Ingólfur Ásgeir Jóhannesson skrifar: Grunnskólabyrjun tvisvar á ári

Á hverju hausti byrja á fimmta þúsund sex ára börn í grunnskóla. Þau eru yfirleitt strax sett í mismunandi stóra hópa, sem oftast eru kallaðir bekkir, og eru síðan hluti af slíkum hóp mestalla sína grunnskólatíð. Þannig hefur skólastarf verið í eina til tvær aldir, þ.e. síðan skólum með nútímasniði var komið á fót í iðnbyltingunni.

Gleymum ekki leikskólanum

En eru börn sem hefja grunnskólanám að hausti að byrja skólanám sitt? Er fyrsti grunnskóladagurinn mikilvægari en aðrir skóladagar?
Afar fá þessara barna byrja skólagöngu sína að hausti árið sem þau verða sex ára. Langflest hafa börnin stundað leikskólanám, eða um níu af hverjum tíu, örlítið fleiri í þéttbýli en í dreifbýli þar sem leikskólagangan er líkast til einnig miklu færri dagar en í þéttbýlinu. Margir gleyma þessu og telja að fyrsti grunnskóladagurinn sé fyrsti skóladagur flestra barna.
Af hverju gleyma margir fyrsta skólastiginu? Er það kannski vegna þess að það er ekki langt síðan leikskólar urðu formlega fyrsta skólastigið í landinu? Kannski vegna þess hversu stutt er síðan talað var um dagheimili og barnaheimili? Kannski vegna þess að ekki er skólaskylda í leikskóla? Kannski vegna þess að það eru skólagjöld í leikskóla?

Er bekkjafyrirkomulag í grunnskóla úrelt?

Það hefur gerbreytt forsendum grunnskólastarfs hversu mörg börn fara í leikskóla. Gera verður ráð fyrir því við skipulag kennslu og náms að flest börn hafi stundað leikskólanám áður en þau hefja grunnskólanám - og það er auðvitað víðast gert. Hins vegar er bekkjaskipulagið ekki sérlega heppilegt fyrirkomulag, allra síst fyrir 1. námsár grunnskóla. Þangað koma börn með ólíkan undirbúning, langflest mjög skólavön, en gjarna úr ólíkum leikskólum þar sem flest eru vön einstaklingsbundnari kennslu en tíðkast í grunnskólum.
Ég legg til að upphaf grunnskóla verði í framtíðinni ekki miðað við haustið á árinu sem barn verður sex ára, heldur sem næst sex ára afmælisdegi þess. Fyrir þessu eru margvísleg rök og eru þessi helst:

- Þroskamunur er mikill á börnum þótt þau séu fædd á sama almanaksári.

- Eðlilegt er að skipuleggja nám út frá einstaklingi en ekki hópi. Lög og námskrá kveða enda á um slík viðmið. Gera þarf einstaklingsnámskrár fyrir nemendur. Kannski verða margar þeirra áþekkar hver annarri, enda er ekki markmið í sjálfu sér að þær séu ólíkar, heldur miðaðar við einstakling. Hópvinna væri þá notuð sem kennslutæki ef markmiðið er annaðhvort að læra að vinna saman að tilteknu viðfangsefni eða ef talið er að samvinna stuðli að betra námi. Samvinna er sérlega mikilvægur hluti af námi einstaklinga sem þurfa að vinna saman bæði á heimilum, atvinnulífi og frístundum allt sitt líf.

- Meiri sveigjanleiki fyrir foreldra. E.t.v. myndu þó margir kjósa, t.d. af venju, að barn skipti um skólastig að hausti og það er nánast sjálfgert með þau börn sem eru fædd um hásumarið, enda verður sumarfrí grunnskóla sennilega aldrei aflagt þótt skólatími kunni að verða lengdur ennþá meira en orðið er.

- Möguleikar aukast á samstarfi leik- og grunnskóla. Samfella í námi einstaklinga eykst við að þeir fari á eigin tíma, á eigin forsendum í grunnskóla en ekki út frá tilbúinni tímasetningu.

- Jafnara streymi nemenda verður inn og út úr leikskólum. Þetta mun mikilvægt þannig að börn geti komist í leikskóla á þeim tíma sem þeim hentar best en verði ekki að bíða ágústmánaðar. Þetta verður líklega ennþá mikilvægara þegar fæðingarorlof lengist og bilið milli þess og leikskóla verður stytt.

Eru ókostir? Aðallega þeir að í fyrstu er líklegt að þetta verði fyrirhafnarsamara fyrir þá grunnskóla sem enn halda fast í hefðbundið bekkjafyrirkomulag - og þeir eru býsna margir. En til lengri tíma litið verður grunnskólinn skemmtilegri og eðlilegri þar sem tilfærslan milli skólastiga ætti að verða barninu auðveldari en hún stundum reynist núna.

Hvernig skal byrja?

Í skólaumbótafræðum er það gömul saga og ný að breytingum er erfitt að koma á. Sjálfsagðar og mikilvægar breytingar skila e.t.v. ekki árangri fyrr en seint og um síðir. Til þessa verður að taka tillit enda er hér ekki lögð til breyting bara til að breyta.
Ég legg því til að ekki verðist ráðist í breytingu sem þessa í einu lagi alls staðar á landinu. Ég veit reyndar dæmi þess úr fámennum sveitaskólum að mörk leik- og grunnskóla eru ekki jafnskörp og annars staðar. Dæmi um það er grunnskóli sem ég heimsótti fyrir nokkrum árum; sá skóli tók á móti fimm ára börnum einu sinni í viku, og þótti gefast afar vel.
Ég legg því til að svo fljótt sem mögulegt er verði gerðar markvissar tilraunir með að taka inn í grunnskóla nýja námshópa (bekki ef menn vilja nefna þá því nafni) í febrúar eða mars, og fái þá þau börn sem eru fædd á fyrri hluta ársins kost á því að hætta í leikskóla og hefja grunnskólanám sitt. Slík tilraun yrði metin á þremur árum eða svo, áður en farið yrði svo mikið sem huga að lagabreytingu í þessa átt. Síðar mætti þá færa börn milli skólastiga á afmælisdegi, eða sem næst honum, t.d. einu sinni í mánuði, eða fjórum sinnum á ári.

Samræmd stefnumótun í leik- og grunnskólum

Samræmd stefnumótun er mikilvæg barnanna vegna. Að henni má stuðla með tvennu:

- Aukinni fagáherslu í leikskóla, t.d. á umhverfisfræði, lestur og ritun, stærðfræðilega hugsun o.s.frv. Ný aðalnámskrá leikskóla, gefin út vorið 1999, er gott spor í þessa átt en samræma þarf betur mótun markmiða fyrir námsvið leikskóla og námsgreinargrunnskóla en nú var gert.

- Einstaklingsnámskrá sem fylgi sérhverjum nemanda, a.m.k. síðari hluta leikskólanáms og tvö fyrstu námsár grunnskólans.

Fyrrnefnda atriðið ætti að vera tiltölulega auðvelt viðureignar með náinni samvinnu höfunda aðalnámskráa leik- og grunnskóla. Síðarnefnda atriðið er mjög í anda allra grunnskólalaga og námskráa frá 1974, líka anda núgildandi grunnskólalaga, hvað varðar áherslu á frumkvæði og sköpunarmátt einstaklinga, en gengur nokkuð á svig við þá stefnu að skilgreina tiltekin markmið fyrir tiltekna bekki eins og er í núgildandi aðalnámskrá grunnskóla frá 1999. Í henni er þó ákvæði um að leyfilegt sé að víkja frá röð markmiða í 1.­-4. bekk ef fyrir því liggi góð rök - og þau rök sem ég hef tilgreint fyrir einstaklingsnámskrám tel ég gild.
Niðurstaða mín er sú að gera beri tilraun með að hópar nemenda fæddir á fyrri hluta næsta árs geti farið í grunnskóla. Tilraunin myndi líklega heppnast best í meðalstóru bæjarfélagi þar sem eru einn eða tveir grunnskólar, annaðhvort utan eða sunnar Glerár á Akureyri eða í álíka stóru hverfi á höfuðborgarsvæðinu. Ég er sannfærður um að foreldrar og kennarar í leik- og grunnskólum myndu telja þetta ákjósanlegra fyrirkomulag en ganga í það með látum að flytja til mörk skólastiga fyrir alla nemendur.

(Að stofni til birtist þessi grein í Morgunblaðinu 18. ágúst 1999 en var umorðuð í mars 2004 með hliðsjón af öðrum árstíma o.fl.)

Fréttabréf