Jón Torfason og Sigríður Kristinsdóttir skrifa: Almannafé

 Skömmu fyrir jólin kom út bók um rithöfundinn Halldór Laxness. Á það hefur verið bent að vinnubrögðum höfundarins sé að mörgu leyti áfátt, hann endursegi langa kafla úr bókum skáldsins, hann notfæri sér verk og rannsóknir annarra manna í heimildarleysi og/eða án þess að gera fullnægjandi grein fyrir því og að í bókinni sé margs konar ónákvæmni um staðhætti, fólk og atburði. Bókin sé því gölluð. 

Höfundurinn hefur sagt að á næstu árum hyggist hann rita tvær bækur í viðbót um Halldór Laxnes. Út af fyrir sig er ekkert við því að segja þótt óhlutvandir menn rubbi upp bókum um andans menn lífs eða liðna og ekki ámælisvert þó menn fitli við að endursegja annarra manna verk. Hins vegar hljóta skattgreiðendur að spyrja hvernig opinberir starfsmenn, sem taka dágóð laun af almannafé fyrir kennslu við háskólann, hafi tíma til að skrifa fimm til sexhundruð blaðsíðna bækur á einu og hálfu ári. Er maðurinn að gera þetta í vinnutímanum á sama tíma og t.d. er verið að skerða þjónustu við sjúklinga?

Höfundurinn hefur sagt frá því að hann hafi dvalið í Jónshúsi í Kaupmannhöfn á kostnað íslenskra skattgreiðenda um þriggja mánaða skeið í fyrra. Hann mun líka hafa farið til vesturstrandar Bandaríkjanna, Þýskalands og Ítalíu með myndavél í farteskinu og var afraksturinn af þeirri ferð sýndur í sjónvarpinu rétt fyrir jólin, varla ókeypis. Það væri fróðlegt að vita hvernig þessar ferðir voru fjármagnaðar. Af höfundarins aflafé eða með peningum íslenskra skattborgara í formi launa eða styrkja frá hinu opinbera? 

Umræddur höfundur hefur boðað að hann hyggist skrifa tvær bækur í viðbót um Nóbelsskáldið. Trúlegt er að þær komi út á næstu árum, kannski ein í haust og önnur næsta haust, eða á lengra méli. Spurning er hvernig maður, sem er í fullu starfi hjá ríkinu við kennslu í háskólanum, hyggst vinna þetta verk. Mun hann vinna þetta í starfsleyfi frá vinnustað sínum, mun hann fá einhverja styrki eða fjárframlög af almannafé? Allir vita að undirbúningsvinna að stórum ritverkum tekur langan tíma, yfirlegur á bóka- og skjalasöfnum, viðtöl við fólk, margs konar rannsóknir og athuganir á að rétt sé með farið hverju sinni. Þegar um jafn umdeildan mann og Halldór Laxnes er að ræða þarf sérstaklega að vanda til verka og allir hlutir að vera pottþéttir.

Það koma út margar bækur ár hvert, góðu heilli. Sumar eru læsilegar, aðrar miður eins og gengur. Margir nota frístundirnar til samningar slíkra verka, aðrir gera það í vinnutímanum á kostnað almennings. Höfundur umræddrar bókar um Halldór Laxnes hefur sagt að hann hafi ritað bókina á einu og hálfu ári, vonandi í starfsleyfi. Miðað við þessi afköst mun hann líklega rita fyrirhuguð tvö bindi á næstu tveimur eða þremur árum, líklegt að þetta verði gert á árunum  2004-2006. Mun höfundurinn á þessu árabili sinna kennslu í háskólanum, leiðrétta ritgerðir nemenda, benda þeim á hvar eigi að vera tilvísanir og gæsalappir í æfingaritgerðum þeirra, eða mun hann fá leyfi á kostnað almennings til að einhenda sér í skrifin um Nóbelsskáldið?

Þessar spurningar eru ekki út í loftið. Ríkisvaldið og opinberir aðilar veita talsverðu fjármagni til rithöfunda og bókmenntamanna enda sjálfsagt mál, og hefur slíkt oft borið góðan ávöxt. Það, að Hannes Hólmsteinn Gissurarson leggist yfir ævi Halldórs Laxness og tíni saman einhver slitrur úr lífi skáldsins, getur hugsanlaga komið einhverjum að gagni. Spurningin er hins vegar hvort á að kosta slíka iðju af almannafé.
Jón Torfason og Sigríður Kristinsdóttir (Höfundar eru íslenskufræðingur og sjúkraliði)

Fréttabréf