Fara í efni

TÍMINN OG SÍMINN

Þegar ég var unglingur þá orti ég lítið ljóð sem var á þessa leið:

Þegar Saman og Gaman voru saman
þá þótti þeim gaman
og þegar Gaman og Saman þótti gaman,
þá voru þeir saman.

Þetta minnir mig einhvernveginn á tímann og Símann, því tíminn sem leið frá því kjötkatlafurstar einkavæðingar vildu fyrst gefa Símann og þar til þeir gáfu hann, var á margan hátt einkar dýrmætur tími. Mér er sagt að einkavinavæðingarnefndin hafi makað krókinn á þessum tíma og svo er mér sagt að raunverulegt verðgildi fyrirtækisins hafi nær þrefaldast á þessum tíma. Þannig að; það sem átti að selja á 40 milljarða, hefði átt að fara á upphæð sem var nær 120 milljörðum en þeim tæplega 70 sem góssið fór á.

Barlómur burgeisanna gengur aftur á móti útá það að þeir hafi keypt Símann alltof dýru verði. Þetta þýðir, að með tímanum verði neytendur að greiða hærri gjöld, því hugsanlegu tapi verður að ýta útí verðlagið. Og svo verður að skerða þá þjónustu sem ekki borgar sig.

Svo er það annað sem tengir saman tímann og Símann, og það er sá tími sem er liðinn frá því nýir eigendur Símans lofuðu að hagræðingin myndi nú ekki hafa í för með sér neina sérstaka annmarka fyrir landsbyggðina, og þar til þessir sömu eigendur byrjuðu að segja upp starfsfólki úti á landi.

Svo kemur önnur skemmtileg tenging upp, en það er vangaveltan um þann tíma sem menn brúkuðu til að átta sig á því að Síminn ætti að fá íslensku markaðsverðlaunin 2005 og þar til fyrrverandi aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar tók við þeim verðlaunum fyrir hönd Símans.

Og svo er það skemmtilegt hvernig símarnir og tímarnir virðast breytast í takt. Eitt sinn var Tíminn málgagn annars af flokkunum sem nú eru í ríkisstjórn hér á landi og nú er Síminn að verða að málgagni flokks sem er í áðurnefndri ríkisstjórn. Þetta hefur gerst þannig að Síminn er kominn útí það sem heitir fjölmiðlarekstur og auðvitað spurning hvernig fjölmiðlalög þarf að sníða þeim rekstri, þegar fram líða stundir.

Kannski fer fyrir Símanum einsog Tímanum...

Það fóru skrautlegar sögur af því hve óskaplega Vinstri-grænir voru á móti sölu Símans. Tíminn verður svo að leiða í ljós hversu margir sýna í verki þær mótbárur.

Ekki leyfi ég mér þann munað að hvetja fólk til aðgerða, en minni á að oft hefur gamansöm samstaða verið ágætt verkfæri þeirra sem minna mega sín í baráttunni við öflin sem ógna.

Af mér er það aftur á móti að frétta, að nú á ekki eftir að líða langur tími þar til ég hætti viðskiptum mínum við Símann.

Kristján Hreinsson, skáld