýnasta kosningamálið vorið 2007 þegar misréttið í þjóðfélaginu fer vaxandi, fátækt fólk, sjúkt og örkumla er fótum troðið, framsókn peningaaflanna er nánast hömlulaus og óbætanleg spellvirki unnin á náttúru landsins. Ég er ekki að halda því fram að afstaðan til þjóðkirkjunnar sé lítilsvert mál, heldur að mörg önnur mál séu miklu, miklu brýnni.

Ekki má gleyma því að þingmenn VG hafa flutt tillögur á alþingi um aðskilnað ríkis og kirkju, þau Árni Steinar Jóhannsson og Þuríður Backmann, síðast árið 2003. Það fór heldur aldrei svo að kirkjumálin væru ekki tekin til afgreiðslu á landsfundinum. Mjög góðar tillögur, ættaðar frá ungum vinstri grænum, um jafnrétti í trúfræðslu í skólum og  um hjónavígslur í þá veru að fólki yrði ekki mismunað eftir kynhneigð, voru samþykktar með öllum greiddum atkvæðum og yrðu til mikilla bóta ef ákvæði þar að lútandi yrðu lögbundin. Tillögu ungra grænna um "aðskilnað ríkis og kirkju" var hins vegar vísað til fulltrúaráðs til frekari umræðu. Í mínum huga var það fyrst og fremst til að rjúfa ekki samstöðuna á landsfundinum því það hefði satt að segja verið heldur leitt afspurnar ef flokkurinn hefði "klofnað" um þó ekki stærra mál.

En í umræðum um þessa afgreiðslu, sem formaður og varaformaður ungra vinstri grænna höfðu borið fram, kom hver af öðrum úr þeim myndarlega hópi ungs fólks sem sat landsfundinn upp í pontu með yfirlýsingar um að þessi afgreiðsla væri nánast mannréttindabrot. Því var lýst yfir að flokkurinn væri að mismuna fólki og vinna gegn trúfrelsi o.s.frv. Þessar miklu yfirlýsingar um meint dæmafátt óréttlæti fannst mér satt að segja út úr öllu korti og urðu tilefni hugleiðinga minna, um að unga fólkið mætti leita sér að þarfara hugsjónamáli að berjast fyrir en trúfrelsi, frelsi sem var fært í lög fyrir nærri hálfri annarri öld. 

 Loks má minna þá á, sem eru þjakaðir af trúarfjötrum þeim sem þjóðkirkjan hefur lagt á hug þeirra, að til eru flokkar sem hafa aðskilnað ríkis og kirkju á stefnuskrá sinni, t.d. Frjálslyndi flokkurinn.

Jón Torfason