Fara í efni

Mordechai Vanunu

Sá dagur verður að koma að vopnaeign Ísraela og sú ógn sem af Ísraelsríki stafar komist í umræðuna.  Þeir sem fylgja blint stefnu núverandi valdhafa heimsins verða líka að svara fyrir tvískinnungshátt herra sinna.

Árið 1994 staðfesti Jane's Intelligence Review (http://jir.janes.com/) að Ísrael ætti 200 kjarnaodda sem þýðir að Ísrael er sjötta mesta kjarnorkuveldi heims.  Samband bandarískra vísindamanna, FAS (Federation of American Scientists) birti árið 2000 myndir af hinni leynilegu kjarnorkuverksmiðju Ísraela við Dimona í Negev eyðimörkinni og bar þær saman við myndir sem teknar vour af sömu verksmiðju úr gerfihnetti árið 1971.  Samanburðurinn leiddi í  ljós að stærð verksmiðjunnar er óbreytt sem að þeirra mati merkir að árlega hafi verksmiðjan framleitt um 20 kg af plútóníum.  FAS áætlaði að miðað við efri og neðri mörk framleiðslugetu verksmiðjunnar gæti Ísrael hafa framleitt nóg plútóníum fyrir a.m.k. 100 kjarnorkuvopn, en líklega nær 200. 

            Verksmiðja þessi var orðin starfhæf árið 1964 og er miðað við það ártal sem upphaf kjarnorkuvopnaframleiðslu Ísraela.  Ísrael er nú eina ríkið sem á kjarnavopn sem viðurkennir ekki að eiga þau og hefur ávallt neitað að hleypa alþjóðavopnaeftirlitsmönnum að verksmiðjunni.  Annað ríki sem þetta átti við er Suður-Afríka en ákveðin þróun þar varð til þess að þeir hafa nú eytt sínum kjarnavopnum.  Ísraelar hafa ávallt neitað að skrifa undir bann við fjölgun kjarnavopna (non-prolieration treaty) og bann við tilraunaskotum og fleiri.  Ísraelskir ráðamenn virðast líta svo á að kjarnorkuvopnaeign sé nauðsynlegur þáttur í vörnum landsins en ástæðan fyrir því að þeir opinbera ekki kjarnokugetu sína er það sem kallað er "nuclear ambiguity".  Þeir vilja komast hjá neikvæðum pólitískum viðbrögðum á alþjóðavettvangi og mögulegu vopnakapphlaupi á svæðinu í kring.

Mordechai Vanunu starfaði sem tæknifræðingur við Dimona kjarnorkuverksmiðjuna og í efnavopnaverksmiðjunni við Nes Zion (sem hefur heldur ekki verið opnað fyrir alþjóðlegt vopnaeftirlit) frá 1976 til 1985.  Hann komst að því að verksmiðjan framleiddi á laun kjarnorkuvopn og samvisku sinnar vegna sagði hann frá því er hann lét London Sunday Times í té upplýsingar og myndir sem birtar voru sem sönnun um kjarnorkuvopnaáætlun Ísraela.  Sönnunargögnin bentu til að Ísrael ætti allt að 200 kjarnavopn án vitundar og samþykkis þegna sinna.  Nokkrum dögum áður en Sunday Times birti grein sína um efnið var Vanunu boðaður til fundar í Róm.  Þar var hann svæfður með lyfjum og hann færður aftur til Ísrael.  Eftir leynileg réttarhöld var hann dæmdur til 18 ára fangelsisvistar fyrir "njósnir og föðurlandssvik" þrátt fyrir að hafa hvorki þegið greiðslu né ráðfært sig við erlenda aðila.  Hann dvelur nú í fanglesi við mikla öryggisgæslu og 12 af 17 síðustu árum sínum hefur hann eytt í einangrun og hefur einungis fengið leyfi fyrir örfáar heimsóknir frá fjölskyldu og lögfræðingum.  Amnesty International hefur lengi barist fyrir því að Vanunu verði hleypt úr fangelsi en ekki haft erindi sem erfiði. 

Sömu stjórnmálamennirnir og standa á bak við innrásina í Írak vegna gruns um kjarnorkugetu hafa ekki heimtað að eftirlit verði með þekktum kjarnorkuvopnum Ísraela.  Þennan tvískinnungshátt er ekki hægt að  afsaka með því að Ísraelar hlýði alþjóðareglum.  Ísraelsríki hefur neitað að skrifa undir hverskonar samning sem setur reglur um notkun kjarnavopna. 

Þrátt fyrir að Ísraelar þverbrjóti allar reglur um meðferð kjarnavopna fær Ísrael 3 billjónir bandaríkjadala árlega í efnahagsaðstoð frá BNA.  Þetta gerir bandaríkjastjórn þrátt fyrir lög í BNA um hömlur við að veita ríkjum sem starfa ekki með alþjóðavopnaeftirliti aðstoð. 

[Hilary Wainwright, the Guardian, 4. Október 2002;  www.vanunu.freeserve.co.uk, http://news.bbc.co.uk/1/hi/world/middle_east/892941.stm, http://www.rayanalyse.nl/reports/199811271154.html]

Jón Karl Stefánsson