Fara í efni

Sigurvegarar í Kankún?

Hvernig á að túlka niðurstöður ráðherrafundar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Kankún í Mexikó? Töpuðu allir eða eru einhverjir sigurvegarar? Samningaviðræðurnar sigldu í strand af því að Bandaríkin og Evrópusambandið voru ekki tilbúin að koma á móts við hin fátæku landbúnaðarríki heimsins með að fella niður eða draga úr niðurgreiðslum til landbúnaðar í eigin löndum og af því Evrópusambandið sérstaklega vildi halda til streitu svokölluðum Singapore-málum.
Það er ljóst að þau skref sem Evrópusambandið vildi taka í sambandi við niðurgreiðslur voru ekki nægilega stór og voru að auki þannig fram sett að fulltrúar þróunarríkjanna töldu að tillögur ES myndu splundra allri samstöðu þriðja heimsins. Evrópusambandið vildi láta útbúa lista með ákveðnum vörutegundum og átti að draga úr niðurgreiðslum á þeim. Þetta hefði leitt til þess að sum þróunarríki hefðu hugsanlega fengið ávinning en önnur ekki og þar með var boðið upp á að þróunarríkin færu í hár saman. Auk þess vildi Evrópusambandið ekki setja neinar tímasetningar á hugsanlegan samdrátt í niðurgreiðslum. Þróunarríkin náðu að mynda blokk gegn þessum “tilboðum”, svokallaðan G21 hóp og voru þar m.a. innanborðs Indland, Kína og Brasilía.
Þá einsetti Evrópusambandið sér að koma Singapore-málunum fjórum á dagskrá WTO, en þar er um að ræða samninga um fjárfestingar, opinber innkaup, viðskiptaliðkun og samkeppni. Hefur Evrópusambandið í samvinnu við Bandaríkin unnið að framgangi þessara mála. Afstaða þróunarlandanna var hins vegar sú að í Kankún væri hvorki staður né stund til að taka ákvarðanir um þessi mál. Afstaða þeirra flestra var einnig andsnúin væntanlegum niðurstöðum af slíkum samningum sem þau sjá fyrst og fremst framsetta til að auka réttindi fjölþjóðafyrirtækja á kostnað ríkisstjórna og almennings í þeim löndum sem slík fyrirtæki vilja slá sér niður í. Náðu þróunarríkin að fylkja sér saman í þessu máli í hóp sem kallaður var G-16.
Samstaða þróunarríkjanna hélt þrátt fyrir tilraunir Bandaríkjanna og ES að kljúfa þá samstöðu með skilyrtum gylliboðum um tvíhliða samninga og annað í þeim dúr.  
“Engir samningar eru betri en slæmir samningar” varð að móttói þróunarlandanna og má segja að sú samstaða sem þau náðu með því að neita að semja upp á slæm skipti hafi kannski orðið stærsti jákvæði atburðurinn á fundinum í Kankún. Hugsanlegt er að ríku þjóðirnar, sem telja aðeins um 20% meðlima í Alþjóðaviðskiptastofnuninni en hafa hingað til haft óskoraða forystu í samtökunum, neyðist til að nálgast hin 80% með öðrum hætti en hingað til.
Spurningin er hvort ríku ríkin muni leggja enn frekari áherslu á að “deila og drottna” til að ná sínu fram, eða hvort samstaða þróunarríkjanna haldi og að verkalýðshreyfingu, félagasamtökum og hópum um allan heim takist að vekja athygli á þeim hættum sem fylgja áherslum neo-liberalistanna sem nú eru allsráðandi innan Alþjóðaviðskiptastofnunannar. Þau átök snerta ekki aðeins fátæklinga í fjarlægum heimshornum, hvort milljónir fái að lifa eða deyja í þriðja heiminum, hvort smábændur eru hraktir af jörðum sínum eða hvort þeir neyðist að kaupa fræ til sáningar af alþjóðlegum stórfyrirtækjum. Þau snerta okkur ekki síður þó með öðrum hætti sé. Hérna heima snerta þau t.d. hvers konar þjóðfélag við fáum að búa við í næstu framtíð, hver réttindi verkafólks verða og hvort velferðarkerfið haldi velli. Hvort sjúkrahús verði fyrir hina sjúku eða hina sem geta borgað. Þetta eru nokkur dæmi um þau viðfangsefni sem tekist verður á um.