Hjörtur Hjartarson skrifar: Átta spurningar og sjö svör

Eftirfarandi spurningar  og svör lúta að væntanlegri yfirlýsingu Þjóðarhreyfingarinnar í New York Times:
 
1. Hver er tilgangurinn með yfirlýsingunni?

Svar: Að mótmæla yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda um stuðning við innrás Bandaríkjanna og ,,viljugra" bandamanna þeirra í Írak í mars 2003. Með þeirri yfirlýsingu voru brotin íslensk lög, alþjóðalög - og íslensk lýðræðishefð. Ákvörðun um stuðning við innrásina tóku forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands einir án þess að málið fengi fyrst umfjöllun í utanríkismálanefnd Alþingis. Er það þó skylt samkvæmt íslenskum lögum.

2. Af hverju segir í yfirlýsingu þjóðarhreyfingarinnar "Við, Íslendingar", þótt augljóslega muni ekki allir Íslendingar styðja birtingu yfirlýsingarinnar?

Svar. Vegna þess þeir sem styðja yfirlýsinguna eru Íslendingar, en hvergi er þeim barnaskap haldið fram að þar séu á ferð allir Íslendingar. Þegar söfnuninni lýkur verður gefinn upp fjöldi þeirra Íslendinga sem styðja birtingu yfirlýsingarinnar með fjárframlagi sínu.

3. Hvers vegna að birta yfirlýsinguna í New York Times en ekki í dagblaði í Írak?

Svar: Stuðningur Íslands við innrásina í Írak hefur vakið heimsathygli. New York Times er eitt virtasta dagblað heims og þangað sækja aðrir fjölmiðlar fréttir um alþjóðamál, meðal annars fjölmiðlar í Írak og á Íslandi.

4. Hvað kostar að birta yfirlýsinguna í New York Times og hvenær verður hún birt?

Svar: Yfirlýsingin verður birt í janúar og kostar um 2,9 milljónir kr.

5. Væri ekki nær að láta það fé renna til hjálparstarfs?

Svar: Til hjálparstofnana ættu allir aflögufærir að gefa. Samkvæmt frétt RÚV kostar hernaðurinn í Írak 63 milljarða króna á viku og verður bráðlega 95 milljarðar króna, ca. ein Kárahnjúkavirkjun á viku. Nafn okkar og orðspor sem vopnlausrar og friðelskandi þjóðar er líka nokkurra króna virði. - Verði afgangur af söfnunarfénu rennur hann óskertur til Rauða kross Íslands til hjálpar stríðshrjáðum borgurum í Írak.

6. Hvar er hægt að lesa yfirlýsinguna?

Svar: Á vefslóð Þjóðarhreyfingarinnar: www.thjodarhreyfingin.is

7. Hvernig get ég stutt birtingu yfirlýsingarinnar í New York Times?

Svar: Með því að hringja (aftur ef þú hefur þegar gert það) í síma 90-20000. Þannig leggur þú 1.000 kr. (eitt þúsund krónur) til söfnunarinnar. Einnig má leggja frjáls framlög inn á söfnunarreikning í SPRON: 1150-26-833 (kennitala Þjóðarhreyfingarinnar: 640604-2390).

8. Hvað geta tveir íslenskir ráðherrar leyft sér að gera í okkar nafni - án þess að við andmælum?

Fréttabréf