Fara í efni

Steinar í götu sjúkra

Kæru vinir.

Skrifa nokkrar línur frá Ramallah á síðasta degi þessarar ferðar. Aðstæður eru mjög erfiðar og ómögulegt að komast á alla þá staði sem maður ætlar sér vegna ótrúlegrar uppfinningasemi hernámsliðsins  í að hindra fólk í að komast leiðar sinnar. Við fórum til dæmis til Betlehem á miðvikudagsmorgun og þá á ekki að taka langan tíma að skjótast til Hebron, svona 20 mínútur. Það tók hins vegar tvo og hálfan tíma. Aftur og aftur komust bílarnir ekki lengra, fólk varð að fara úr og ganga yfir moldar- og grjóthrúgur sem herinn mokar upp með jarðýtum og vélskóflum. Á flestum stöðum er herinn ekki á staðnum heldur í svolítilli fjarlægð. Ef Palestínumenn láta sér detta í hug að opna veginn með því að fjarlæga hindranirnar þá er þeim refsað harðlega með því að vegurinn er alveg eyðilagður með stórum holum og einnig eru vinnuvélar þeirra sem reyna slíkt eyðilagðar og menn handteknir.

Það ætti ekki að vera erfitt að ímynda sér hvaða erfiðleika þetta skapar og kostnað. Hvað þá fyrir fatlaða og veika. Jafnvel traktor kemst ekki yfir þessar hrúgur hjálparlaust. Sjúkrabílar komast alls ekki. Fólk í hjólastól þarf að bera. Ég sá mann sem misst hafi annan fótlegginn og var með tvær hækjur að freista þess að komast leiðar sinnar. Það var ekki auðvelt. Svona er þetta um allt. Fyrr í vikunni gistum við sjálfboðaliðarnir  í Jalazone flóttamannabúðunum fyrir utan Bir Zeit. Það hafði rignt. Við þurftum að fara á fætur kl. 6:30 til að ná fyrir kl. 8 til Ramallah, leið sem ætti ekki að taka nema 20 mínútur. Þann dag fórum við í sitt hvora færanlega heilsugæslustöðina (Mobile Clinic), Inga og Guðfinnur í almenna heilsugæslu en ég með öðrum sjúkrabíl í þorpið Kober þar sem fram fór forvarnarstarf  í að greina snemma háan blóðsykur, blóðþrýsting, blóðfitu (sem voru mældar á staðnum með litlu færanlegu tæki) og aðra áhættuþætti fyrir hjarta- og æðasjúkdóma, sem eru helsta dánarorsök hér um slóðir.

Verð að stytta þetta. Dr. Mustafa Barghouthi var að koma hingað á skrifstofu sína sem er hjá HDIP, Pal Monitor o.fl. Við áttum stefnumót klukkan 14 í dag föstudag, 25. apríl. Heilbrigðisráðherrann Jón Kristjánsson hringdi fyrir stundu í mig til að greina frá því að hann hefði gengið fra 500.000 kr. framlagi til UPMRC vegna rekstrar Mobile Clinic-einingar, en þær munu nú orðnar 16 talsins og þjóna 400 stöðum.

Við komum heim á sunnudag. 
Bestu kveðjur
Sveinn Rúnar