Fara í efni

TILVISTARKREPPA OG TVÍSKINNUNGUR

Eftir að hafa hlýtt á pistil í útvarpinu, þar sem Alfreð Þorsteinsson hélt því fram að R-listasamstarfið yrði að lifa, ef menn ætluðu ekki að hleypa sjálfstæðismönnum að kjötkötlunum, þá fór ég að velta fyrir mér þeirri skelfilegu ógnun sem okkur er sagt að felist í því að missa tökin á stjórn Reykjavíkurborgar.

Ég þurfti náttúrulega ekki að hugsa lengi til að átta mig á því að VG gerir lítið annað en gagnrýna Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórnarsamstarfi sem hefur mergsogið alþýðuna meir en nokkur önnur ríkisstjórn hér á landi, og gefið þeim ríku kost á stærra ríkidæmi en nokkru sinni fyrr. VG gagnrýnir þessa stjórn fyrir það að hún hefur beitt einkavinavæðingu í öllu sem hún hefur tekið sér fyrir hendur. VG gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir þann aumingjadóm sem viðhafður var þegar íslensk þjóð var látin samþykkja árás á Írak. VG gagnrýnir ríkisstjórn Halldórs og Davíðs fyrir þau bolabrögð að gera Hæstarétt að stjórntæki flokksklíku.

Vissulega hefur VG verið virkur þátttakandi í gagnrýni á störf stjórnarinnar, þótt ekki hafi mikið farið fyrir gagnrýni á mál sem ég tel að skipti okkur svo miklu máli að við megum ekki horfa frá því eitt einasta augnablik. Hér á ég vitaskuld við þann glæp sem troðið er í þjóðina og kallast Kárahnjúkavirkjun.

Forysta VG hefur einfaldlega ekki þorað að segja mikið um Kárahnjúka, vegna þess að menn óttast að fá ekki að vera með í stjórnarsamstarfi ef þeir gagnrýna um of það fúlegg sem ráðamenn kalla fjöregg þjóðarinnar í dag.

Og mótmæli VG í borgarstjórn voru svo þögul þegar ábyrgðir til handa Landsvirkjun voru samþykktar hér um árið, að það mátti heyra fjöður detta á meðan mótmælin stóðu hvað hæst.

En burt séð frá þeirri tilvistarkreppu sem VG á í þegar virkjanamál og hugsanleg aðild að ríkisstjórn ber á góma, hlýtur okkur að vera það ljóst að VG getur ekki verið þekkt fyrir þann aumingjadóm öllu lengur, að sitja í borgarstjórn með flokki sem fremur hvern glæpinn á fætur öðrum við stjórn landsins.

Eru menn ekki að meina neitt með orðum sínum þegar þeir tala um endalaus svik við alþýðuna, þegar menn tala um dulbúnar skattahækkanir, þegar menn tala um einkavinavæðingu, aðild að innrás í Írak o.s.frv.

Að bölva Framsóknarflokki á einum vettvangi en sitja svo með honum í stjórn og treysta forystumönnum flokksins fyrir verðmætum borgaranna á öðrum stað, það er einsog að vilja uppræta Mafíuna í einu orðinu en heiðra Al Capone í því næsta.

Ég vil ekki sjá að VG fari í áframhaldandi samstarf með þeim rotna flokki sem á menn einsog Halldór Ásgrímsson sem sína bestu leiðtoga. Og mér er nákvæmlega sama hvernig menn ætla sér að reyna með rökræðum að halda því fram að stjórn Reykjavíkurborgar og stjórn Íslands skarist ekki á nokkurn hátt. Því þegar framsóknarmenn eru annarsvegar, þá leka upplýsingar frá manni til manns; öllum trúnaðarupplýsingum er það eitt heilagt – að styrkja flokkinn og tryggja honum taumhald - hver sem er, hvenær sem er og með hverjum sem er.

Ég skora á fólk í VG að láta ekki bjóða sér þá lygi sem framsóknarmenn hvísla um þessar mundir.

Leyfum þeim að rotna í friði.

Það sagt er um Framsóknarflokkinn
að farinn sé af honum þokkinn,
kjörfylgi rændur
með kúgaða bændur
á kaf oní fjóshauginn sokkinn.

Kristján Hreinsson, skáld