Kristján Hreinsson, skáld skrifar um: ,,OPINBERUNARBÆKUR”
Þegar menn telja sig knúna til að fegra eigin samvisku með því
að láta rita um störf sín opinberunarbækur, þá er jafnan spurt um
heilindi téðra manna, og þeim sem spyrja verður allajafna
auðvelt að vefengja þau svör sem berast, einkum vegna þess að
opinberun sjálfánægjunnar á sér ýmis birtingarform. Stundum er það
hroki sem verður hið sýnilega, stundum er það valdníðslan sem fyrir
augu ber og stundum er það hégóminn sem mætir með alla sína ómældu
fegurð. Þetta á sérstaklega við þegar misvitrir foringjar fara í þá
helför að reisa sjálfum sér og verkum sýnum minnisvarða. Sumum
mönnum er nefnilega tamt að sveipa allt sem þeir gera einkennilegum
dýrðarljóma sem einungis fáum auðnast að greina.
Atburðarás síðustu mánaða hér á landi hefur öll verið njörfuð við
ljóma sem fáir útvaldir baða sig í. Menn þykjast vera að varpa
heimsljósinu sjálfu á magnaðan hróður sinn. En í raun og veru þarf
ekki nema litla tíru til að opinbera þann hroða erm undir
býr.
Umrædd röð atvika hófst með slíkum íburði, að engu var líkara en
hún hefði verið klippt útúr stórbrotinni skáldsögu. Fyrsta atriði
var það, að einn af okkar ástsælustu rithöfundum, fórnaði sér í það
stórvirki að rita ævisögu skálds. En til að tryggja að
umfjöllunarefnið félli nú ekki í skugga hins litríka höfundar, komu
mógúlar ríkisfjölmiðla sér saman um að leyfa þessum margslungna
listamanni að fjalla um sköpunarverk sitt í nokkrum löngum
auglýsingum, eða sjónvarpsþáttum, sem hann sauð af elju, áræðni og
sparsemi uppúr þáttum sem áður höfðu verið unnir af fórnfýsi fyrir
Sjónvarp allra landsmanna.
Fyrsta bindi meistaraverksins kom út fyrir jól og vakti
verðskuldaða athygli og slíkt umtal að jafnvel Biblían féll í
skuggann á sjálfri uppskeruhátíð kristinna manna. Og eftir að búið
var að kaupa meistaraverkinu jákvæða gagnrýni þurftu óvandaðir
einstaklingar að fara að fjasa útaf fáeinum gæsalöppum sem höfundur
hafði ekki kært sig um að setja á síður meistaraverksins. Enda
hefðu þær eingöngu orðið óprýði og til baga fyrir stórvirkið.
Það næsta sem gerðist í umræddri rás atburaða, var að einlægir
aðdáendur íslenskrar kvikmyndagerðar reyna að fá afturhaldssamar
hræætur kerfisins til að skilja tilgang listarinnar og veita einum
mesta snillingi íslenskrar sögu, styrk til sköpunar óðauðlegrar
kvikmyndar. En þegar ekki tókst að knésetja óróaseggi með góðu,
voru kölluð til hörkutól hins upphafna yfirvalds, og forstöðumenn
ríkisstofnanna lögðust á eitt, svo finna mætti ódauðleikanum
tryggan farveg.
Skömmu eftir að mönnum tókst að bjarga þeim menningarverðmætum sem
annars hefðu forgörðum farið, var þessi ógleymanlega mynd eftir
okkar ástsælan kvikmyndagerðarmann sýnd í Ríkissjónvarpinu.
Þess ber kannski að geta, hér í framhjáhlaupi, að stórvirkið var
byggt á skáldeverki eins af okkar fremstu ritsnillingum, sögu manns
sem ekki þarf að kaupa sér hliðholla gagnrýni.
Eitthvað klikkuðu landsmenn á fagnaðarlátunum. Enda var þeim fæstum
ljóst hverjar raunir höfundurinn hafði mátt þola, þegar honum tókst
einhvernveginn í ósköpunum að öngla saman klinki svo koma mætti
þessu stórviki fyrir augu landsmanna.
Og ef aðstoðar Sjónvarps allra landsmenna hefði ekki notið við,
hefðu herlegheitin líklega farið framhjá þjóðinni, því verkið var
of stórkostlegt til að hægt væri að fara með það í
kvikmyndahús.
Með göfugmannlegri ráðstöfun, má segja að útvarpsstjóri og hans
frábæru þjónar hafi sýnt og sannað að þeir eru haukar í horni þegar
vinir þarfnast aðstoðar. Og enn og aftur sannast að þar á bæ er nú
aldeilis ekki verið að hampa hinni illræmdu vinstrimennsku.
Þegar nýtt ár var rétt að komast á lappir og hverju mannsbarni átti
að vera ljóst, að íslansk þjóð hafði eignast kvikmynd sem af öðrum
ber og ritverk sem enginn getur ósnortinn augum litið, þá fórnaði
sauðsvartur múgurinn höndum og ætlaði ekki að sætta sig við hina
fögru dýrð.
Í stað þess að fagna og krjúpa í einlægri lotningu, reyndu menn
bókstaflega allt til að finna höggstað á hinum stórbrotnu verkunum
og höfundum þeirra. Allt var reynt. Og þegar ekki var hægt að finna
neitt að litarhætti, kynhneigð, stjórnmálaskoðunum, trúhneigð,
ætterni eða öðrum í fari listamannanna, gripu óprúttnir menn til
þeirra örþrifaráða að hæðast að verkunum sjálfum.
Hér hefðu aumar sálir samfélagsins betur gert sér grein fyrir því
að ekkert fær haggað þeirri staðreynd, að þau stórvirki sem hér um
ræðir eiga eftir að lifa að eilífu, ekkert fær þeim grandað -
hvorki ryð né mölur. Enda er ekki vitað til þess að lúsug aðþýðan
hafi gripið annan eins feng í iðukasti andlegra efna.
Þessi stórmenni hafa reist sér minnisvarða sem vara munu að eilífu,
og upp frá þessum verkum hefur nú þegar sprottið svo margslungin
umræða, að jafnvel þótt höfundarnir verði báðir dæmdir í Hæstarétti
fyrir ritstuld, fjárdrátt eða þaðanaf verri sakir, þá mun lýðurinn
verða að virða þau stórmenni sem með fátæklega hugsun eina að
vopni, brutust fram um grund til fundar við sauðþráa þjóð.
Þegar heimska virðist ætla að bera menn ofurliði er gott að hafa
vinaröxl að styðjast við. Þetta vita þeir misskildu listamenn sem
búa við höfnun fjöldans, og þurfa að reiða sig á stjörnum prýdda
gagnrýni traustra vina. Þeir vita sem er, að ef fyrirmælin koma úr
efstu hæðum þá hljóta smáborgareleg gildi að víkja fyrir æðri
hugsun; þótt flokkshollusta fái menn til að snúast um skæði
yfirvalds einsog hlýðnar rottur, þá má nú segja að það sé sjálfsögð
kurteisi að ráðast ekki á vini sína í fjölmiðlum, þegar þeir hafa
nýlokið við að skjóta undan sér lappirnar.
Þetta vita allir þeir menn sem eitthvað hugsa.
Ekki er enn séð fyrir enda atburðarásar minnisvarðanna, því nú
hefur því verið fleygt til lýðsins, að menn vinni hörðum höndum við
að rita sögu forsætisráðherra Íslands, frá upphafi vega og til
dagsins í dag. En fróðir menn halda því fram að engar lýsingar á
mannviti, stjórnkænsku og göfuglyndi taki fram þeim lýsingum sem
koma fram í köflunum um þann forsætisráðherra sem nú situr við
völd. Núna verður opinberunarbók forsætisráðherra rituð í eitt
skipti fyrir öll. Bókin sem allir hafa beðið eftir. Lofgjörðin
mesta, hinn upphafni boðskapur eilífðarinnar, í allri sinni
dýrð.
Já góðir Íslendingar, við eigum vin sem ávallt ber hag okkar fyrir
brjósti, hann berst fyrir okkur með hendurnar bláar af kulda, hann
býður andstæðingum birginn og bregður fæti fyrir þá sem eitthvað
gera á hans hlut. En hann er sannur vinur vina sinna og tryggir
þeim upphefð og minnisvarða.
Og hver skyldi hann nú vera vinurinn sem verndar, veitir og
styrkir? Hver ætli leiki nú aðalhlutverkið í skrautsýningunni
allri, án þess að stíga af stalli sínum, jafnvel án þess að stíga
útúr skápnum? Jú, það er enginn annar en ástsæll, dýrkaður og
lofaður forsætisráðherra vor frómur. Hann heldur himinblárri
verndarhendi yfir vinum sínum, togar í spotta og talar til manna ef
aðstoðar er þörf. Hann getur opnað mönnum aðgang að sendibréfum,
opnað fjárhirslur, látið frjálshyggjugúrú fá ríkisábyrgð á
greiðslukort, fengið menn til að kaupa bílfarma bóka og sagt mönnum
að sýna í sjónvarpi það sem hann sjálfan langar að horfa á. Hann
getur meira að segja fengið ríkisvald frjálshyggjunnar til að gefa
út bók sem enginn nennir að lesa.
Drottinn blessi þessa breisku og bókelsku þjóð - hún þarf á því að
halda!
Kristján Hreinsson, skáld