Fara í efni

ALÞJÓÐLEGUR BARÁTTUDAGUR KVENNA

Það er langt síðan þvílíkur kraftur hefur verið í  kvennabaráttunni á Íslandi eins og nú um mundir. Þegar haldið var upp á 30 ára afmæli kvennafrísins á síðasta ári sýndu konur samtakamáttinn og blésu til stærstu mótmæla Íslandssögunnar þann 24. október. Því miður er enn þörf á slíkum mótmælum þar sem jafnrétti er ekki náð og frelsið er ekki einu sinni í augsýn. Kynjamisréttið er svo inngróið í okkar kerfi og svo nálægt okkur öllum að margir eiga erfitt með að koma auga á hið auljósa. Enginn segist vera hlynntur misrétti kynjanna en samt erum við öll sek um að viðhalda valdakerfi sem hyglir körlum á kostnað kvenna. Baráttan nú um mundir snýst einmitt um að véfengja allt kynjakerfið sem við lifum og hrærumst í. Það er ekki nóg að breyta einstaka lagabálkum eða koma á fót einstaka nefndum til að kryfja málið. Við verðum að hugsa upp á nýtt og setja nýjar leikreglur sem rúma bæði kynin. Stjórnmálin, fjármálastofnanir, fjölmiðlarnir, atvinnulífið og heimilin þurfa að endurskoða gildi sín með tilliti til kynjajafnréttis. Þetta er erfitt ferli en þolinmæðin er á þrotum og kerfið úr sér gengið. Að lokum munum við öll hagnast á jafnrétti því eins og sagan sýnir eru það ekki bara konur sem njóta afraksturs jafnréttisbaráttunnar heldur samfélagið allt. Aldrei er meiri ástæða til að halda baráttunni áfram, styrkja samstöðuna og breyta ríkjandi gildum og hefðum. Ég óska öllum jafnréttissinnum til hamingju með daginn og óska okkur gæfu í hinni krefjandi byltingu sem ekki verður um flúin.

Drífa Snædal