Fara í efni

VERUM ANDVÍG STÆKKUN !

Við Vinstri græn höfum lagt ríka áherslu á að nóg sé komið í virkjunar- og stóriðjumálum. Við eigum að vinna að skipulagsmálum í sátt við umhverfi, íbúa, menningu, sögu og ekki síst með komandi kynslóðir í huga. Við getum ekki leyft okkur að láta eins og móðir jörð sé einnota fyrirbæri sem hægt er að skipta út fyrir nýja. Margir eru okkur sammála, sem betur fer, en þó eru enn margir sem fastir eru í því að tala á þann veg að ef ekki verði virkjaðar flestar sprænur landsins og álbræðsla reist á öðrum hverjum hól þá verði hér allt á vonarvöl næstu áratugi - ef ekki árhundruð. Ætli Ísland leggist ekki bara af?

 Helstu rök þeirra sem ráða í Hafnarfirði fyrir stækkun álbræðslunnar í Straumsvík er allt það fjármagn sem bærinn fær fyrir stækkun. Stjórnvöldum finnst það því í lagi að byggja nýjar og stærri álbræðslur og virkja fleiri ár vegna þess að þau halda að það sé hægt að græða svo mikið á þeim. Er hægt að verðleggja óafturkræfar afleiðingar af virkjunum og álverksmiðjum?

 Önnur rök þeirra sem ráða í Hafnarfirði fyrir stækkun álbræðslunnar í Straumsvík er að þau uppfylli þau skilyrði sem sett eru fram í umhverfismati. Umhverfismati sem tekur bara til Hafnarfjarðar. Mengun frá Alcan í Straumsvík er ekki bundin við Hafnarfjörð heldur verða nágrannar okkar ekki síður fyrir mengun en við sem búum í næsta nágrenni við álbræðslunna.

Til að auka framleiðsluna þarf að virkja. Ekki virkjum við í Hafnarfirði. Nei, til að framleiða orkuna þarf að virkja annars staðar á landinu. Alcan hefur samið við Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur um þá orku sem á þarf að halda til að halda tæplega þrefallt stærri álbræðslu gangandi.

Það landssvæði sem Landsvirkjun ætlar sér að virkja fyrir stækkaða álbræðslu í Straumsvík er í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þar er búið að koma þrem virkjunum í gegn um umhverfismat. Þetta eru Urriðafossvirkjun með uppistöðulóni sem komið er á skipulag á svæðinu auk þess sem búið er að samþykkja umhverfismat á Hvammsvirkjun og Holtavirkjun í Þjórsá við Núp -  með Hagalóni. Á þessu svæði eru all margar virkjanir og framleiða þær allar rafmagn fyrir stóriðju. Síðan þarf að flytja orkuna frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Hellisheiði til Straumsvíkur svo upp rísa heilu frumskógarnir af háspennumöstrum. Er ekki komið nóg?

 Bara svo við séum öll með það á heinu þá er stóriðjustefnu stjórnvalda lokið og upp er komið nýtt tímabil. Tímabil óheftrar samkeppni sveitarfélaga í landinu og ríkisstjórnin fyrrir sig allri ábyrgð. Í staðinn fyrir stóriðjustefnu stjórnvalda er komin stóriðjustefna sveitarfélaga.

Þar er Hafnarfjörður því miður í fararbroddi. Hafið er nýtt tímabil þar sem sveitarfélög geta hvert og eitt farið af stað og markaðssett sig sem stóriðjuparadís og halda að með því geti þau grætt á tá og fingri fyrir sitt sveitarfélag. Málið er bara það að stóriðja gefur lítinn innlendann virðisauka og skilur lítið eftir sig í íslensku samfélagi. Ástæðan er sú að innlendir kostnaðarþættir eru léttvægir í rekstrinum og starfsemin að miklu leyti byggð á erlendum aðföngum sem fara hér í gegn. Það þarf að flytja hráefnið til landsins, sem vinna á úr og afurðin sem búin er til er flutt beint úr landi. Sum sé við framleiðum orkuna fyrir erlend fyrirtæki svo að þau geti stundað mengandi framleiðslu á afurð sem ekki einu sinni er notuð innanlands.

Samkvæmt tölum byggðum á matsskýrslu Alcans kemur í ljós að heimilt verður að auka losun á brennisteinsdíoxíði um rúm 280%. Heimildin í dag er 6,57 tonn á dag en verður 18,9 tonn á dag eftir stækkun.

Heimiluð losun á flúor eykst um 244% og aukin losun á gróðurhúsalofttegundum nemur 240%. Þetta eru allt tölur sem rúmast innan þeirra marka og skilyrða sem umhverfismatið setur. Sættum við okkur við þessi mörk?

Sú atburðarás sem nú er í gangi í Hafnarfirði, og reyndar víða um land, er til þess fallin að stilla bæjarbúum upp við vegg. Ímyndabaráttan er hafin. Álbræðslan kynnir sig sem lítilmagna. Það breytir hins vegar ekki því að hagsmunir þeirra sem eiga fyritækið er að græða á framleiðslunni. Ef sá hagnaður brestur þá hugsa eigendurnir fyrst og fremst um sjálfan sig ekki samfélagið sem þeir starfa í. Á sama hátt ættu bæjarbúar að bera hag bæjarfélagsins, náttúrunnar og framtíðarinnar fyrir brjósti þegar kemur að því að mynda sér skoðun.

Berjumst gegn því að nánast í miðbæ Hafnarfjarðar rísi ein stærsta álbræðsla Evrópu þar sem dagleg losun á brennisteini verður allt að 19 tonn á dag næstu 70 – 80 árin.
Verum ANDVÍG stækkun álbræðslunnar í Straumsvík.
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði