Fara í efni

FÍAT VÉLAR Í ALLA BÍLA!

Stundum berast skondnar fréttir utan úr hinum stóra heimi. Eina slíka mátti lesa á heimasíðu Morgunblaðsins 19. apríl. Þar sagði frá því að forseti Kína hefði étið hádegissnarl með Bill Gates, forstjóra Microsoft. Hefur mbl.is þessi gáfulegu orð eftir forsetanum, en hann flutti tölu yfir Bill:
„Vegna þess að þú, hr. Bill Gates, ert vinur Kína, þá er ég vinur Microsoft," sagði Hu en ræða hans var túlkuð. „Ég þarf líka að fást við Windows stýrikerfið á hverjum degi," bætti hann við.

Hu þessi, sem gegnir líklega sama embætti og Maó forðum, lét það sem sagt verða sitt fyrsta verk þegar hann kom til Bandaríkjanna að heilsa uppá Gates-hjónin og vini þeirra. Og ekki er að efa það að félagi Bill sé vinur Kína. Hann gerði víst viðskiptasamning við Kínverjana uppá 250 milljónir dollara og má það kallast álitlegur aðgangseyrir fyrir hádegissnarl.

Eins og gefur að skilja er það sameiginlegt áhugamál Hus og Bills að allir Kínverjar (sem á annaðborð eru tölvuvæddir) „fáist við Windows stýrikerfið á hverjum degi”, rétt eins og Hu sjálfur (og væntanlega Bill líka). Áhugamál þeirra er kallað að koma í veg fyrir að almenningur í Kína noti áfram „ólöglegan hugbúnað” en alkunna er að fólki þar í landi hefur, eins og mörgum öðrum, ofbýður okrið sem þetta einokunarfyrirtæki stundar um allan heim. Þess vegna hafa milljónir Kínverja gert það sama og aðrar milljónir manna vítt og breitt: notað hvert tækifæri til að afrita Windows fyrir ekki neitt. Með því að allir Kínverjar noti Windows veitist yfirvöldunum tæknilega auðveldara að fylgjast með hverjum einasta tölvunotanda og „vinur Kína”, Bill Gates, fær spón í ask. Það er þess vegna engin furða þótt þeir eigi sameiginlegt áhugamál forstjórinn og forsetinn – séu jafnvel vinir.

Hér á landi, sem víðast annars staðar á Vesturlöndum, hefur Microsoft algera yfirburði á markaðinum fyrir hugbúnað í heimilisstölvur, og gegnir mikilli furðu að Samkeppnisyfirvöld skuli ekki hafa látið sig málið varða. Fyrirtækið hefur komið ár sinni svo „snilldarlega” fyrir borð að flest fyrirtæki sem selja tölvur (svo að segja hvar sem er á jarðarkringlunni) gefa kaupendum ekki kost á öðru stýrikerfi en Windows. „Nei því miður það er ekki hægt að fá tölvuna með öðru stýrikerfi en Windows og ekki heldur án stýrikerfis,” er algengt svar tölvusalanna. „Vinur Kína” hefur náð svo langt að framleiðendur tölva gangast ummvörpum undir þá kvöð að selja tölvurnar einungis með Windows stýrikerfi, þótt tölvurnar sjálfar sé framleiddar og hannaðar útum allt. Hvað myndu menn segja ef allir bílaframleiðendur yrðu þvingaðir til að selja framleiðslu sína með FIAT-vélum? Líklega myndi einhvernsstaðar heyrast hljóð úr horni.

Fulltrúi Microsoft á Íslandi hefur sent fyrirtækjum landsins bréf og að sögn hótað þeim með heimsókn í lögreglufylgd til að ganga úr skugga um að þau séu með „löglegan hugbúnað”. Löglegur hugbúnaður þýðir að sjálfsögðu Windows, sem keypt er fyrir fáránlegt verð. Sannleikurinn er sá að það er enginn þörf fyrir Windows á tölvur. Til er ókeypis hugbúnaður, eða hundódýr, sem annað hvort er hægt að sækja á netið eða panta fyrir sáralítið frá framleiðanda. Hér er átt við LINUX, sem er til í mörgum útgáfum, en á það sameiginlegt að vera þróaður af samfélagi fólks um víða veröld sem hafnar rétti „vinar Kína” til að drottna yfir markaðnum. Þannig hefur á undanförnum árum orðið til svokallaður „opinn hugbúnaður” sem öllum leyfist að afrita og dreifa sín í milli.

Ríkisvaldið og sveitarfélögin eyða á ári hverju milljónum króna í uppfærslukostnað á Microsoft-hugbúnaði. Þessi kostnaður er algerlega óþarfur. Hægt er að fá skrifstofu hugbúnað á netinu, sem heitir OpenOffice og hefur reynst að minnsta kosti jafnvel og Office pakki Microsoft, og nota hann með Windows stýrikerfi. Þá hefur Fierfox-vafri og Thubderbird-póstforrit reynst framúrskarandi vel og fást bæði fyrir Linux og Windows.

Það gæti verið góð byrjun, ef tölvunotendum þykir nóg um drottnun og yfirgang Microsoft á þessum markaði, að byrja á að setja þennan hugbúnað upp á tölvum sínum og fylgja hér gagnlegar slóðir í þessu skyni.

http://www.openoffice.org

http://www.mozilla.com

Þeir sem vilja ganga lengra og prófa nýtt stýrikerfi með feikilegum aukaforritum við hlið Windows gætu t.d. skoðað:

http://www.mandriva.com

 hágé.