Fara í efni

ERFITT AÐ ÁTTA SIG Á FRAMSÓKN

Það er oft erfitt að átta sig á framsókn. Ég man svo vel eftir því þegar Jón Sigurðsson, þá tiltölulega nýbúinn að setja fram afturvirka stefnubreytingu í stóriðjustefnunni, sagði að ákvörðun um stuðninginn í Írak, hefði verið byggð á röngum upplýsingum, og ákvörðunin þvi röng eða mistök. Síðan á alþingi Íslendinga heldur hann því fram að listi hinna staðföstu þjóða hafi ekki verið til, hann sé í raun fréttatilkynning. Á setningu framsóknarþings, kveður hann síðan upp með það að stuðningurinn við stríðið í Írak hafi verið mistök.

 

Ég skil í rauninni ekki hvernig þetta hangir saman í huga Jóns. Við öll sem ekki vildum styðja stríðið, við eigum heimtingu á því að íslensk þjóð verði beðin afsökunar, og að íslnska þjóðin biðji aðra afsökunar. Og ef Jón telur þetta mistök, þá er engin skömm að því að biðjast afsökunar. Og lýsa svo andúð sinni á innrásinni í Írak, og öllum þeim hörmungum sem hafa átt sér stað þar, þar sem fólk var stráfellt í nafni staðfestunnar, karlar konur og börn.

 

Guðni segir að framsókn hafi verið plötuð. Jón segir að þeir hafi gert mistök. Samt þýði ekkert að biðjast afsökunar, það þýði ekkert að vilja fara af listanum yfir hinar staðföstu þjóðir, þetta var ekki einu sinni listi heldur bara fréttatilkynning. . .

 

Nei það er erfitt að átta sig á framsókn. En til að fá betri skýringar, þá hefur svo sem enginn spurt aðstoðarmenn þeirra Davíðs og Halldórs hvernig þetta hafi nú allt verið. Til upprifjunar, þá eru það herramennirnir Björn Ingi Hrafnsson og Illugi Gunnarsson. Geta þeir kannski skýrt málið?