Gestur Svavarsson skrifar: HAFNFIRSK UMHUGSUNAREFNI

Það er greinilegt að senn dragi til tíðinda í stækkunarmálum álversins í Hafnarfirði. Það liggur fyrir samningur til undirritunar milli Landsvirkjunar og Alcan um þá orku sem nauðsynleg er vegna stækkunar álversins í Straumsvík. Það hefur verið haft eftir bæjarstjóra Samfylkingarinnar í Hafnarfirði að íbúaatkvæðagreiðsla um stækkun álversins verið bráðlega, eða eftir að farið hefur verið yfir deiliskipulagstillögu Alcan. Yfir þá tillögu fer nú stór hópur fulltrúa allra þeirra sem eiga kjörinn fulltrúa í bæjarstjórn, en einnig heilir þrír starfsmenn Alcan. Ég sé ekki fyrir mér að markmið hópsins sé annað en að klára nýtt deiliskipulag, sem verði nægilega lítið breytt frá hinu fyrra, þannig að það veri metið svo að ekki þurfi að fara í aðra kynningu á því.

Slík vinnubrögð væru umhugsunarefni.

Nú þegar hefur tvisvar verið liður á dagskrá lýðræðs- og jafnréttisnefndar Hafnarfjarðarbæjar sem sýnir að umræður hafi verið um eitthvað sem heitir íbúalýðræði / kosning., bæði þann 28. nóvember og 12. desember. Hvergi hefur sést á hvaða grundvelli umræðurnar voru, en ætla má að þær hafi snúist um hvenær kosning ætti að fara fram, hvernig bindingu niðurstöðu væri háttað, hverjir ættu að móta það sem um væri kosið, hversu langt kynningarferlið fram að kosningum ætti að vera, hver ætti að sjá um það og þar fram eftir götunum. Innan við sólarhring fyrir fund þessarar sömu nefndar þann 19.12.2006 voru lögð fram drög að málsmeðferðarreglum um almennar atkvæðagreiðslur í Hafnarfirði ásamt greinargerð frá Gunnari Helga Kristinssyni, prófessor í stjórnmálafræði. Aldrei hafði ósk um sérstakt álit hans verið lögð fyrir nefndina eða slík ósk samþykkt. Eftir fundinn er fundargerð, sem er óyfirfarin og óundirrituð sett á vef Hafnarfjarðarbæjar og fullyrt að varaformaður nefndarinnar, Margrét Pétursdóttir fulltrúi vinstri grænna í nefndinni, hafi samþykkt drögin. Það er rangt. Sú nefnd sem fjalla á um lýðræði í Hafnarfirði sýnir þarna af sér ólýðræðisleg vinnubrögð. Er þarna sleginn takturinn fyrir það sem koma skal þegar taka á afstöðu til álbræðslustækkunarinnar í Straumsvík?

Það er umhugsunarefni.

Það má alveg greina frá því að það hefur kostað átök innan bæjarráðs Hafnarfjarðar að koma því svo fyrir að allir flokkar eigi aðkomu að starfsnefndum, þeim nefndum sem hafa það verkefni að undirbúa mál fyrir ráð, til ákvarðanatöku síðar meir. Starfsnefndirnar hafa þannig fyrst og fremst það hlutverk að velta upp þeim möguleikum sem eru til skoðunar. Þær hafa því ekki það vald að ákvarða lokaniðurstöðu, en hins vegar geta þeir sem í nefndinni eru ákveðið um hvað lokaákvörðun verður tekin. Meirihluti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði hefur sem sagt verið staðinn að því að vilja hamla aðgengi allra stjórnmálaflokkana í bæjarstjórn að slíkum starfsnefndum. Þannig er sá hluti lýðræðisins sem snýr að aðferðinni við ákvarðanatökurnar virtur að vettugi og sjónarmið hluta kjörinna fulltrúa útilokuð. Það er sami flokkurinn og hefur barið sér á brjóst fyrir að hafa ákvæði um íbúakosningu allra stærri mála eftir að hafa verið dregin að þeirri ákvörðun af þeim sem taka afstöðu til mála undanbragðalaust, af okkur Vinstri grænum. Það er sama Samfylking og ætlar að bera ábyrgðina á lýðræðinu í Hafnarfirði.

Það er umhugsunarefni.

Gestur Svavarsson

Fréttabréf