Drífa Snædal skrifar: Skólagjöld eða góð menntun

Vandræðagangur Háskóla Íslands virðist ætla að ná nýjum hæðum í umræðunni um skólagjöld. Sífellt fáum við nýjar ekki-fréttir um að ekki eigi að taka afstöðu að svo komnu máli til þess hvort setja eigi skólagjöld á nám við stofnunina. Þvælingurinn innan HÍ er vatn á myllu þeirra sem vilja markaðsvæða allt nám þar með talinn Menntamálaráðherra. Málflutningurinn er á þá leið að með skólagjöldum verði nám betra og er þá verið að líta sérstaklega til greina eins og viðskiptafræði, verkfræði og lögfræði, eða þeirra greina sem eiga í "samkeppni" við aðra skóla. Þar með er þverfaglegur háskóli lagður að jöfnu við afmarkaða einkaskóla sem seint munu rísa undir nafni sem háskólar þar sem róið er á gróðamið einstakra greina. Háskólinn í Reykjavík mun til dæmis seint bjóða nám í heimspeki eða íslensku því það er hreinlega ekki gróðavænlegt en engu að síður forsenda fyrir titlinum háskóli.
Það er einmitt þessi sérstaða Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri sem er grundvöllur fyrir góðri menntun og, ef við beitum fyrir okkur markaðsfræðinni, - samkeppnisforskoti. Hvar annars staðar býðst nemendum að blanda saman læknisfræði og heimspeki, viðskiptafræði og kynjafræði, verkfræði og sagnfræði, lögfræði og íslensku, og svo mætti áfram telja. Fjölbreytt menntun sem þessi er hins vegar æskileg og beinlínis nauðsynleg framförum og víðsýni. Einungis er á færi tveggja skóla hér á landi að bjóða upp á svona tækifæri fyrir nemendur, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri - þetta eiga þessir skólar að nýta sér betur og kynna sem raunhæfan kost fyrir nemendum.

Menntastefna stjórnvalda gengur hins vegar í þveröfuga átt, alltaf er verið að afmarka skólastigin betur með samræmdum prófum á mörgum stigum og núna með hugmyndum um skólagjöld við einstakar deildir innan háskólans. Þetta er hugmyndafræði gærdagsins en framtíðarstefna hlýtur að byggjast á því að brjóta niður múra milli menntunarstiga og ekki síst milli greina. Tilraunastarfsemi verður að fá að þrífast innan menntakerfisins og fólk verður að hafa tækifæri til að afla sér þverfaglegrar menntunar innan hins hefðbundna tímaramma. Þannig má ímynda sér að tvinna saman iðngreinar við bóklegar greinar á háskólastigi í meiri mæli en nú er gert og hvetja námsfólk til að nýta sér það besta sem gert er í hverjum háskóla fyrir sig. Það er til dæmis hægt að sjá það sem spennandi kost fyrir marga að blanda saman markaðsfræði í Háskóla Íslands við myndlist í Listaháskólanum - nú eða heimspeki og leiklist.

Að setja á skólagjöld í einstökum greinum eða skólum er einungis til þess fallið að námsfólk komi sér fyrir í afmörkuðum bás og hviki hvergi frá beinu brautinni,  fyrir nú utan það að mismuna nemendum eftir fjárhag. Það er hins vegar ómetanlegt fyrir einstaklinga og samfélagið allt að víkka sjóndeildarhringinn og er farvegur frjórrar hugsunar og nýsköpunar. Þessi framtíðarsýn fjölbreyttrar menntunartækifæra er hins vegar andstæð skólagjöldum og því er nærtækt að spyrja hvort við viljum skólagjöld eða góða menntun?

Fréttabréf