Fara í efni

Make love not war

Margir þeirra stjórnmálamanna, sem andæft hafa stríðsáætlunum Bandaríkjamanna og Breta gegn Írak, fengu eldskírn sína á tímum Víetnamstríðsins. Engin stríðsátök síðari tíma hafa með sama hætti afhjúpað fáránleika stríðsins.

Í því sambandi koma svipmyndir upp í hugann. Sú fyrri er frá vetrinum 1970-71 þegar ég stundaði framhaldsnám í Boston í Bandaríkjunum og bjó á stúdentagarði háskólans. Þennan vetur var Víetnamstríðið yfirþyrmandi í fjölmiðlum og hafði þegar valdið verulegri ólgu í bandarísku þjóðlífi. Svipmyndin er af sjálfum mér í hópi guðfræðistúdenta að horfa á kvöldfréttirnar í sjónvarpinu og tölur birtust á skjánum á hverju kvöldi yfir “casualties” eða mannfall í stríðinu. Síðan var viðtal við William Rogers utanríkisráðherra, Melvin Laird varnarmálaráðherra eða Nixon forseta sjálfan. Þeir sögðu að allt væri á réttri leið, kommúnismanum yrði veitt viðnám ella myndi þessi óhugnaður flæða yfir heiminn eins og hver maður ætti að geta séð.

Í þessum viðtölum við leiðtogana kvað oft við orðatiltækið “no comment” og ég komst fljótt að því að þá voru þeir að víkja sér undan því að svara erfiðum spurningum. En það sem kom íslenskum stúdent mest á óvart, nýútskrifuðum úr Háskóla Íslands, fjarri heimsins vígaslóð, var hlátur stúdentanna þegar leiðtogarnir birtust á skjánum. Það kom mér spánskt fyrir sjónir að þeir ráku upp skellihlátur, allir sem einn, þegar hinir háu herrar gáfu svör við kurteislegum spurningum fréttamanna.

Til að byrja með verkaði þessi háttsemi undarlega á mig: yfirvaldið fer varla með fleipur um alvarlega hluti. Mér varð fljótlega ljóst að hláturinn átti sér rætur í djúpum tilfinningum, kannski í þeim húmor sem gerir manninum kleift að horfast í augu við ógn sem hann veit að honum er ofurefli. Ef til vill eru engin viðbrögð mannsins eins afgerandi og hinn tvíráði hlátur sem kemur dýpst úr vitund mannsins. Öðrum þræði er þessi hlátur útrás fyrir djúpa fyrirlitningu: þegar hér var komið sögu mátti hverjum manni ljóst vera að málið var einn samfelldur lygavefur, hugmyndafræðin tilbúningur og stríðið sjálft grimmd og mannvonska af verstu gerð. Eitt enn rifjast upp úr fréttamálinu: “credibility gap” eða trúverðugleikabilið; það birtist svo sannarlega í hlátri stúdentanna, þeim var víðsfjarri að taka þjóðarleiðtogana alvarlega sem bjuggu í firrtri veröld óttans.

Þá var varnarmálaráðherra þeirra Kennedys og Johnsons, Robert McNamara, að sjálfsögðu ekki búinn að skrifa endurminningar sínar (Horft um öxl) þar sem hann viðurkennir, fullur iðrunar, svik og pretti hinna æðstu leiðtoga – ekki síst sjálfs sín – og hefur að launum fengið plús hjá mörgum fyrir hugrekki en miskunnarlausa gagnrýni hjá öðrum fyrir að hafa ekki breytt samkvæmt samvisku sinni og bestu vitund á réttum tíma.

Seinni svipmyndin er um sams konar hlátur. Ég er viðstaddur útskrift úr bandarískum háskóla vorið 2002. Þar sem þetta var virðulegur og sögufrægur skóli var fenginn þekktur andans maður til að flytja hátíðarræðu, enginn annar en leikskáldið Tony Kushner sem samdi m.a. hið margverðlaunaða leikrit Englar í Ameríku og hefur verið sýnt hér á landi. Tony, sem er New York búi, lét gamminn geisa um bandarísk stjórnmál og hæddist að Bush forseta í öðru hverju orði. Það sem kom mér á óvart eins og fyrri daginn var hversu skemmt áheyrendum var – var þetta aðeins grín? Fyrirlitningarhláturinn var aftur kominn í öllu sínu veldi. Að baki hans bjó hin þverstæðukennda tvíræðni hlátursins andspænis harmleiknum sem snillingar á borð við Chaplin vekja með manninum.

Enginn þjóðarleiðtogi, hversu illa innrættur sem hann kann að vera, fer í stríð nema undir yfirskini göfugustu dyggða mannsins, réttlætis, frelsis og friðar, þótt sagnfræðingar hafi lengi bent á að flest stríð séu háð vegna auðlinda og annarra áþreifanlegra hagsmuna, oftar en ekki hagsmuna einstaklinga eða fámennra forréttindahópa. Forsenda þess að unnt sé að æsa fólk til stríðs er blekkingarleikur stjórnvalda og fyrstu fórnarlömbin verða göfugar hugsjónir réttlætis, frelsis og friðar.

Tímabil Víetnamstríðsins knúði fólk til að horfast í augu við sjálft sig: við það versta sem býr innra með manninum. En einmitt þetta kallaði líka fram það besta sem með honum býr. Í skugga stríðsins þróuðust hreyfingar sem höfðu mannúð og mannréttindi, frið og samvinnu milli þjóða og trúarbragða á stefnuskrá sinni.

Það tók sinn tíma að venjast fyrirlitningarhlátri stúdentanna en að baki honum var sannfæring sextíuogátta kynslóðarinnar make love not war. Kannski hefur ekkert slagorð reynst eins áhrifamikið til góðra verka og þetta.

Víetnamstríðið mótaði heila kynslóð um víða veröld; hvernig væri heimurinn án andófs fólks sem trúir ekki á stríð sem lausn allra mála í samskiptum þjóða? Það voru ekki aðeins stjórnmálamenn samtímans, sem fengu innsýn í heim stjórnmálanna á þeim árum þegar stríðsrekstrinum í víetnömskum skógum var mótmælt um víða veröld, heldur margir fleiri. Það fólk lætur ekki blekkjast þegar sagan virðist ætla að endurtaka sig.

Lærdómurinn af Víetnamstríðinu er m.a. sá að almenningur lætur ekki að sér hæða, þeir sem fóru með lygum og stríði urðu sér til minnkunar. Sú saga er nú að endurtaka sig. Það er dapurlegt hversu veiklynd íslenska ríkisstjórnin er í þessu efni og fús til að fylgja þeim sem verja málstað stríðsaflanna í þessum heimi sem vita ekkert sér til bjargar annað en orðræðu óttans, tungumál stríðsins svo samofið blekkingum, úrræðaleysi og mannhatri sem raun ber vitni.