Sigríður Stefánsdóttir skrifar: FORDÓMAR OG AÐRIR DÓMAR

Að undanförnu hefur umræða um fordóma verið fyrirferðarmikil í íslenzku samfélagi.  Ekki er alveg ósennilegt að fyrirferðin tengist því þungunarástandi sem jafnan skapast þegar þingkosningar eru í nánd.  Stjórnmálaflokkarnir vilja fá að vita hvaða fylgi þeir "eiga" tryggt svo markviss sókn megi hefjast í fylgi annarra flokka.  Engan afla virðist lengur að hafa á grunnslóð og því er nú sótt á djúpið.

Jæja, og hvað er konan að fara?  Enginn kannast við að hafa fordóma af því það er svo ljótt.  Fólk vill hafa opna umræðu, horfast í augu við staðreyndir eða er bara raunsætt.  Orðræðan undanfarnar vikur hefur einkum snúizt um fjölgun útlendinga á Íslandi.   Sumir eru reyndar svo hræddir við að verða ásakaðir um fordóma að þeir geta ekki einu sinni sagt útlendingar, heldur tala um fólk af erlendu bergi brotið, með mismunandi beygingarárangri á þessu þjála orðasambandi.  Skrauthvörfin eru margvísleg.

Það er ekki nokkur maður sem gengst við því að hann vilji hafa Ísland fyrir Íslendinga - einvörðungu -.  Nei, en áhyggjur af því að við getum ekki tekið nógu vel á móti útlendingum, sem hingað koma til starfa, flæða úr gæðabrjóstunum.  Þetta minnir á stórkostlegar áhyggjur ýmissa þegar fjölgaði börnum frá Asíu sem ættleidd voru af íslenzkum foreldrum.  Það var nefnilega svo hætt við því að þeim yrði strítt og þau gætu ekki samlagazt innfæddum.  Froðusnakkið er óendanlegt.

Auðvitað þurfum við að standa miklu betur að móttöku og dvalarkjörum útlendinga sem hingað koma til náms og starfs.  Fyrst og fremst þarf verkalýðshreyfingin að standa sig gagnvart því sem lýtur að vinnumarkaði; að ekki verði um fjárhagslegt eða félagslegt undirboð að ræða. 

Formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja benti réttilega á það við setningu 41. þings samtakanna nýverið að hætta væri á því að útlendingum væru boðin kjör sem Íslendingar sættu sig ekki við og þar með klofnaði samfélagið.  Þetta boð má einfaldlega ekki eiga sér stað og það er hlutverk ríkis, sveitarfélaga og - ekki sízt - samtaka launafólks að sjá til þess að það verði aldrei orðað né framkvæmt.  Það er lítilmótlegt að ýta vandanum, ef vanda skyldi kalla, á undan sér með því að við þurfum mílulangan undirbúningstíma af því að við viljum standa svo vel að verki.  Það var löngu vitað að þörf yrði fyrir erlendar vinnandi hendur hérlendis.  Við höfum allar upplýsingar sem við viljum um hvernig staðið hefur verið að verki í nágrannalöndum.  Eftir hverju erum við að bíða?  Að við verðum hvert og eitt búið að sigrast á eigin fordómum? 

Þekking eyðir ótta og með því að ala börnin okkar upp í opnu samfélagi mannvirðingar og jafnréttis; þar sem við og samferðafólkið erum af ýmsum kynþætti, höfum mismunandi kynhneigð, ólík trúarbrögð - og allir hinir litir lífsins fá að njóta sín - þá er von til þess að þau þurfi ekki einu sinni að ræða fordóma, hvað þá heldur kjósa um þá.

Sigríður Stefánsdóttir,
réttarfélagsfræðingur

 

Fréttabréf