Fara í efni

Hin nýja öld Ameríku

Umræður um málefni heimsins eiga til að lenda í skringilegum farvegi hér á landi og er stundum engu líkara en helstu valdamenn landsins geti ekki sett það sem er að gerast í eðlilegt samhengi. Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hafa verið helstu talsmenn ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum, eins og eðlilegt má teljast. Utanríkisráðherra hefur beitt sér fyrir jákvæðum breytingum á utanríkisstefnunni í þá veru að auka stuðning við þróunarlöndin og standa að þeim verkefnum af meiri myndleik en áður. Aftur á móti eru þeir félagar furðulega gagnrýninslausir og einfeldningslegir í ályktunum sínum á þeim sviðum sem snerta samskiptin við Bandaríkin. Svo er að sjá að þeir víki sér algerlega undan því að spyrja sjálfsagðra spurninga, þó ekki væri aðra en sjálfa sig, um hvort bandarísk stjórnvöld hagi sér þannig að rétt sé að styðja allar gerðir þeirra og hvaða markmiðum ætlunin sé að ná með því ægivaldi sem Bandaríkin hafa í heiminum.

Á heimasíðu samtakanna New American Century, http://www.newamericancentury.org/ má lesa hver séu helstu markmið þeirra voldugu og íhaldssömu samtaka sem að síðunni standa. Og haldi menn að þar séu einhver smámenni á ferð er það af og frá. Meðal leiðtoganna eru varaforsetinn Dick Cheney, varnarmálaráðherrann Donald Rumsfeld og hægri hönd hans Paul Wolfowitz, að ógleymdum bróður forsetens Jeb Bush og fyrrverandi varaforseta Dan Quayle og eru þá aðeins nefndir þeir af hópnum sem mest hefur borið á í heimsfréttum undanfarin ár. Þeirra sýn á heiminn er einföld: forysta Bandaríkjanna í heiminum er ekki bara góð fyrir Bandarikin heldur heiminn allan.

Hér er sannarlega ekki verið að biðja afsökunar á tilveru sinni – látið okkur um heimsmálin, það er best fyrir alla. Kenningunni fylgir að til þess að fara með þetta sjálskipaða leiðtogahlutverk þurfi að efla herinn sem mest, hafa móralinn í lagi og halda sambandi við rétta liðið í öðrum heimshlutum. Frelsi og lýðræði að bandarískum hætti er það sem koma skal í heiminum á 21. öld – Hinni nýju öld Ameríku.

Síðan þessir ágætu menn lögðu upp í krossferðina fyrir heimsfrelsun að amerískum hætti hafa þeir fengið kjörinn forseta úr sínu liði og sitja nú hver um annan þveran að völdum í Washington.

Maður þarf hvorki að vera með né á móti Bandaríkjunum til að hafa efasemdir um ágæti þess fyrir heiminn að hægri sinnaðir ,,kristnir” karlmenn úr amerískum stórfyrirtækjum (ekki síst frá olíurisunum)  taki að sér að leiða heiminn – en margir af þessum mönnum eiga einmitt sameiginlegt að koma úr þeim geira.

Maður hlýtur að spyrja:

- Strákar mínir, dokiði nú aðeins við! Getur ekki verið að þið séuð full hrokafullir gagnvart afganginum af heiminum? Er ekki jafnvel hugsanlegt að allir terrorisminn beinist að ykkur einmitt vegna þess? Eruð þið til dæmis vissir um að karlmennirnir í múslimaheiminum líti lýðræðið sömu augum og þið? Er það boðleg aðferð að troða hugmyndum sínum um skipan samfélags manna upp á fólk í öðrum heimshlutum með sprengjum og blóðsúthellingum? Milljónir Evrópumanna eru á móti háttalagi ykkar um þessar mundir – hafa þeir ekkert til síns máls?

- Jú, jú, það er morgunljóst að Saddam er þrjótur, en piltar – lögregluvaldið yfir heiminum er ekki hjá ykkur! Hvert ætliði að senda strákana næst? Til Kuwait eða Saudi Arabíu til að frelsa konurnar? Til Palestínu að stilla til friðar? Til fátækra landa í Afríku – þar vantar víða bæði frelsi og lýðræði fyrir nú utan lyf til að fólk geti frelsast frá sjúkdómum og örbirgð, nóg eru verkefnin drengir? Nú – er ekkert upp úr því að hafa, það var nú verra.

Nei, íslenskir valdamenn spyrja ekki spurninga af þessu tagi en forsætisráðherrann unir glaður við að láta rífa sig upp fyrir allar aldir á hótelherbergi í New York til að heyra leiðtoga hinnar Nýju aldar Ameríku segja sér að allt sé á réttri leið:

- Nokkrir þvermóðskufullir strákar eru að vísu með múður í Írak, en við ráðum við það. Svo skaltu ekki hafa áhyggjur af herstöðinni í Keflavík, ég er jákvæður, vertu bjartsýnn. Þú ert sami staðfasti stuðningsmaðurinn – ekki satt? Jú, ég vissi það. Ég er dálítið tímabundinn, í mörg horn að líta þú skilur,  Sharon kemur í mat í hádeginu. Blessaður félagi.

hágé.