Fara í efni

Litið við á Kúbu

Ég fór til Kúbu fyrir skömmu sem ekki er í frásögur færandi.  Það hefur fjöldi íslendinga farið þangað á undanförnum árum.  Kúba hefur sérstöðu í hugum fólks, þessi eyja sem lenti í því að verða bitbein stórveldanna.  Í hugum margra er Kúpa líka einskonar forngripasafn þar sem tíminn standi í stað og margir vilja koma þangað meðan Kastró er enn á lífi því við fráfall hans muni allt breytast.

Kúba er um 111 þúsund ferkílómetrar að flatarmáli og því lítið stærri en Ísland en þar búa rúmlega ellefu milljónir manna enda er eyjan að langmestum hluta byggileg.  Og hún er falleg, öll vafin gróðri því á Kúbu grær nær allt sem gróið getur.  Landslagið er að vísu ekki mjög stórbrotið, ekki stórfljót né miklir fossar og fjöll gnæfa ekki við himin.  En landið hefur þessa hlýlegu fegurð og óneitanlega eru kalksteinsfjöllin þess virði að sjá þau.  Eyjan er löng og mjó og hlý hafgola leikur um landið svo ekki verður mollulegt þótt hitinn sé nokkuð góður.  Að vísu er loftslag þar best eftir áramót, þurrt og hæfilega hlýtt, en síðsumars er regntími og þá hitnar verulega og þá getur einn og einn fellibylur litið við þótt ekki séu þeir algengir.

Þarna hefur Kastró og hans lið ríkt síðan 1959.  En Kúba er einskonar hlið til Mið- og Suður - Ameríku og þar hafa margir gengið um garða síðan Kólumbus kom þangað fyrst 1492 og Spánverjar löngum haft þar mikil ítök.

Sjálfstæðisbarátta

Það var á nítjándu öld að hugmyndum um sjálfstæði óx fiskur um hrygg og þá voru háð nokkur sjálfstæðisstríð með miklu mannfalli.  Ein helsta frelsishetja kúbana var skáldið José Marti sem sjálfur féll í bardaga 1895. Það var svo 1898 sem veldi Spánverja féll en þá gerðu Bandaríkin kröfu til aðstöðu fyrir her sinn eftir að herskip þeirra sprakk í loft upp í Havanahöfn það ár, en aldrei upplýstist hvernig á þeirri sprengingu stóð.  Síðan var það 20. maí 1902 sem Kúba varð sjálfstætt ríki en með þeim fyrirvara að Bandaríkin gætu fylgst með þróun mála þar, og þótt þeir færu að mestu leyti með her sinn burt, hefðu þeir heimild til að setja her á land ef þeim þætti þess þurfa. Þá fengu Bandaríkjamenn leyfi til að hafa herstöð í Guantánamo sem er þar enn þann dag eins og illræmt er orðið. Á þessum árum hófst líka efnahagsleg innrás Bandaríkjanna sem þrengdi mjög að smábædnum og litlum atvinnurekstri.

Það var síðan árið 1933 sem maður að nafni Fulgencio Batista komst til valda eftir byltingu hersins. Í fyrstu þótti hann lofa góðu en fljótt breyttist það og Batista varð einn versti harðstjóri sem sögur fara af.

Kastró gerir byltingu

Á árunum eftir 1950 fór að gæta verulegrar andspyrnu gegn einræðisherranum meðal þjóðarinnar og ekki síður gegn Bandaríkjamönnum sem orðnir voru grímulaus herraþjóð þar sem þotulið þeirra tíma velti sér í munaði með algerri fyrirlitningu á innfæddum. Þar kom líka mafían við sögu með glæsihótelum og spilabúllum.  Því var jarðvegurinn orðinn góður fyrir Kastró til þess að hefja undirróður sinn, þá útlærður lögfræðingur, en hann er fæddur 1926 af nokkuð fínni fjölskyldu.  Eftir að honum var sleppt úr fangelsi 1955 fór hann til Mexíkó.  Þar hitti hann argentískan lækni, Guevara að nafni, og ásamt rúmlega áttatíu manns héldu þeir til Kúbu í árslok 1956 á bátnum Granma.  Aðeins fimmtán komust lifandi í land en tveim árum síðar þann 1. janúar 1959 var landið þeirra.

Smávegis um nöfn

Í framhjáhlaupi má geta þess að bátur þeirra félaga var keyptur af Bandaríkjamanni og hann var látinn halda nafni sínu Granma sem þýðir amma, stytting úr grandmother. Það varð síðan nafnið á aðalmálgagni byltingarmanna og er það enn.

Þess má líka geta að Guevara fékk viðurnefnið “Che”, en hann talaði sína argentísku spænsku og í því máli er smáorðið che sem þýðir heyrðu eða heyrðu mig.  Þetta sagði Guevara í tíma og ótíma og endaði með því að félagar hans fóru að kalla hann þessu nafni.

Valdataka og umbætur

Eitt helsta mafíuhótelið á Kúbu var Havana Hilton, þar var fyrsta stjórnaraðsetur byltingarmanna sem breyttu nafninu í Havana Libre og hefur það örugglega verið táknrænt að stjórna einmitt frá þeim stað.  Þetta hótel er enn í fullum gangi og þar eru margar myndir og minjar frá þessum tíma.

Kastró og félagar höfðu ekki sérstaklega á stefnuskránni að hatast við Bandaríkjamenn en þegar þeir neituðu allri samvinnu voru eigur þeirra þjóðnýttar og Kúbanir sem höfðu verið hallir undir herraþjóðina flúðu umvörpum til Flórída.  Þeir byltingarmenn voru fyrst og fremst þjóðernissinnar en þegar þeir stóðu frammi fyrir því að lokað var á sölu afurða landsins urðu þeir að leita annarra leiða og þá til Sovétríkjanna.  Það var svo ekki fyrr en 1965 sem stofnaður var kommúnistaflokkur á Kúbu sem eflaust hefur ekki verið verra fyrir samskiptin við austantjaldsmenn.  En auðvitað reyndi þetta mjög á þjóðina en samt tókst á tiltölulega skömmum tíma að útrýma ólæsi og heilbrigðiskerfið komst í gott lag.  Er það talið með bestu heilbrigðisþjónustu og ungbarnadauði sem víða er mikill í Mið- og Suður - Ameríku er á Kúbu með því minnsta í heimi.  Almenn menntun er einnig góð.  Allir íbúar fá skömmtunarseðla og öllum á að vera tryggð lágmarks framfærsla.  Hvort svo er í raun er ekki gott að segja, laun  eru mjög lág en nauðsynjavörur munu líka vera ódýrar.  Almennt er þó víst að kjör þjóðarinnar bötnuðu þótt hvergi séu nærri því sem við þekkjum í okkar heimshluta og það geta Kúbanir þakkað viðskiptabanni Bandaríkjanna.

Ferðamenn og gjaldeyrir

Auðvitað er ljóst að Kastró er einræðisherra og heldur landinu í föstum skorðum en þó má fullyrða að fólk hefur það betra en þegar bandarískir auðmenn og mafóistar gengu þar um sali.  En vandamálin urðu alvarleg þegar Sovétríkin féllu og veruleg gjaldeyrisvandamál blöstu við.  Kúba hafði aldrei verið lokað land en 1996 var farið að gera mikið í að fá ferðamenn til landsins og hefur straumur þeirra aukist jafnt og þétt síðan.  Var það ekki síst til þess að bæta úr sárri þörf fyrir fjármagn.  Þá var dollarinn gerður að gjaldmiðli ferðaþjónustunnar og er sá eini gjaldmiðill sem ferðamenn nota.  Það er augljóst að Kúbanir leggja mikið upp úr því að ferðamönnum líði sem best og séu í fullkomnu öryggi hvar sem þeir fara.  Finna menn þetta í viðmóti fólksins fyrir utan það að Kúbanir eru glaðlyndir og tónelskir.

Hættulegir menn?

Mjög víða eru á veggspjöldum myndir af fimm mönnum og texti með.  Það kom í ljós að þessir menn höfðu farið til Flórída til þess að fletta ofan af kúbönsku mafíunni sem kölluð er.  Það munu vera samtök landflótta kúbana sem starfar í tengslum við bandarísku mafíuna í þeim tilgangi að skipuleggja hryðjuverk á Kúbu.  Alríkislögreglan bandaríska handtók þessa fimm menn og voru þeir dæmdir í æfilangt fangelsi á þeim forsendum að þeir ynnu gegn hagsmunum Bandaríkjanna.  Þykja mörgum það furðuleg rök að menn sem eru að afhjúpa fyrirætlanir um hryðjuverk og að steypa landsstjórn í nágrannaríki skuli taldir glæpamenn sem ógni hagsmunum Bandaríkjanna.  Um þetta hefur lítið heyrst í heimspressunni en á Kúpu eru þessir menn þjóðhetjur og textinn á spjöldunum er: Þeir koma aftur.  Það er nánast furðulegt hversu Bandaríkjamönnum gengur vel að fá kúbana upp á móti sér.

Hver verður framtíðin?

Það er þó ekki þar með sagt að allir séu yfir sig ánægðir með stjórn Kastrós.  En kúbanir eru miklir þjóðernissinnar og það hefur sá gamli notfært sér.  Sagt er að þótt einhver úthúði Kastró og stjórn hans heima fyrir þá myndi sá hinn sami ekki standast reiðari en ef einhver útlendingur færi að fordæma hann.  Kastró er nefnilega kúbani og enginn utanaðkomandi skal dirfast að gagnrýna heimamann.

Menn spyrja sig eðlilega hvað verður þegar Kastró er allur sem gæti farið að líða að.  Mjög líklegt er að stjórnarfarið eigi eftir að breytast verulega en ekki er gott að segja í hvaða átt.  Miklar líkur eru til þess að Bandaríkjamenn freisti þess að ná þar völdum aftur og gera landið að nýlendu sinni á ný.  Það er þó víst að það gæti kostað miklar blóðsúthellingar.  Kúbönum er ekkert vel við Bandaríkjamenn og kenna þeim um stöðu sína og miðaldra fólk man hvernig ástandið var fyrr.  Eins hafa þeir í sínu landi hryllilegustu fanganýlendu í heimi sem Bandaríkjamenn reka í Guantánamo.  En eftir að hafa litið þetta fagra land og vingjarnlega fólk er aðeins hægt að vona að þeir geti skipað framtíð sinni að eigin vali.  Verið sjálfstæðir og frjálsir að selja afurðir sínar en ekki bundnir af afturgöngum kalda stríðsins.

Guðmundur R. Jóhannsson