Fara í efni

Markaðurinn er vandinn

Fjölmiðlafrumvarppið svokallaða hefur vakið eitthvert mesta fjölmiðlafár sem menn muna.  Það er ekki að undra því með frumvarpinu eru stjórnvöld að ganga þvert á, og jafnvel til baka, á  síbylju undanfarinna ára um lífsnauðsyn markaðsvæðingar, og einkavæðingingar sem öllu ætti að bjarga.

Í sjálfu sér er ekki ástæða til að kvarta yfir því og ánægjulegt að sjá stuttbuxnadeildina berjast hatramlega gegn sínum eigin draug.  En ég leyfi mér að efast um að hér sé allt sem sýnist.  Auðvitað dylst engum að þessu frumvarpi er stefnt gegn einu fyrirtæki eða jafnvel einum manni.  Ekki ætla ég að draga úr því að Baugur hefur nær alveldi  í smásölu og fyrirferð á öðrum vígstöðvum er með ólíkindum, en þeir eru ekki þeir einu sem hafa sölsað undir sig óhóflegan hlut í skjóli messu markaðsvæðingar.

Ég hef mínar skoðanir á fréttaágripi Fréttablaðsins og þeim fréttaflutningi sem DV stundar, ég hef heldur ekki komið auga á þá miklu fjölbreytni sem mig minnir að hafi átt að koma í kjölfar útvarps- og sjónvarpsstöðva í einkaeign.  Satt að segja hafa þessar stöðvar stælt miðil allra landsmanna að meira eða minna leyti, hafa kannski verið ögn ameríkanseraðri heldur en hann.  Eiginlega væri nær að lögbinda kvóta á hvað mikið efni mætti koma frá forysturíki heimsins í mannúðarmálum.  Og í raun hafa Skjár 1 og Stöð 2 reynt að framleiða innlenda þætti og gert það vel.  En synd væri að segja að fjölbreytni væri að öðru leyti í efnisvali allra stöðvanna, og þar undanskil ég ekki þjóðarsjónvarpið.  Með því er ég ekki að segja að sakamálaþættir eða stelpnaþættir séu af hinu vonda, þeir eru hin besta dægrastytting.  En að borða hamborgara sífellt í annað málið og pitsur í hitt getur nú ofgert meltingarfærum jafnvel hinna hraustustu.

Málið er það, að furðulegt er að taka eitt atriði út úr allri einkavæðingunni.  Það er augljóst að samþjöppun og samráð hafa aukist hröðum skrefum undanfarið.  Að ætla að leysa öll mál með hlutafjárvæðingu og einkaeign hefur sýnt sig að gengur ekki upp.  Menn verða ekki saklausir sem óspjallaðar meyjar þó þeir kaupi fyrir nokkra milljarða í dag og selji síðan á morgun til að kaupa eitthvað allt annað þriðja daginn.  Það er von að menn vilji hafa eðlilega ávöxtun fjár síns, en bilið milli þess sem kalla má eðlilegt og taumlausrar græðgri er oft stutt. 

Samþjöppun í fjölmiðlum er ekki af hinu góða, en hvað með samþjöppun í sjávarútvegi, samgöngum, flutningum, landbúnaði?  Nú gala allir um hagkvæmni stærðarinnar, en hún er ekki alltaf til góðs, yfirsýn skortir oft og sá drifkraftur sem mannleg samskipti eru, vill gleymast.

Fjölmiðlafrumvarpinu má stinga ofan í skúffu, það fjallar aðeins um lítið brot af miklu vandamáli.  Vandamál óhefts markaðar er það sem þarf að íhuga, greina og setja lög um.  Þau vandamál og lög til varnar fólki verða ekki sett á næturfundum, væri betra að verja björtum vornóttum til annars.  Þessi mál þarf að íhuga og bregðast við á þann hátt að öllum komi til góða en ekki böðlast áfram í vonskukasti.