Fara í efni

SKYNSEMIN ÆTTI AÐ RÍKJA

Á áramótum þessum eru örlög hundruð þúsunda fórnarlamba jarðskjálftaflóða í Asíu 

auðvitað það sem mest brennur á sálum manna. Samúðin er mest með hvítum ferðamönnum enda er björgun þeirra forgangsmálið mikla,að þeim beinist kastljósið og áhugi íslenskra ráðamanna. Verst eru þó fátækir landsmenn strandríkjanna settir , því hvorki fá þeir tímanlega hjálp eða þá læknisaðstoð,sem bráðvantar. Enn sjást merki þess að húðlitur skiptir máli, þegar telft er um örlög mannanna.Milljónir manna munu þjást til frambúðar,einkum það lágstéttarfólk sem sjaldnast fær athygli.Við því er að búast.

 

Víst er að Írakar eru ekki almennilega hvítir. Hernaðurinn gegn þeim hefur kostað milljarði dala fyrir andskota Íraka og tjón þeirra sjálfra er enn stærra. Allir þeir fjármunir samanlagðir væru betur komnir í það jákvæða þróunarstarf,sem veröldin þarfnast. Þá væru hundruð milljóna jarðarbúa betur settir en nú er raunin.

 

Í sláturtíðinni í Írak munar ekkert um 5 milljónir en það er talan sem Halldór Ásgrímsson bætti við opinberar upplýsingar um mannfjölda þar sem er innan við 25 milljónir. Halldór telur Íraka vera 30milljónir, skv.áramótaspjalli hans á  St. 2.

 

Davíð fer létt með tölur einnig þegar rætt er um friðsamlega stríðið hans í Írak. Hans skoðun er að aðeins sé tala fallinna stríðsfórnarlamba í Írak rúmlega tveir tugir þúsunda eða á við íbúatölu Kópavogs í stað  eitthundrað þúsund fórnarlamba sem fróðustu sérfræðingar áætla að sé næst lagi.

 

Þá eru ótalin hundruð þúsunda varanlega limlestra Íraka á líkama og sál vegna blóðbaðsins og þau 400 þúsund börn sem nú svelta í þessu niðurnídda samfélagi hernaðarofbeldis skv. S.Þ. Ennþá er óvíst um fjöldann í bandarísku fjöldagröfunum í Fallujah en samtals hvíla þar nú milli 6- og 8000 borgarbúar eftir það eyðingarstríð að því er ætla má. 270.000 borgarbúar Fallujah eru flóttamenn í eigin landi  og munu fæstir þeirra eiga afturkvæmt til ónýtra átthaga.

 

Glottandi segir tvíhöfðinn við stríðsandmælendur : Viljið þið kannski Sadam aftur Eruð þið á móti lýðræði?

 

Írak er gjörsamlega sundurbrotið og niðurnítt samfélag þar sem stríðshryllingurinn,blóðbaðið,óttinn og öryggisleysið litar allt mannlíf umfram annað.

 

Enginn heilvita Íraki bað um þessa "frelsun" Íraks,enda hlutverk Íraka sjálfra að bæta samfélag sitt og þróa. Írakar eiga nú lengri veg í átt að lýðræði en nokkru sinni áður í marga áratugi. Væntanlegar skrípakosningar munu engu breyta þar um. Það ætti tvíhöfðinn að vita þrátt fyrir allt og það vita Írakar örugglega.

 

Er rangt að tala í einu orðinu um skelfilega stríðsstefnu og í hinu orðinu um skelfilegar náttúruhamfarir ? Líklega ekki því mannlegir vitsmunir hefðu í báðum tilvikum getað afstýrt miklum hörmungum. Þegar skynsemin sofnar þá vaknar villidýrið og þá vaknar líka kæruleysið um hag náungans.Slíkt leiðir til mannlegra hamfara og stundum til varnarleysis gegn hamförum náttúrunnar.

Skynsemin ætti að ríkja.

                     Á annan í nýjári 2005

                     Baldur Andrésson