Fara í efni

AÐ SEGJA JÁ AF GÖMLUM VANA

Það hefur verið dálítið sérstakt að fylgjast með viðbrögðum héðan og þaðan við þeirri tilraun sem formaður Framsóknarflokksins gerði nýlega til að losa sig við einn versta erfðagripinn í búinu sem Halldór Ásgrímsson lét honum eftir í sumar. Með hæfilega tæknikratískri loðmullu um ófullnægjandi ákvarðanatökuferli og rangar forsendur kom Jón Sigurðsson því í loftið að stuðningur ríkisstjórnarinnar við innrásina í Írak 20.03.2003 hefði ekki átt rétt á sér.

Flokkssystir Jóns í utanríkisráðuneytinu, Valgerður Sverrisdóttir, fór ekki dult með þá skoðun sína að gamla línan væri betri í málinu. Miðað við þær upplýsingar sem hefðu legið fyrir á sínum tíma, hefði stuðningurinn verið réttur og hún myndi leggjast á sömu sveifina á sömu forsendum enn þann dag í dag. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, fór með nálega sömu þuluna þegar fréttastofa Sjónvarpsins spurði hana út í málið. Báðar hafa tekið gagnrýni á stuðningsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar við þetta ömurlega árásarstríð með frekar barnalegu tali um að það sé auðvelt að vera vitur eftir á.

Við þetta er einkum tvennt að athuga. Fyrst ber auðvitað að nefna það að slíkar innrásir eru brot á alþjóðalögum og stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þær eru það ekki bara núna – þær voru það líka fyrir fjórum árum og hafa verið það ansi lengi. Sú forsenda ein og sér hefði átt að duga vitibornu fólki til að hafna beiðni Bandaríkjastjórnar um stuðning við óhæfuverkin. Og ekki vantaði lögfræðinga í hópi ráðherranna.

Hitt stóra atriðið er svo það að allar þær upplýsingar sem nú liggja fyrir um aðdraganda innrásarinnar lágu fyrir veturinn 2002-2003, rétt eins og nú. Það lá fyrir að í ríkisstjórn og ráðgjafaliði George W. Bush voru mennirnir sem höfðu þá fyrir löngu gert áætlun um innrás í Írak þegar Repúblikanaflokkurinn kæmist til valda á ný. Það lá fyrir að engin gereyðingarvopn var að finna í Írak eins og vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna höfðu margsagt. Það lá fyrir að eina „heimild“ hinna blóðþyrstu Vesturvelda fyrir hinu gagnstæða var gervihnattamynd af vöruflutningabílum sem var stillt upp fyrir tilstilli Ahmed Chalabi, hins útlæga stjórnarandstæðings sem ætlaði sér leiðtogasess í Írak eftir stríð (en fékk síðan minni stuðning í skoðanakönnunum en Saddam Hussein). Og, það sem meira er, spár stríðsandstæðinga um mannfall meðal óbreyttra borgara, eyðileggingu mikilvægra samfélagsstoða á borð við vegi og veitukerfi, óslökkvandi áhuga innrásaraðilanna á olíulindum Íraka, vaxandi hryðjuverkastarfsemi og borgarastyrjöld í kjölfar árásarinnar – þær lágu allar fyrir líka.

Þrátt fyrir að Björn Bjarnason haldi enn, að minnsta kosti með annarri hendinni, í gömlu tuggurnar um rangar upplýsingar sem leitt hafi til rangrar niðurstöðu, fer hann líklega næst því að segja það sem satt er um þessa ömurlegu ákvörðun félaga sinna á stjórnarheimilinu í mars árið 2003. Í nýjasta pistli sínum á heimasíðunni segir Björn – að vísu til að reyna að réttlæta það sem er óréttlætanlegt með öllu – að ríkisstjórnin hafi ákveðið að standa með Bandaríkjunum og Bretlandi, hefðbundnum samstarfsríkjum Íslands innan NATO, í þessu máli.

Ég hallast að því að þarna liggi hundurinn grafinn. Bandaríkin báðu um stuðning og íslensku hægriflokkarnir sögðu já, ekki eftir umhugsun og því síður umræður, heldur bara af gömlum vana. Það sem ríkisstjórn Íslands, þ.m.t. Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson, Geir H. Haarde, Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Valgerður Sverrisdóttir, gerðu næst var að velja úr þær „upplýsingar“ sem hentuðu þessari ákvörðun – hinni fyrirfram gefnu niðurstöðu.

Þau lokuðu eyrunum fyrir því sem Hans Blix, Scott Ritter og aðrir sem höfðu lengi starfað við vopnaeftirlit í Írak, sögðu öllum sem heyra vildu. Þau ákváðu að trúa Colin Powell sem laug svo miklu frammi fyrir Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í þágu innrásar sem þegar hafði verið ákveðin, að hann lét breiða tjald yfir hið fræga málverk Picassos af fólskulegum loftárásum fasista á smábæinn Guernica í Spánarstríðinu 1936-1939. Þau höfnuðu öllum rökum þeirra sem sýndu fram á að árásarstríð gegn Írak væri brot á alþjóðalögum og stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna en hömpuðu myndunum þar sem módel á vegum Ahmed Chalabi keyrðu trukka með álrörum og fleiru fram og aftur um eyðimörkina fyrir góða borgun.

Til að gera langa sögu stutta, lágu fyrir allar þær upplýsingar sem þurfti til að taka rétta ákvörðun í þessu afdrifaríka máli, bæði um stöðu mála í Írak og þau hagsmunasambönd sem sköpuðu samstöðu innrásarríkjanna. Það sem íslensku ráðherrana – Davíð, Halldór, Geir, Þorgerði, Valgerði og öll hin – skorti í raun og veru var einfaldlega reisn til að taka sjálfstæða ákvörðun og dómgreind til að skilja á milli staðreynda og lyga.

Steinþór Heiðarsson