Fara í efni

Menningarverðmæti þurrkuð út

Er kominn tími til að breyta um heiti á þessum pistlum? Munið þið fá Sýrlandspistla í nánustu framtíð? Eins og þið hafið væntanlega tekið eftir hafa bæði Rumsfeld og Bush beint athyglinni að Sýrlandi. Nú eru skyndilega komnar fram ásakanir að Sýrlendingar eigi gjöreyðingarvopn og að hryðjuverkamenn séu hýstir innan landamæra þess. Á nú að beina spjótum Bandaríkjahers þangað?

Velflestir þeir aðilar sem ég hef rætt við, bæði fræðimenn og aðilar innan bandarísku stjórnsýslunar (á ýmsum sviðum hennar) eru á því að ekki eigi taka þessum hótunum það alvarlega, enn sem komið er allavega. Það virðist ekki vera nægjanlegur pólitískur vilji innan stjórnkerfisins almennt til að réttlæta slíka árás. Sérstaklega er það fólk innan öryggismálanefndar ríkistjórnarinnar (sem Condaleeza Rice stjórnar) sem er þar tregt í taumi. Varnarmálaráðuneytið sýnir þó orrustuhug. Líkurnar, að mati flestra, eru þó alls ekki miklar. Ólíkt því sem var með ákvörðunina um að ráðast inn í Írak sem var borðliggjandi mörgum mánuðum áður en almenn umræða hófst um það mál, eru hjólin ekki farin að snúast með svipuðum hætti varðandi Sýrland. En vitaskuld getur allt breyst í þessum efnum. Fólk taldi að Íran eða Sádi-Arabía yrði næst og því kom þessi umræða um Sýrland nokkuð á óvart.

Sýrlendingar eru þó í töluverðum vanda vegna þess að þeir hafa átt í erjum við Ísrael og Tyrki (vegna iskandariyya/alexandretta svæðisins og líka vegna vatnsflæðisins úr Efrat ánni). Nú er háttsett sendisveit frá Ísrael að hitta ráðamenn í Washington og þessi sama sendisveit átti einnig fundi með forystumönnum Tyrklands. Og hvað eiga Tyrkir og Ísraelar sameiginlegt? Jú, báðar þjóðirnar eru nánir vinir Bandaríkjastjórnar (þó að samband Bandaríkjanna og Tyrklands hafi kólnað að undanförnu) og það yrði þeim báðum í hag að sjá nýja stjórn í Damaskus. Ég efast um að þessi lönd myndu “leysa” Sýrlands “vandamálið” á eigin spýtur þó að þau gætu vafalaust réttlæt fyrirbyggjandi (pre-emptive) árás á Sýrland hjá viðeigandi aðilum í Washington. En staðan er svo tvísýn að það ber að fylgjast vel með skilaboðunum frá Tel Aviv, Ankara og Washington.

Enn fréttist ekkert af Saddam Hussein og því eru samsæriskenningarnar á fullu. Blöðin í Mið-Austurlöndum eru með alls kyns vangaveltur um þetta efni og sumt hljómar eins og úr sögum Tolkien. Algengasta kenningin er sú að hann hafi flúið til Rússlands. Aðrir segja að hann sé að spóka sig í Karabíahafi og hafi farið í allsherjar lýtaaðgerð (kannski er það andi James Bond sem svífur þarna yfir vötnum). Ólíkt vangaveltum í Washington hefur ekki verið mikið fjallað um það hvort að hann sé í Damaskus þó að einhvers staðar hafi ég séð frétt að eiginkona hans hafi flúið þangað áður en stríðið hófst. Það er vissulega gleðilegt að Hussein er ekki lengur við völd og ég vona að þessi pólitíska, félagslega, og efnhagslega uppbygging reynist farsæl og friðsæl, þó ég sé ekki sérstaklega bjartsýnn að sú verði raunin.

Ég ætla ekki hafa þennan pistil mjög langan að þessi sinni aðallega vegna þess að ég er orðlaus og agndofa. Í dag birtist “op-ed” grein eftir mig í einu stærstu dagblaði hér í Bandaríkjunum sem heitir Newsday. 

http://www.newsday.com/news/opinion/ny-vpber153221138apr15,0,2359208.story?coll=ny%2Dviewpoints%2Dheadlines

Tilefni greinarinnar voru fréttirnar af þjóðskjalasafni og þjóðminjasafni Íraka en eins og þið hafið væntanlega frétt voru þessar byggingar gjörsamlega rústaðar og öllu lauslegu stolið eða kastað á eld. Merkilegustu skjöl og fornmunir mannkynssögunar tilheyra nú sögunni til í orðsins fyllstu merkingu. Þjóðminjasafn Íraka innihélt mikið af elstu fornminjum sem við höfum fundið og varðveitt, til dæmis,  elstu tilraunir mannkynsins til að skrifa og til að tjá sig á skynsamlegan hátt. Það er ekki tilviljun að Íraksvæðið er  jafnan kallað “vagga siðmenningar”. Þetta er stórkostlegur glæpur og eins og ég bendi á í greininni hefði verið hægt að fyrirbyggja þetta ógnarverk. Það kom mér reyndar á óvart að Newsday tók svo vel í að birta greinina en blaðið er frekar íhaldssamt og þeir breyttu meira að segja engu. Vegna þess að ég leyfi mér að gagnrýna herinn, má gera ráð fyrir því að ég fái mikið af “hate-mail” á næstu dögum og verð væntanlega sakaður um það versta. Þó er ég ekki að segja neitt frumlegt og tel að gagnrýnin sé skynsöm. Mikilvægast þó fannst mér að þetta yrði rætt á opinberum vettvangi.

Fyrir okkur fræðimenn er þessi eyðilegging sérstaklega erfið. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þessi missir er ekki sambærilegur fyrir þá sem hafa misst ástvini sína. En ef það var einhver glæta fyrir okkur í þessu stríði var það sú von að kannski að eftir nokkur ár færu nýir vindar að blása um Baghdad og þá gætum við jafnvel fengið aðgang að þjóðskjalasafninu. Einn kollegi minn neitaði að taka afstöðu til stríðsins eða vera krítísk á hið pólitíska starf írösku útlaganna,  til að mynda vafstur Ahmad Chalabi, vegna þess að hún vildi ekki spilla fyrir því að hún fengi aðgang að þjóðskjalasafninu hjá framtíðarleiðtögum Írak.

Það er almennt séð mjög erfitt að fá aðgang að frumheimildum í Mið-Austurlöndum, næstum ómögulegt, sérstaklega ef um að ræða skjöl sem varða tuttugustu öldina. Allar þær írösku heimildir sem ég nota í væntanlegri bók minni voru prentaðar heimildir (dagblöð,tímarit,skólabækur ogsfrv). Enginn fræðimaður, nema starfsmenn Baath flokksins, hafa getað stundað skjalarannsóknir í Írak síðustu 30 árin. Og hvað eigum við að gera nú? Það verður ákaflega erfitt að skrifa sögu Íraks í framtíðinni. Það er búið að þurrka út helstu heimildir sögunnar í Írak. Og þar sem væntanleg bók mín fjallar einmitt um pólítísku notkun á fornleifum Íraks og hvernig fornsaga Íraka mótaði þjóðernisvitund þeirra var ég einmitt að ræða við útgefandann minn hvort ég ætti ekki að breyta innganginum og niðurstöðunni í ljósi atburða síðustu helgi. Ja, hvaða áhrif hefði það á þjóðernisvitund íslendinga ef allar okkar helstu menningarverðmæti eyðilögðust á tveimur sólarhringum?

Þið fyrirgefið mér að þetta bréf snýst fyrst og fremst um mig. En þessir atburðir stóðu mér mjög nærri, eins og reyndar allt þetta stríð, því þessi eyðilegging var ekki bara einhver frétt heldur hluti af ævistarfinu mínu, ef svo mætti að orði komast. Það er mjög einkennilegt fyrir mig að sjá sögulegar minjar Íraka þurrkast svona út. Á sama tíma og fréttirnar um þessa eyðileggingu birtust barst einnig frétt frá Pentagon, hrósi sigrandi að þeir væru búnir að ná valdi á öllum olíulindum landsins. http://story.news.yahoo.com/news?tmpl=story&u=/ap/20030414/ap_on_re_mi_ea/war_oil_wells_5 

Það er greinilegt að hvaða forgangsröð er í hávegum höfð.  Ég óska ykkur öllum gleðilegrar páskahátiðar. Með kærri kveðju, Magnús Þorkell 

p.s. gomul grein sem birtist í blaðinu Sacramento Bee um trúarbrögð í Írak 

http://www.sacbee.com/content/news/religion/story/6401468p-7353895c.html