Rúnar Sveinbjörnsson skrifar: Hver vill kaupa lyf af VÍS?

Það væri áhugavert rannsóknarefni að grennslast fyrir um hvað varð um Sambandið, sem var stolt framsóknarmanna. Ekki fór það á hausinn svo ég viti heldur voru allt í einu upp sprottin allnokkur stór fyrirtæki sem öllum er stjórnað af gömlum Sambands- og framsóknarmönnum. Nægir þar að nefna risana VÍS, Samskip og  Esso.
Eins og margir muna þá hrökklaðist Finnur Ingólfsson, fyrrverandi vonarstjarna framsóknarmanna, úr pólitík í desember 1999. Ef rétt er munað þá var eittvað vesen á Finni um þetta leyti, veiðiferðir og fleira sem þvældust fyrir hans pólitísku framtíð. Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sukk í bankakerfinu og hvernig bankamálaráðherranum Finni tókst að skella ábyrgðinni alfarið á herðar bankastjóra ríkisbankanna og í framhaldinu einkavæðing þeirra, færði honum bankastjóraembætti í Seðlabankanum. Ekki má heldur gleyma endalausum ekki-samningum Finns um álver hér og þar, sem voru að setja allt atvinnulíf úr skorðum á þessum tíma því hringinn í kringum landið var beðið eftir álverum sem áttu að bjarga byggðum landsins. Fyrir allt þetta var óvinsælasti stjórnmálamaður um þessar mundir brottrekinn úr íslenskri pólitík og honum smeygt upp í bankastjórastól.

En Seðlabankastjóraembættið var Finni ekki nóg og nú er hann orðinn forstjóri VÍS og stjórnarmaður í Verslunarráði. Ekki situr hann þar með hendur í skauti eins og nýjustu fregnir herma. Finnur hefur nú fyrir hönd VÍS keypt Lyfju, sem á 34 lyfjaverslanir. Seljandinn er félag í eigu Baugs (sem er í sjálfu sér athyglisvert). Finnur var einn af höfundum laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði en enn hefur grunninum ekki verið komið í gang og verður kannski bið á því. Með kaupum á stórri lyfjaverslana-keðju virðist það ætlun Finns og félaga að koma upp sérstökum  Sambands-grunni á heilbrigðissviði. Þannig hlýtur það að koma tryggingarfélaginu vel að eiga lyfjaverslanir; t.a.m. við mat á verði líftrygginga, úr því að gagnagrunnslögin hafa ekki enn virkað sem skyldi. Það verður ekki annað sagt en Finnur Ingólfsson sé enn verðugur fulltrúi og virkur gerandi í því gróðasamfélagi, sem hann átti sinn þátt í að skapa sem stjórnmálamaður og ekki kæmi á óvart að hann yrði senn gerður að heiðursfélaga í Verslunarráði. Og nú er bara eftir að ganga endanlega frá heilbrigðiskerfinu og þá verður verkið fullkomnað.

Fréttabréf