Fara í efni

ÉG HELD...

Ég held að það þurfi að gera alvarlegar breytingar á þeim lögum sem fjalla um rétt fólks til að öðlast ökuréttindi. Því þegar það er skoðað að aldurshópurinn 17 – 19 ára er sá hópur sem hlutfallslega veldur flestum óhöppum í umferðinni, þá sé ég þann kost vænstan að taka þennan hóp úr umferð.

Ég verð vitni að því á hverjum degi að fólk ekur um mitt hverfi á alltof miklum hraða. Það er þannig til dæmis hér á Suðurgötunni, sunnan Hringbrautar, að ég held að það sé sjaldgæft að sjá bíla sem fara á réttum hraða og að þar sé virt stöðvunarskylda, það heyrir til undantekninga. Svo merkilega vill nú til að obbinn af þeim sem ég sé fara allof hratt hér í næsta nágrenninu, eru akkúrat þeir yngstu.

Slys á þjóðvegaum úti eru þess eðlis að þar fara ungir ökuleyfishafar fremstir í flokki þegar skoðað er hverjir eiga beina aðild að flestum slysum.

Ég held að alvaran sé mikil í málinu, raunar meiri en svo að eitthvert umferðarátak geti skilað okkur ávinningi til frambúðar. Ef þessum sökum og að gefnu tilefni geri ég það að tillögu minni að þingmenn úr öllum flokkum komi sér saman um að breyta lögum, þannig að ungt fólk þurfi að hafa náð 19 ára aldri áðuren það fær að taka bílpróf. Síðan tel ég sýnt að takmarka verði vélarstærð og hestaflafjölda í bifreiðum sem ungir ökumenn hafa leyfi til að aka.

Ef þingmenn allra flokka standa saman um þetta átak, þá held ég að þeir geti allir komist hjá því skelfilega atkvæðatapi sem óhjákvæmilega yrði raunin ef einn flokkur stæði að slíkri tillögu.

Málið má ekki snúast um atkvæði, það snýst ekki einvörðungu um líf ungra ökumanna og það snýst ekki heldur um það að sölumenn bifreiða missi spón úr sínum aski. Þetta mál snýst um velferð þjóðarinnar, ábyrgðarhlutverk stjórnmálamanna og vilja okkar allra til að byggja hér betra þjóðlíf.

Þetta er nú það sem ég held.

Nú skal hefja átak enn,
ekkert má hér spara
því villtir hryðjuverkamenn
um vegi landsins fara.

Kristján Hreinsson, skáld.