Fara í efni

Núverandi stjórnarandstaða myndi næstu ríkisstjórn

Ríkisstjórnarsamstarfið hangir á bláþræði. Þetta vita allir sem á annað borð eru í einhverju jarðsambandi. Auðvitað reynir Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins að bera sig borginmannlega einsog fyrri daginn og segir allt vera í himnalagi. Þannig hefur forsætisráðherraefnið jafnan talað hvað sem á hefur dunið. Það eru hins vegar flokksmennirnir, að ekki sé minnst á óflokksbundna stuðningsmenn Framsóknarflokksins frá síðustu kosningum, sem eru rasandi. Þeir eru löngu búnir að fá yfir sig nóg af undirlægjuhætti forystu flokksins gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Þessi viðhorf heyrir maður frá þessu fólki nánast hvar sem komið er.
Nú heyrast þær raddir að formaður Framsóknarflokksins leiti hófanna hjá stjórnarandstöðunni um samstarf; hvort það kynni að vera í kortunum að stjórnarandstaðan leyfði honum að setjast í stól forsætisráðherra í sínu umboði. Ég ætla ekki að útiloka að sú stund renni einhvern tímann upp að Vinstrihreyfingin grænt framboð ætti að mynda stjórnarmeirihluta með Framsóknarflokki á landsvísu eins og gert hefur verið í Reykjavíkurborg í ágætu samstarfi (þegar á heildina er litið) innan R-listans. Þetta gæti hins vegar aðeins komið til greina að mínu mati að undangengnum kosningum – og reyndar harla ólíklegt að þetta gæti orðið að óbreyttri stefnu flokksins í utanríkismálum og virkjanamálum.

Framsókn: sölumaður íslenskra stjórnmála

Svo er hitt að Framsóknarflokknum á ekki að líðast að velja á milli vinstri og hægri aflanna og ráða þannig í reynd hverjir sitja við stjórnvölinn hverju sinni, vinstri menn eða hægri menn – en alltaf í samstarfi við Framsóknarflokkinn! Slíkt er ávísun á spillingu, því þannig flokkur er alltaf í aðstöðu sölumannsins sem jafnan spyr: Hver býður best? Farsælast þætti mér að núverandi stjórnarsamstarfi yrði slitið hið bráðasta – efnt til kosninga og síðan mynduð stjórn með vinstri slagsíðu. Haldi Framsóknarflokkurinn sínu striki og púkki áfram undir íhaldið þykir mér vel koma til greina að fara þá leið sem Steingrímur Ólafssson stakk upp á hér á síðunni fyrir skemmstu: Myndað yrði kosningabandalag með núverandi stjórnarandstöðuflokkum fyrir næstu alþingiskosningar. Þetta bandalag gæti verið formlegt eða óformlegt eftir atvikum. Meginmáli skiptir að þessir flokkar ákveði í sameiningu að mynda saman ríkisstjórn fái þeir til þess nægilegt fylgi. Vonandi þurfum við ekki að bíða í þrjú ár þar til þetta getur orðið að veruleika.