Fara í efni

FJÖLKVENNUM OG - MENNUM 24. OKTÓBER!

Þrjátíu ár eru liðin síðan íslenskar konur tóku sér frí frá störfum heima og heiman til að sýna framlag sitt til samfélagsins með áþreifanlegum hætti. Það er alveg öruggt að konur hafa gengið af baráttufundinum fyrir þrem áratugum fullar bjartsýni að nú yrði málum þokað áleiðis. Reyndin er önnur og launamunur kynjanna finnur sér sífellt nýjan farveg með einstaklingsbundum samningum og launaleynd. Sjónum okkar hefur líka verið beint að misrétti á öðrum sviðum, í stjórnmálum, þar sem peningavaldið er og inni á heimilum þar sem allt of margar konur búa við öryggisleysi og ógn. Margt er óunnið í kvenfrelsismálum en kvenfrelsi er forsenda þess að jafnrétti náist.

Ef kvennabarátta síðustu aldar hefur kennt okkur eitthvað hlýtur það að vera að jafnrétti næst ekki af sjálfu sér. Til að ná jafnrétti þarf stöðuga baráttu bæði í vörn og sókn. Það er svo sannarlega tilefni til að íslenskar konur – og karlar, snúi bökum saman í baráttunni og sýni að sá hugur sem einkenndi 24. október fyrir þrjátíu árum síðan býr enn í okkur. Mætum öll í kröfugöngu klukkan þrjú á mánudaginn og göngum fylktu liði undir slagorðinu „konur höfum hátt“ niður á Ingólfstorg. Gerum 24. október 2005 að upphafi endaloka kynjamisréttis.

Undirbúningsnefnd baráttuárs kvenna hefur sent frá sér þetta:

Hvers vegna kvennafrí?

·         Atvinnutekjur kvenna eru aðeins 64,15% af atvinnutekjum karla.

·         Konur eru með 72% af launum karla fyrir jafnlangan vinnutíma.

·         Barneignir hafa neikvæð áhrif á laun kvenna en jákvæð áhrif á laun karla.

·         Margar konur búa við öryggisleysi og ógn á heimilum sínum.

·         Ein af hverjum þremur konum verður fyrir kynbundnu ofbeldi á lífsleiðinni.

·         Konur uppskera ekki í samræmi við menntun sína.

·         Konur í fyrirtækjarekstri hafa verri aðgang að fjármagni.

·         Ábyrgð á umönnun barna og heimilisstörfum er enn að mestu á höndum kvenna.

·         Umönnunarstörf eru með lægst launuðu störfum á vinnumarkaði.

·         Rödd kvenna er veik í fjölmiðlum.

·         Litið er á líkama kvenna sem söluvöru.

·         Kona hefur aldrei verið forsætisráðherra, bankastjóri eða biskup.

·         Konur hafa aldrei verið helmingur þingmanna.Konur njóta ekki jafnréttis á við karla.

·         Þessu þarf að breyta. Ég þori, get og vil!