Baldur Andrésson skrifar:"Ekkert þras við Geira gas/ Ekkert mas við vændiskonu ..........."
Þetta segir í gömlum vísuhelmingi og gæti verið í stíl við
umkvartanir forsætisráðherrans Halldórs Ásgrímssonar um þessar
mundir. Yfir okkur hellast ljót tíðindi frá Írak. Flaumur ótíðinda
hefur nú staðið á annað ár. Halldór er þreyttur.
Til viðbótar þessu klifa þrasgjarnir stöðugt á því við sama Halldór
hvaða erindi Íslendingar áttu til að ryðja heljarslóð fyrir
Bandaríkjamenn inn í olíuauðugt þróunarland í Asíu. Flestir
Íslendingar eru löngunarlausir til mannvíga, latir til þjófnaðar á
lífshamingju fjarlægra þjóða. Þeir pexa og rexa yfir því hlutskipti
að vera útnefndir hjól undir voldugum bandarískum stríðsvagni í
austurvegi gegn vilja sínum. Engan frið finnur ráðherrann fyrir
nöldrinu.
Þegar nú er reiknaður stríðskostnaður Bandaríkjamanna eru 18.000
milljarðir króna nefndar og þá er ekki allt með talið. Enginn þorir
að reikna manntjón Íraka til fulls eða tölu limlestra á líkama og
sál. Sultur og seyra blasir í því landi við hundruðum þúsunda
barna. Allt Írak er sundurbrotið og lamað og reiknimeistarar kunna
ekkert að verðmeta það tjón allt,sem Írakar hafa þolað.
Forsætisráðherrann er þreyttur segir hann. Hann skilur ekki
áhyggjur landa sinna. Stuðningur ráðherrans við Íraksinnrás var
díleitaður af heimasíðu Hvítahússins. Með því er hann ekki lengur
"söguleg staðreynd". Það er enginn listi segir Halldór og var
aldrei listi segir Halldór nú. Það sem er horfið var aldrei.
Sú staðreynd blasir við og það er þreytandi að hamra á henni.
Eftir langa mæðu ráðherrans fékkst Eiríkur Tómasson til að slá
botninn í þrasið fyrir skömmu. Niðurstaða Eiríks var að ákvörðunin
um stuðning við Íraksinnrás hefði verið minniháttar
utanríkismálefni á Íslandi. Ákvörðun Íslands og nokkurra
ríkja var áður sögð forsenda Íraksinnrásar, sem samkvæmt þessu var
smámál, ekki heimsviðburður. Þetta er
lögmannsálitið. Þjóðaræsingur Íslendinga stafar af vanþekkingu
þeirra á eigin lýðræðiskerfi og vanmati þeirra á ráðherravaldi.
Íraksinnrás var og er smámál milli vina. Þarft er að kynna Írökum
þá niðurstöðu og heimsbyggðinni allri. Kannski er þegar búið að
díleita Íraksinnrásinni af heimasíðu Hvíta hússins? Það sem er
horfið var aldrei. Þá geta þreyttir sofið rólegir.