Helgi Guðmundsson skrifar: VOND BYRJUN Á KOSNINGABARÁTTU

Fréttablaðið birti nýlega skoðanakönnun sem blaðið hafði látið gera og leiddi í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn fengi 9 borgarfulltrúa af 15 ef kosið yrði nú, Samfylkingin 5 og Vinstri grænir 1. Framsókn og Frjálslyndir yrðu úti í kuldanum. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra þóttu þetta góð tíðindi fyrir Samfylkinguna (tók að sönnu fram að þau væru ekki jafn góð fyrir Reykvíkinga, hvað svo sem það nú merkir), og það sem meira var: Hún fullyrti að baráttan stæði milli Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins.

Þegar ég sá þessi orð höfð eftir borgarstjóranum, þeim sama og talar niður til samherja sinna, sem geta hugsað sér að gegna starfinu, þá fannst mér ég vera kominn áratugi aftur í tímann, þegar svona frasar voru daglegt brauð í pólitík.

Borgarstjórinn hlýtur að vera vondur í tvennu, sem þó er afar mikilvægt fyrir fólk sem vill láta taka mark á sér í pólitík að kunna - hún er sýnilega vond í reikningi annars vegar og pólitík hins vegar. Skoðanakönnunin sýndi að mig minnir að Íhaldið hafði nálega helmingi meira fylgi en Samfylkingin og hinir flokkarnir það sem á milli bar. Að halda því fram að baráttan standi milli Samfylkingarinnar og Íhaldsins við þessi skilyrði er ótrúlegur barnaskapur, eða hugsar borgarstjórinn sér að V, B og F hætti við að bjóða fram? Það er ekki nóg með að borgarstjórinn geti ekki skilið að baráttan næsta vor stendur á milli flokkkanna sem stóðu að R-listanum annars vegar og Íhaldsins  hins vegar, heldur áttar hún sig ekki á því að þau yfir 20% atkvæða sem SF þarf í viðbót til að vinna Íhaldið er fullkomlega óraunhæft markmið við núverandi aðstæður.

Þetta er vond byrjun á kosningabaráttu: Fyrst lýsir Steinunn Valdís því að Stefán Jón Hafstein hafi lengi gengið með borgarstjórann í maganum og þætti slíkt tal ekki par fínt ef karl hefði sagt það um konu. Hér leynir sér nefnilega ekki hrokinn og fyrirlitningin á þeim sem álítur að hann geti gengt embættinu sem hún situr í. Það er eins og búið sé að finna borgarstjóra til eilífðar og fráleit goðgá að aðrir geti gengt starfinu. Steinunn Valdís er sjálfsagt með borgarstjórann annarsstaðar en i maganum, kannski í vasanum eða jafnvel veskinu en hún hefur engan einkarétt á starfinu og ennþá síður pappír uppá að hún sé hinn eini sanni borgarstjóri af vinstri vængnum. Það er ekkert við það að athuga að Stefán Jón Hafstein vilji verða borgarstjóri. Ég veit ekkert um það - en það getur vel verið að hann yrði ekki verri en núverandi borgarstjóri, hugsanlega gæti hann orðið betri, hver veit. Á sama hátt er alveg sjálfsagt að fulltrúi VG eða framsóknar komi til greina í stöðuna - enda má ganga útfrá því sem vísu að flokkarnir bjóði fram hvað sem meintri einkabaráttu Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur og Íhaldsins líður.

Vitlegt upphaf kosningabaráttunnar fyrir R-listaflokkana væri að fara norsku leiðina, lýsa því yfir að þeir hyggðu á áframhaldandi samstarf þó þeir bjóði ekki fram saman eins og síðustu ár. Þær ættu að koma sér saman um ákveðin megin málefni sem þeir legðu áherslu á að vinna saman að. Kjósendur skilja vel að flokkarnir vilji spreyta sig einir - sjá hvernig þeir standa og semja svo á grundvelli þess styrks sem þeir fá í kosningunum. Umfram allt eiga flokkarnir að ganga hreint til verks við kjósendur, segja þeim að ekki standi til að taka upp sama makkið í borgarstjórn og gert er við myndun ríkisstjórna heldur þvert á móti: Félagshyggjuflokkarnir í Reykjavík vilji áfram vinna saman að sameiginlegum markmiðum að kosningum loknum.

hágé.

Fréttabréf