Fara í efni

MEIRIHLUTINN ER MEÐ OKKUR

Sem betur fer er fólk í landinu að vakna til vitundar um að brjálæðisleg stóriðjustefna ríkisstjórnarflokkanna gengur ekki lengur. 63 % landsmanna vill ekki fleiri álver en Framsóknarflokkurinn með Sjálfstæðisflokkinn sér við hlið heldur áfram á sömu braut og áður og gefur nú álrisum lausan tauminn. Farið er í betliferðir til Ameríku til að hlusta á stóradóm Alcoa um hvar þeir vilji að næsta álver þeirra rísi. Öfgafull álvæðingarstefna Framsóknar er að flytja okkur á endastöð og af þessari leið verður að snúa.
Á sama tíma og endalausum fjármunum er sóað í álver og stórvirkjanir er Háskólinn á Akureyri í fjársvelti og vexti hans settar skorður. Háskóli sem virkað hefur sem drifkraftur á atvinnulífið á Eyjarfjarðarsvæðinu.
Þetta er fullkomlega öfugsnúið og ekki heil brú í fyrirætlunum stjórnvalda.

Stórir vinnustaðir

Fleiri og fleiri eru farnir að vara við stóriðjustefnunni og forsvarsmenn í atvinnulífinu koma nú fram og benda á að við höfum nú þegar tapað fleiri störfum í hátækniiðnaði og þekkingarstörfum en álverin koma nokkurntíma til með að útvega. En það dugar ekki til. Valgerður Sverrisdóttir stóriðjuráðherra er löngu hætt að hlusta. Og öll ríkisstjórnin er meðvirk.
Þegar fólk bendir á aðrar lausnir og önnur störf sem hægt er að skapa hrista þau bara hausinn og segja: "þetta eru engir stórir vinnustaðir". En hver er reynsla Norðlendinga af stórum vinnustöðum? Var ekki aðal vandamál Akureyrar að Sambandsverksmiðjurnar liðu undir lok og eftir stóð starfsfólk án vinnu. Stóri vinnustaðurinn lagði upp laupana. Og það sama gildir um álverin sem nú er pakkað saman og hægt að flytja til Íslands því hér er orkan seld til þeirra á spottprís. En er þá ekki jafn auðvelt fyrir álrisana að pakka aftur saman og fara? Alcan er þegar farið að hóta því að ef ekki fáist í gegn stækkun á álverinu í Straumsvík þá fari þeir bara. Og starfsmennirnir verða skildir eftir atvinnulausir.

Fjölbreytni en ekki einhæfni

Við viljum byggja á fjölbreytni en ekki einhæfum atvinnurekstri. Er eitthvert vit í því að selja 80 % af allri framleiddri raforku til þriggja álfyrirtækja eins og staðan verður árið 2008? Nei, auðvitað ekki. En það er greinilegt að ekkert getur stoppað álflokkana annað en atkvæði greitt Vinstrihreyfingunni grænu framboði. Þannig getum við breytt hlutunum til hins betra.

Hlynur Hallsson