Fara í efni

BRÉF FRÁ BRETLANDI

Miklar umræður eru hér um þrælahaldið enda 200 ár frá því að þrælahald var afnumið með lögum í Bretlandi. Andstæðingar þrælahalds voru margir og þrælarnir sjálfir sögðu gjarnan:  "Er ég ekki manneskja og erum við ekki bræður?" ("Am I not a man and a brother?) "Ein af röksemdum þeirra sem stóðu gegn banni var að því myndi fylgja efnahagslegt hrun, atvinnuleysi og kreppa á Bretlandi. Margir héldu því fram að þrælahald væri mannúðlegt, þar sem svartir ættu erfitt með að sjá fyrir sér. Engin kom kreppan en samþykkt var að greiða skaðabætur uppá einn milljarð punda (á núverandi gengi). Margir hefðu giskað á að þær skaðabætur sem breska ríkið tók að sér að greiða, hefðu verið ætlaðar þrælum og afkomendum þeirra. En skaðabæturnar voru reyndar handa þrælasölunum. Þrælarnir fengu ekkert.

 

Margir þrælar voru fluttir til Englands, þar sem komst í tísku að hafa svarta þjóna. Svona einsog skart, lifandi skartgripi  nánast eða gæludýr. Flestir voru  þjónarnir karlkyns   en börn voru einnig vinsæl . Þræll kostaði á núvirði um það bil 6-700 þúsund krónur. Eigendur þeirra kvörtuðu margir yfir því að sumir þrælar byggjust við að fá laun! Einsog aðrir þjónar. Þetta var auðvitað einsog blaut tuska í andlit eigenda sem töldu þessa þræla hafa orðið "ölvaða" af siðmenningunni. Margir voru sendir tilbaka til plantekranna á Karíbahafseyjunum. Svartir hermenn í breska hernum fengu ekki eftirlaun einsog aðrir hermenn. Þetta varð til að óánægja meðal svartra magnaðist og þeim var safnað saman og þeir sendir hundruðum saman til Sierra Leone, þar sem flestir þeirra dóu.

 

Annað mál sem er vinsælt umræðuefni þessa stundina, er hugtakið "mórölsk utanríikisstefna". Er hún möguleg? Fræg er afsagnarræða Robin Cook heitins þar sem hann talaði um "ethical foreign policy" sem gæti útlagst sem utanríkisstefna með siðferðislegt innihald eða kannski bara mannúðleg utanríkisstefna. Reyndar eru menn ekki á eitt sáttir hvort innrásin í Írak sé einmitt dæmi um "móralska" utanríkisstefnu og andstaða við henni væri þá einskært hugleysi.

 

Fram að Kosovo deilunni ríkti almenn sátt um svokallaðan "sjálfsákvörðunarrétt þjóða." Það þýddi að ekki mætti blanda sér í innanríkismál þjóðar. Burtséð frá því hversu stjórnvöld þjóðarinnar væru ómannúðleg. Ástæðan var einfaldlega sú að sú regla væri líklegri til að tryggja frið heldur en áköf mannúðarstefna. Að öðrum kosti væri verið að fórna meiri hagsmunum (heimsfriðnum) fyrir minni hagsmuni (vellíðan einstakrar þjóðar). Ekki mátti einu sinni úttala sig um mál annarra þjóða. Þetta breyttist án umræðu með Kosovo. Engin umræða varð um þetta. Breytingin varð skyndilega og  einsog í skjóli nætur .

 

Eftir það varð vegurinn til innrásar í Irak greiður. Og þegar í ljós kom að ekki fyndust gereyðingarvopn, var illmennska Husseins notuð til að réttlæta innrásina. Þetta studdi röksemdafærslu "mannúðarinnar" um hið "góða stríð "  og ný kenning í alþjóðasamskiptum  leit  dagsins ljós: Hin siðræna utanríkisstefna. En þó ekki sú sem Robin Cook hafði átt við. Hann vildi halda í kenninguna um sjálfsákvörðunarrétt þjóða, einkum og sér í lagi vegna hagsmuna friðarins. Hans hugsun var að stríð bæri að forðast með öllum ráðum. En honum varð ekki að ósk sinni. Mórölsk utanríkisstefna er nú hugtak sem er beitt til að réttlæta "fyrirbyggjandi stríð" , vestrænar innrásir til að koma á lýðræði, frelsa þjóðir frá illu svo verði vestræn gildi, amen. "Alþjóðasamfélagið" það er að segja öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna, getur og ber næstum skylda til að skipta sér af ríkjum þar sem þegnarnir eru beittir harðræði. Þetta gildir þó ekki um þjóðir sem sjálfar eru í öryggisráðinu (Kína, Rússland svo dæmi séu nefnd). Þetta eru mál sem eru eins flókin og lífið sjálft. Bretar eru orðnir leiðir á því að hlusta á Tony Blair, sem aldrei færir nein rök fyrir neinu en talar í síbylju um mikilvægi þess að gera það sem rétt er: "doing the right thing". Nú vilja menn fá röksemdir og dýpt í umræðuna.

 

Bretum þykir illt að fylgjast með þróun mála í Zimbabve, ekki síst í ljósi þess að þeir studdu  Mugabe  til valda á sínum tíma. Rætt er í fjölmiðlum í alvöru um þann möguleika að senda herlið inn og bent á fordæmi einsog Sierra Leone og Rwanda. Heimurinn er að opnast með sama hætti og var á tímum krossferðanna, þegar heimsvaldastefnan var dulbúin sem frelsandi engill til að tryggja sem flestum hjálpræði. Í kjölfarið fylgdi heilagt stríð múslima sem lögðu undir sig hálfan heiminn. Nú virðist lýðræði og "vestræn gildi" hafa komið í stað trúarinnar, þótt hún sé  ekki  langt undan.

 

Allir sjá hörmungarnar í Zimbabve (og Norður Kóreu) og segja gárungar að ekki þyrfti mikil olía að finnast þar, til að við gætum ekki annað en sent herlið inn til að bjarga saklausum fórnarlömbum harðstjórans.  En það er engin olía, né demantar og í stað  innrásar  tala  breskir stjórnmálamenn  um efnahagsþvinganir, þeirra á meðal William Hague, talsmaður íhaldsflokksins í utanríkismálum. Íhaldsmenn hafa löngum haldið því fram að efnahagsþvinganir hefðu aldrei komið neinu fram, en segja núna að "nútímaaðferðir" við efnahagsþvínganir, þeas. stýrðar þvínganir sem beinast fyrst og fremst gegn valdastéttinni muni hafa áhrif.