Fara í efni

FURÐUSKRIF ÖSSURAR

Í sumar leið skrifaði ég blaðagrein sem eins konar andsvar við grein eftir ágætan Samfylkingarmann sem vildi gera því skóna að VG myndi leiða Sjálfstæðisflokkinn til valda í Reykjavík. 

Þetta kom upp í huga minn í morgun þegar ég fletti Morgunblaðinu og las grein eftir Össur Skarphéðinsson þar sem dylgjað er um meint daður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs við Sjálfstæðisflokkinn. Af þessu tilefni langar mig til að gera niðurlagsorð fyrrnefndar greinar minnar frá í sumar að uppistöðu í þessari stuttu grein minni hér á síðunni hjá þér Ögmundur.

Mér er þetta mál nátengt þar sem ég er í þriðja sæti á lista VG hér í Reykjavík og hef alla tíð verið fylgjandi vinstra samstarfi í borginni. Hins vegar neita ég því ekki að stundum hef ég þurft að taka mig á til þess að láta ekki skrif á borð við grein Össurar frá í morgun spilla samstarfsviljanum.

En hvað sem því líður voru eftirfarandi niðurlagsorð í fyrrnefndri grein minni: "

" Í Reykjavík verður enginn félagshyggjumeirihluti án VG. Slíkan meirihluta vill Vinstrihreyfingin grænt framboð hins vegar. Þessu takmarki getum við náð ef við leggjum okkur fram um það. Nú er mál að linni ásökunum, úrtölum og bölbænum. Það er staðreynd að flokkarnir bjóða fram hver um sig næsta vor. Þetta finnst sumum gott, öðrum ekki. Það á við um fólk í öllum þeim flokkum sem hlut eiga að máli. En þetta er staðreynd sem menn þurfa að horfast í augu við. Með því að halda því fram að bjóði flokkarnir fram í sitt hvoru lagi séu þeir að afhenda Sjálfstæðisflokknum völdin er verið að grafa undan möguleikum okkar og afhenda Íhaldinu borgina. Það er ábyrgðarhlutur sem raunverulegir félagshyggjumenn geta ekki leyft sér. Félagshyggjuöflin í Reykjavík mega hvorki leyfa sér uppgjöf né daður við Íhaldið. Staðreyndin er sú að með því að snúa bökum saman höfum við möguleika á að halda borginni. Allt er nú undir okkur sjálfum komið. Sá veldur sem á heldur. "
Ég er enn sama sinnis.

Þorleifur Gunnlaugsson